2003

Steinunn MarteinsdóttirSteinunn Marteinsdóttir listamaður hlaut titilinn Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2003 við hátíðlega athöfn.
Listar Steinunnar Marteinsdóttur er fyrst getið í pistli sem Málfríður Einarsdóttir rithöfundur skrifaði í Þjóðviljann um sýningu á verkum nemenda og kennara í Handíða- og Myndlistaskólanum árið 1957.  Málfríður bölsótast yfir yfirmáta ljótleika í Reykjavík, ljótum kvikmyndum, húsum, dagblöðum, ljótum kirkjum húsgögnum og því “billega dóti” sem menn hafa í kringum sig til heimilisprýði og ætti að fara beint á öskuhauga eða vera sökkt í sjó. Svo fagnar Málfríður því að verkin á sýningunni séu stór huggun og liðsauki í baráttunni við ljótleikann og tekur dæmi af skissu að gulri skál eftir Steinunni og segir: “á þeirri skál óx einn dropi úr hinu óendanlega dropatali eilífðarinnar, varðaður þverrákum tímans.
Þessi umsögn má heita góður spádómur um list Steinunnar og hlutverk hennar í samtímanum. Hún átti eftir að gera skálar margar og aðra gripi sem urðu fljótt annað og meira en nytjahlutir og kölluðust á við “dropatal eilífðarinnar”. Og hún átti mikilsverðan þátt í því starfi sem vann gegn ofríki smekklausrar ef ekki ljótrar “gjafavöru,” sem svo var kölluð, með því að skapa leirlist sem sótti í krafti frumleika og fágaðrar formgleði fram til aðildar og réttar í íslenskri menningu - síðar meir við hlið glerlistar, veflistar og annarra áður vanmetinna  greina myndrænnar sköpunar.
verk Steinunnar Marteinsdóttur
Steinunn Marteinsdóttir fæddist í Reykjavík 1936 í húsi afa síns Bjarna Sæmundssonar náttúrufræðings. Móðir hennar, Kristín Bjarnadóttur, kenndi á píanó, faðir hennar Marteinn Guðmundsson starfaði sem myndskeri og myndhöggvari - og gerði reyndar mjög fallega höggmynd af Steinunni barnungri. Marteinn var frá Merkinesi í Höfnum og þar dvaldi fjölskyldan einatt á sumrin, þar vann Steinunn ung við rófnarækt og í frystihúsi. Föður sinn missti Steinunn fimmtán ára. Eftir stúdentspróf var hún einn vetur í Handíða- og Myndlistaskólanum en hélt síðan með manni sínum  Sverri Haraldssyni listmálara til Berlínar og var þar við nám á árunum 1957-1960 við Hochschule für Bildende Künste. Hún ætlaði í fyrstu að læra allt mögulegt - en kaus svo að efla sig til dáða á keramikdeild skólans. Leggja stund á einhverja elstu list heimsins, sem fyrir meira en fjögur þúsund árum skapaði keröld og könnur í Grikklandi og öðrum Miðjarðarhafslöndum sem ekki hafa úr gildi fallið síðan vegna fágaðs samspils gagnsemi og fegurðar sem í þeim birtist.
Þessi forna list átti þá svo skamma sögu á Íslandi að menn vissu varla af henni. Guðmundur frá Miðdal hafði gerst brautryðjandi í greininni, Gestur Þorgrímsson og Sigrún Guðjónsdóttir og fleiri höfðu lagt margt gott til mála með Laugarnesleir, verkstæði sem byrjaði 1948 og starfaði um nokkurra ára skeið. Ragnar Kjartansson stofnaði síðan leirmunagerðina Glit og þangað réðist Steinunn til starfa þegar hún kom heim frá Berlín; fóru verk þeirra Steinunnar á sýningu í Smithsoniansafninu í Washington 1961 og var vel tekið. Steinunn rak svo eigið verkstæði á árunum 1961-66. Hún talar um það í viðtali frá þeim árum, að hún búi til hluti sem hún reyni að gefa gildi umfram nytjahlutverk þeirra. Hún vill einnig að keramik sín “hvíli fólk frá þessari óskaplegu fjöldaframleiðslu sem er allt í kringum okkur ”2). Steinunn tók síðar fram, að hún hafi stundum orðið þreytt á að framleiða á markað, það sem selst best er ekki alltaf það sem mann langar til að gera, segir hún 3) - og það er sem hún óttist að list hennar verði að bráð endurtekningunni sem markaðseftirspurnin ýtir eftir. Nema hvað: Steinunn hættir sínum rekstri um hríð og fæst á árunum 1967-73 mest við að kenna keramik á námskeiðum. Síðan þá hefur hún oft haldið uppi kennslu í lengri og skemmri tíma.

Árið 1969 höfðu þau Sverrir Haraldsson keypt Hulduhóla í Mosfellsveit og komið þar upp vinnustofum í endurbyggðri hlöðu og fjósi. Þar vinnur Steinunn að nýjum verkum og safnar til mikillar sýningar sem haldin var á Kjarvalsstöðum 1975 - og markaði tímamót á hennar ferli og í sögu íslenskrar leirlistar.

Þetta var stór sýning - gripirnir fleiri en 400, aðsókn mjög mikil og öll athygli eftir því. Enda gaf hér á að líta. Víst voru hér hefðbundnir nytjahlutir, stórir og smáir, t.d. skálar á borð, bollar að drekka úr, meira að segja eggjabikarar. En þegar á heildina er litið stefndi listakonan af einbeitni og frjálsu hugviti burt frá nytjagildinu. Einn gagnrýnandinn sagði það bjarga nytjahlutunum frá því að verða “offínir dauðir skrauthlutir” að beitt væri “leikandi léttri kímni” í notkun ýmissa aukaforma á þeim 4).  Í stærri verkum var sótt enn lengra frá skál og vasa til “frjálsrar ummyndunar sýnilegra forma” 5). Og þessi sýnilegu form voru sótt til náttúru landsins. Á sýningarborðum stóðu stórir vasar úr brenndum leir, en þeir voru um leið skáldskapur ortur um klettabelti Esjunnar með snjó í giljum og um  hvítan koll Snæfellsjökuls sem leikur við himin sjálfan eða þá að leikið var á strengi fossins Glyms í Hvalfirði. Hin ævaforna leirlist var gengin í fagurt og frjósamt samband við fjöll og önnur undur, nálæg, traust og um leið síbreytileg. Ísland er svo keramískt, sagði Steinunn - og það hefur hún staðið við síðan með margvíslegri tjáningu á þeim áhirfum sem birtast í jöklastefjum hennar og Esjustefjum og kannski í krukkum sem líkjast “því andartaks formi sem myndast þegar leirhverinn ropar”6). Eða þá - og svo varð í vaxandi mæli síðar meir - að verk hennar sögðu með öllu skilið við form vasa og skálar og urðu rismyndir á vegg, sumar mjög stórar eins og t.d. steinblómin dularfullu á fyrrum Pósthúsi í Ármúlanum.

Gagnrýnendur voru nokkuð beggja lands um þessi nýmæli: að flytja landslagsáhrif inn í keramík. Þeir fóru þá og síðar, t.d.  þegar kom að næstu einkasýningum Steinunnar á Kjarvalsstöðum (1981 og 1984) með drjúgt lof um persónulegan stíl listakonunnar, um “yndisþokka upprunaleikans”7) og um “ljóðræn og tilfinningarík verk.” 8) En um leið mátti oftar en ekki heyra vissa fyrirvara eins og gagnrýnendur gætu ekki sætt sig við að verk úr leir gerðust myndlist á næsta bæ við málverk og skúlptúr og teldu farsælast að leirskáld eins og Steinunn Marteinsdóttir legði  mest stund á hreinræktun á formum, litbrigðum og áferð nytjahluta. Og stillti sig þá um að vísa með augljósum hætti í fjall og foss, fugl og blóm - eða þá hendur og andlit mannsins.