Hlutverk og markmið

Bókasafn Mosfellsbæjar - Þekkingarsetur Mosfellinga

Bókasafn Mosfellsbæjar er almenningsbókasafn sem þjónar einstaklingum og stofnunum í Mosfellsbæ. Safnið er rekið af Mosfellsbæ og samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn nr. 36/1997.

Hlutverk og markmið

Markmið og hlutverk almenningsbókasafna byggjast á 1. grein laga um almenningsbókasöfn nr. 36/1999:
"Almenningsbókasöfn eru upplýsinga- og menningarstofnanir. Hlutverk þeirra er að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum, þar á meðal tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi. Þau skulu efla frjálsan og óheftan aðgang almennings að upplýsingum og þekkingarmiðlum. Söfnin skulu hvert á sínu þjónustusvæði kappkosta að vera menningarstarfi og atvinnulífi til styrktar og hafa tiltækar upplýsingar fyrir almenning um opinberar stofnanir og þjónustu. Markmið þeirra skal vera að efla íslenska tungu, stuðla að símenntun og örva lestraráhuga. Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög."
Bókasafnið í Mosfellsbæ er mennta-, menningar- og rafræn upplýsingamiðstöð Mosfellsbæjar. Bókasafnið er þjónustustofnun og því er hæfni, þátttaka, menntun og virkni starfsmanna einn mikilvægasti þátturinn í starfseminni.

Hlutverk

- að vera vettvangur fyrir félags- og menningarlíf bæjarbúa þar sem almenningur getur notið menningar, bókmennta og lista, og jafnframt að vera rafræn upplýsingastofnun með nýjustu margmiðlunartækni sem völ er á á hverjum tíma. Safnið starfar samkvæmt lögum um almenningsbókasöfn nr. 36/1997.

Markmið

- að veita íbúum bæjarins jafnan aðgang að bókmenntum, menningu, fróðleik og afþreyingu.
- að veita íbúum bæjarins jafnan aðgang að upplýsingum um bæjarfélagið, íslenskt samfélag og alþjóðleg málefni.
- að standa vörð um íslenska tungu.
- að styðja menningar- og listalíf í Mosfellsbæ.
- að styðja við einstaklingsmenntun, endurmenntun, símenntun og fjarnám.
- að hvetja börn og unglinga til lestrar á leið þeirra til þroska og sjálfseflingar.
- að taka á móti og halda til haga gögnum sem hafa sögulegt gildi fyrir héraðið.
- Þjónusta safnsins skal ná til einstaklinga og stofnana og fötluðum tryggður aðgangur.

Leiðir að markmiðum

- Lögð er áhersla á hlutverk Bókasafns Mosfellsbæjar sem mennta-, menningar-, lista-,  upplýsinga- og tómstundastofnunar. Einnig er lögð áhersla á tengsl safnsins við aðrar slíkar stofnanir og almenna félagsstarfsemi.
- Safnkostur Bókasafns Mosfellsbæjar á að uppfylla kröfur um gæði og fjölbreytni bæði hvað varðar efni og form (prentað mál, hljóðbækur, myndbönd/DVD, tónlist, margmiðlunarefni o.fl.).
- Stærsti hluti safnkostsins er til útláns, en aðstaða er á safninu til að nýta annað efni.
- Safnið stendur fyrir sýningum, kynningum, fræðslu og tónlistarflutningi í samvinnu við aðila á sama vettvangi.
- Upplýsingar um safnkost Bókasafns Mosfellsbæjar og annarra safna eru notendum aðgengilegar í Gegni.
- Safnið veitir faglega upplýsingaþjónustu og notar nýjustu upplýsingatækni sem völ er á hverju sinni.
- Notendum er vísað áfram til réttra aðila fáist ekki lausn á staðnum.
- Almenningur hefur aðgang að Internetinu gegnum þráðlaust net í safninu, annað hvort gegnum eigin tölvur eða sérstökum tölvum í eigu safnsins. Einnig er aðgangur að ritvinnslu.
- Lögð er sérstök áhersla á barna- og unglingastarf, bæði á vegum safnsins og í samstarfi við grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla með kynningum og lestrarhvetjandi verkefnum og aðstöðu til tónleikahalds.
- Öldruðum er tryggð útlánaþjónusta í tengslum við félagsstarf aldraðra.
- Gerðar eru kröfur um menntun og hæfni starfsmanna safnsins og stuðlað er að símenntun, sérstaklega í upplýsingatækni.