Saga safnsins

Saga Bókasafns Mosfellsbæjar

Nítján Mosfellingar komu saman við hamarinn hjá Seljadalsá við sunnanvert Hafravatn í ágúst árið 1890. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar, sem nú heitir Bókasafn Mosfellsbæjar. Lestrarfélagið var eitt fyrsta félagið sem stofnað var í Mosfellssveit og lét fleira til sín taka en söfnun bóka og útlán þeirra. Safnið var eign fólksins sem greiddi árgjald og safnaði fé með ýmsum hætti til bókakaupa, m.a. með tombólum og öðrum skemmtunum.

Íbúar Lágafellssóknar voru 404 sálir árið 1890.

Á þriðja dag jóla 1898 var vígsluathöfn nýs húss Lestrafélagsins sem áfast var við íveruhúsið á Lágafelli og var þá sérstakt vígslukvæði flutt. Safnkosturinn komst fyrir í tveimur bókaskápum.

Fyrsta hæð skólahússins að Brúarlandi var tilbúin 1922. Þangað var safnið, sem var þá í þremur bókaskápum, flutt í skonsu við hliðina á sviðinu í kjallaranum.

Lestrarfélagið lá lágt 1930-1950. Þá var það endurreist og flutt að Álafossi í viðbyggingu Tindastóls, gegnt stóra verksmiðjuhúsinu. Bókaeignin var þá 300 eintök.

Byggingu Hlégarðs lauk 1951. Eign Lestrarfélagsins í Brúarlandshúsinu færðist yfir í Hlégarð og Lestrarfélagið var flutt þangað 1954. Var safnið opið tvö kvöld í viku. 27. desember 1956 var Lestrarfélagið formlega lagt niður og stofnað Héraðsbókasafn Kjósarsýslu til samræmis við ný lög. Fyrst um sinn var safnið opið tvær stundir á viku en síðan var afgreiðslutími lengdur. 1964 var bókaeignin orðin 3.421 eintök.

Þegar Gagnfræðaskólinn í Mosfellssveit var fluttur úr Brúarlandi í nýtt húsnæði að Varmá 1971, var safnið flutt þangað.

Ný lög voru samþykkt um almenningsbókasöfn á Alþingi 1976. Héraðsbókasafn Kjósarsýslu varð nú miðsafn fyrir Mosfells-, Kjalarnes- og Kjósarhrepp. Fyrsti bókasafnsfræðingurinn var ráðinn 1981 og skráning safnkostsins hófst.

Vorið 1983 keypti Mosfellshreppur hús Búnaðarbankans við Markholt 2 fyrir bókasafnið, ásamt viðeigandi bókasafnsbúnaði. Bókaeignin var þá um 10.000 eintök.

Safnið var flutt í Kjarna á 2. hæð turnsins og var opnað þar 1. september 1995. Tölvuskráning hófst 1989 og þegar opnað var í Kjarna var búið að tölvuskrá 16.600 eintök. Útlán voru tölvuvædd og aðgangur fyrir almenning opnaður að Interneti.

Nafni safnsins var breytt í Bókasafn Mosfellsbæjar til samræmis nýjum lögum frá 1997. Safnið breyttist úr miðsafni í bæjarbókasafn.

Bókasafnið var flutt á Torg Kjarna og opnað þar 5. febrúar 2005. Nýja húsnæðið er 1000 fm – þar af er Listasalur tæplega 100 fm.

Listasalur Mosfellsbæjar var vígður um leið og safnið var opnað. Er hann ætlaður fyrir ýmsa starfsemi tengda bókasafninu. Einnig er þar góð aðstaða fyrir myndlistarsýningar, tónlistarflutning og fræðslufundi. Flygill í eigu Tónlistarskóla Mosfellsbæjar er í salnum.

Við opnunina var einnig tekinn í notkun heitur reitur (þráðlaust net). Geta viðskiptavinir safnsins nú tengst Internetinu endurgjaldslaust gegnum eigin tölvur eða fengið aðgang að sérstökum Internettengdum tölvum í eigu safnsins gegn vægu gjaldi.

Árið 2003 var safnkosturinn um 26.000 bækur og auk þess tímarit, margmiðlunardiskar, tónlistardiskar, myndbönd og DVD.

Mosfellingar fengu með samningum árið 2000 aðgang að bókakosti Borgarbókasafns.

Útlán voru árið 2004 liðlega 66.000 og heimsóknir safngesta yfir 50.000.

Safnið hefur á þessum 115 árum breyst úr litlu lestrarfélagi í öflugt nútímalegt almenningsbókasafn með fjölbreytta þjónustu fyrir bæjarbúa alla.

Nú þegar horft er til framtíðar bókasafnsins á tímum örra samfélagsbreytinga er að mörgu að hyggja. Saga safnsins er samofin sögu sveitarinnar á fleiri en einn veg. Frá fyrstu tíð hefur safnið verið mikilvægt fyrir íbúana - menningarlega, félagslega og upplýsingalega - og er enn. Þjónustan hefur aukist í takt við tímann, er fjölbreyttari og í samræmi við auknar kröfur íbúa og stjórnvalda.

Á 100 ára afmæli safnsins skráði Magnús Guðmundsson sagnfræðingur sögu safnsins. Hægt að fá hana lánaða á safninu.