2009

Bæjarlistamaður 2009Sigurður Ingvi Snorrason tónlistarmaður hefur verið virkur í menningarlífi bæjarins með tónleikahaldi af ýmsu tagi. Hann hlaut á dögunum titilinn Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2009

Úr popptónlist í háklassík

Þegar maður skoðar ferilskrá Sigurðar Ingva er ekki hægt að segja annað en að hann hafi komið víða við í íslensku tónlistarlífi. Hann hóf námsferil sinn í tónlist aðeins níu ára gamall í Drengjalúðrasveit Austurbæjar og lék þar á althorn. Síðan þá hefur hann leikið á hin ýmsu hljóðfæri en klarínettan varð fyrir valinu á endanum og hefur Sigurður Ingvi sótt nám í klarínettuleik bæði hér heima sem og erlendis. Hann var ráðinn til Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1973 og hefur margsinnis leikið einleik með hljómsveitinni.

„Ég er fæddur í Reykjavík 22. apríl 1950 og er alinn upp í Vogahverfinu, nánar tiltekið í Karfavoginum,“ segir Sigurður Ingvi. „Foreldrar mínir voru þau Sigurást (Ásta) Sigurðardóttir húsmóðir og verslunarmaður og Snorri Daníel Halldórsson bílstjóri og frístundamálari en þau eru bæði látin. Ég á tvo eldri bræður þá Snorra Örn og Gunnar Pál. Ég hóf skólagöngu í Vogaskóla og lauk gagnfræðaprófi þaðan.
Það var mikið sungið og spilað á heimili okkar, gítar, tvær harmónikkur og gamalt fótstigið orgel voru þar til staðar. Pabbi og Gunnar bróðir léku á gítar og nikku og spiluðu þeir stundum dúetta á nikkurnar. Þegar fjölskylduboð voru haldin heima, gjarnan á stórhátíðum, var lúinn belgur orgelgarmsins gjarnan troðinn og sálmar sungnir enda  mikið um gott söngfólk í fjölskyldunni.“

Níu ára í lúðrasveit

„Ungir að árum höfðum við bræðurnir mikinn áhuga á tónlist og þegar ég var átta ára fékk Snorri Örn að fara í Drengjalúðrasveit Austurbæjar. Þetta vakti hjá mér mikla öfund og ég linnti ekki látum fyrr en pabbi sótti um fyrir mig líka og ég var settur á biðlista. Ári seinna rættist von mín og ég hóf nám á althorn hjá Karli Ottó Runólfssyni tónskáldi sem kenndi mér jafnframt tónfræði og ég fékk að byrja strax í lúðrasveitinni. Ég get ekki sagt að önnur áhugamál hafi komist að á þessum tíma, pabbi var mikill Valsari og ég prófaði að fara á æfingar hjá knattspyrnudeildinni en þær æfingar urðu ekki fleiri en tvær,“ segir Sigurður Ingvi hlæjandi, „tónlistin átti hug minn allan.“

Stofnaði hljómsveit 12 ára

„Árið 1962 stofnuðum við Snorri bróðir minn popphljómsveitina Orion ásamt Eysteini Jónassyni sem var trompetleikari í Drengjahljómsveitinni og við byrjuðum fljótlega að spila opinberlega. Fyrsti trommuleikarinn var Björn Björnsson en síðan tók Stefán Jökulsson sæti hans. Fyrsta söngkonan okkar var Rósa Ingólfsdóttir en eftirmaður hennar var Sigrún Harðardóttir sem söng lengst með okkur. Þetta var alveg frábær tími sem skilur eftir sig góðar minningar. Þessu samhliða sótti ég nám í klarínettuleik og píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík en árið 1967 hóf ég nám við Tónlistarháskólann í Vínarborg og lauk þaðan prófi fjórum árum síðar.“

Fyrsti skólastjóri F.Í.H.

Sigurður Ingvi starfar í dag með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur farið með hljómsveitinni víða um heim. Hann hefur starfað í hljómsveit Þjóðleikhússins frá árinu 1973 og í hljómsveit Íslensku Óperunnar frá stofnun hennar auk þess að vera virkur í kammertónlist. Hann hefur kennt í hinum ýmsu tónlistarskólum og er nú deildarstjóri blásaradeildar Tónlistarskólans í Reykjavík. Hann stóð að uppbyggingu Tónlistarskóla F.Í.H. og var fyrsti skólastjóri skólans. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á sínum langa ferli og er þá helst að nefna verðlaun frá ráðherra vísinda og rannsókna í Austuríki fyrir framúrskarandi námsárangur við  Tónlistarskólann í Vínarborg og gullmerki Félags Íslenskra hljómlistarmanna. Á bæjarhátíðinni „Í túninu heima“ var Sigurður útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Undanfarin ár hefur Sigurður Ingvi starfrækt eigin Salonhljómsveit sem spilar vínartónlist og aðra tónlist í léttari kantinum.

Árlegir aðventutónleikar

Sigurður Ingvi og fjölskylda hans hafa búið í Mosfellsbæ frá árinu 1990. Hann er giftur Önnu Guðnýju Guðmundsóttur píanóleikara og eiga þau tvö börn þau Ástu fædda 1989 og Guðmund Snorra fæddan 1992. Fyrir átti Sigurður Ingvi tvo syni þá Marían fæddan 1975 og Daníel fæddan 1976 með Manuelu Wiesler flautuleikara. Barnabörnin eru tvö þeir Bergvin Máni og Bjarki Freyr.
Sigurður Ingvi hefur staðið fyrir og tekið þátt í menningarlífi bæjarins með tónleikahaldi af ýmsu tagi og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hann er einn af stofnendum Tónlistarfélags Mosfellsbæjar og hefur setið í stjórn þess frá upphafi. Sigurður Ingvi hefur einnig staðið fyrir árlegum aðventutónleikum sem haldnir hafa verið í Mosfellskirkju frá árinu 1997 með félögum sínum í tónlistarhópnum „Diddú og drengirnir“ og eiga þeir tónleikar miklum vinsældum að fagna og er viðburður sem tónlistarunnendur mega ekki láta framhjá sér fara.

Viðtalið er eftir Ruth Örnólfsdóttur og birtist í Mosfellingi 11. september 2009.