2001

Hljómsveitin Sigur RósHljómsveitin Sigur Rós hlaut titilinn Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2001.

Hljómsveitin Sigur Rós var stofnuð undir nafninu Victory Rose í desember 1994. Stofnendur voru þeir Jón Þór Birgisson, gítarleikari og söngvari, og Ágúst Ævar Gunnarsson trommuleikari.

Hljómsveitin Sigur Rós var stofnuð undir nafninu Victory Rose í desember 1994. Stofnendur voru þeir Jón Þór Birgisson, gítarleikari og söngvari, og Ágúst Ævar Gunnarsson trommuleikari. Nafngiftina fengu þeir af Sigurrós systur Jóns Þórs, sem fæddist skömmu áður en hljómsveitin var stofnuð. Þegar þeir Jón Þór og Ágúst Ævar fóru í stúdíó með sitt fyrsta lag, Fljúgðu, bættist þriðji maðurinn í hópinn, Georg Hólm bassaleikari. Þeir fóru fljótt að vinna að stórri plötu, en vinnan gekk hægt; - bæði þurftu þeir tíma til að móta stíl sinn og stefnu og höfðu að auki ekki mikla peninga milli handanna til að kaupa stúdíótíma. Haustið 1997 kom loks fyrsta plata Sigur Rósar út hjá Smekkleysu. Platan hét Von, fékk prýðis viðtökur. Fjórði maðurinn, Kjartan Sveinsson, bættist við, maður sem spilaði á allt mögulegt, en átti eftir að setja svip sinn á sveitina sem hljómborðsleikari. Strax var farið að vinna að næstu plötu, Ágætis byrjun, sem Smekkleysa gaf út sumarið 1999, en í millitíðinni var Von endurútgefin mikið endurunnin og með einu nýju lagi, undir nafninu Von-brigði.
Haustið 1999 hófst samstarf Sigur Rósar við Steindór Andersen kvæðamann, eftir að sjónvarpskonan Eva María Jónsdóttir leiddi þá Jón Þór og Steindór saman í þætti sínum Stutt í spunann. Jónsi fékk mikinn áhuga á að vinna meira með kvæðamönnum og sótti um styrk til borgarinnar til þessháttar verkefnis, en var synjað.

Ágætis byrjun fékk frábæra dóma og Sigur Rós fór í tónleikaferð um landið. Þá var Ágúst hættur, en Orri Páll Dýrason tekinn til við trommusláttinn. Smekkleysa gekkst fyrir því að semja við enska útgáfufyrirtækið Fat Cat um útgáfu á Sigur Rós þar í landi, og smáskífan Svefn-g-Englar kom út þar í september 1999. Það var strax ljóst að Sigur Rós ætti erindi á enskan markað, því í vikunni áður en platan kom út, valdi tónlistartímaritið New Musical Express hana smáskífu vikunnar. Það var kominn tími til að spila erlendis og um haustið var haldið í tónleikaferð til Danmerkur og Englands. Umsagnir erlendra blaða um leik Sigur Rósar voru á einn veg - frábær hljómsveit, og Sigur Rós var spáð mikilli velgengni. Það jók hróður Sigur Rósar enn, að henni var boðið að hita upp fyrir bresku rokksveitina Radiohead á tíu tónleikum. Ágætis byrjun kom út ytra og hefur nú selst í nálægt 400.000 eintökum, þar af helmingurinn vestanhafs, en þar kom hún út á vegum MCA útgáfunnar vorið 2001. Árið 2001 var bæði ferðast um Evrópu og Bandaríkin og með í för voru Steindór Andersen og strengjakvartettinn Anima. Árið 2000 vann Sigur Rós tvö lög fyrir kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Engla alheimsins, írska lagið Bíum bíum bambaló og útvarpsstef Jóns Múla Árnasonar við dánarfregnir og jarðarfarir og ári síðar voru þrjú lög Ágætis byrjunar notuð í kvikmynd Cameron Crowes, Vanilla Sky. Árið 2002 lögðu Sigur Rós, Steindór og Hilmar Örn Hilmarsson saman krafta sína að frumkvæði Listahátíðar og sköpuðu stórvirkið Hrafnagaldur Óðins, frumfluttu það í London og endurtóku á Listahátíð þá um vorið. Fyrir það feiknargóða spilverk voru Sigur Rós, Steindór og Hilmar tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Reyndar hefur Sigur Rós hlotið alls kyns viðurkenningar, útnefningar og tilnefningar, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin.

Ein af tíu bestu hljómsveitum heims - ein af fjörutíu bestu hljómsveitum fyrr og síðar ..., vegsemdin er mikil. Næsta plata Sigur Rósar, ( ) kom út í október í fyrra, og ekki olli hún gagnrýnendum vonbrigðum. Í dag hafa á fimmta hundrað þúsund eintaka verið seld. Frá útmánuðum hefur Sigur Rós enn verið að spila í útlöndum; í Bandaríkjunum, Evrópu og nú síðast í Japan. Nú á vordögum kom líka út plata hljómsveitarinnar með tónlist við heimildamynd Ólafs Sveinssonar, Hlemm. Næst er ferðinni heitið á Hróarskelduhátíðina sem hefst í næstu viku