Heilsueflandi samfélag

Heilsueflnadi samfélag

Hvað er Heilsueflandi samfélag?

Um er að ræða þróunarverkefni sem Mosfellsbær hefur tekið forystu í að vinna með heilsuklasanum Heilsuvin og Embætti landlæknis. Verkefninu hefur verið skipt í fjóra þætti og unnið verður með hvern þátt í eitt ár í eftirfarandi röð:

Næring - mataræði
Hreyfing - útivist
Líðan – geðrækt
Lífsgæði – forvarnir o.fl.

Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ

Mosfellsbær er orðið, fyrst sveitarfélaga á Íslandi, heilsueflandi samfélag. Það er vel við hæfi að bærinn okkar sem er þekktur fyrir öflugt íþróttalíf og fallega náttúru taki þar með forystuna í þessu verkefni. Miðvikudaginn 2. október undirrituðu Mosfellsbær, Embætti landlæknis og heilsuklasinn Heilsuvin samstarfssamning um Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ. Samningurinn er gerður í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar sem ákvað á 25 ára kaupstaðarafmæli bæjarins að verða fyrsta Heilsueflandi samfélagið með formlegum hætti í samstarfi við Embætti landlæknis.

Verkefnið, Heilsueflandi samfélag, sem inniheldur helstu áhersluþætti landlæknis, miðar að því að setja heilsueflingu í forgrunn í allri þjónustu sveitarfélagsins hvort sem um ræðir t.d. fræðslu- menningar- eða skipulagsmál. Ætlunin er að ná til allra aldurshópa, fyrirtækja og félagsamtaka. Sambærileg verkefni eru þekkt erlendis en er nú í fyrsta skipti tekið upp hér á landi.

Heilsueflandi samfélag miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu, en verkefninu er ætlað að ná til allra aldurshópa í samfélaginu m.a. í gegnum heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, vinnustaði og starf eldri borgara og stuðla þannig að góðri heilsu, vellíðan og auknum lífsgæðum. Við þróun verkefnisins síðustu mánuði hefur verið leitast við að ná til allra hagsmunahópa í samfélaginu til að leggja línurnar um hvað skiptir mestu máli  til að ná þeim markmiðum.

Heilsuvin fer með verkefnastjórn og hefur samkvæmt samningi við Mosfellsbæ gert greiningarskýrslu um núverandi stöðu í sveitarfélaginu. Samantekt úr skýrslunni ásamt skýrslunni í heild sinni má nálgast hér til hægri.