2010

Jón Kalman Stefánsson rithöfundur

Jón Kalman Stefánsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1963 og bjó þar til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur og bjó þar til ársins 1986. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og flutti svo aftur til Reykjavíkur árið 1986. Frá 1975 til 1982 var Jón í sveit vestur í Dölum og vann í sláturhúsinu þar þrjú haust.

Jón Kalman lagði stund á bókmenntafræði við Háskóla Íslands á árunum 1986 til 1991. Hann kenndi bókmenntir við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Einnig skrifaði hann greinar og gagnrýndi bækur fyrir Morgunblaðið í nokkur ár.
Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995 og sinnti ýmsum störfum þar. Hann flutti í Mosfellsbæ árið 1996 og starfaði sem bókavörður við Bókasafn Mosfellsbæjar frá hausti það ár til vors 2000. Síðan þá hefur hann verið starfandi rithöfundur.

Jón Kalman hefur sent frá sér fjölda bóka; ljóð, skáldsögur, þýðingar og smásagnasafn. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Með byssuleyfi á eilífðina, kom út árið 1988. Ári síðar sendi hann frá sér ljóðabókina Úr þotuhreyflum guða og árið 1993 Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju. Jón sendi frá sér fyrsta prósaverk sitt árið 1996, smásagnasafnið Skurðir í rigningu, og fyrstu skáldsöguna, Sumarið bak við brekkuna, árið 1997. Síðan hafa komið út skáldsögurnar Birtan á fjöllunum 1999, Ýmislegt um risafurur og tímann 2001, Snarkið í stjörnunum 2003, Sumarljós, og svo kemur nóttin 2005, Himnaríki og helvíti  2007 og Harmur englanna 2009.

Ónefnt er þýðingarstarf Jóns Kalmans. Hann hefur þýtt talsvert af bókmenntum, aðallega ljóð, m.a. eftir Charles Bukowski, írakska skáldið Sa'di Yusuf, Sýrlendinginn Muhammad Al-Maghut, Pólverjann Adam Zagajewski og tyrkneska skáldið Nâzim Hikmet. Einnig hefur Jón þýtt sögur eftir Martin A. Hansen og skáldsögurnar Loftskeytamanninn eftir Knut Hamsun og Umskiptinginn eftir Selmu Lagerlöf.

Jóni Kalman hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf. Þrjár af bókum hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Sumarið bak við brekkuna 2001, Ýmislegt um risafurur og tímann 2004 og Sumarljós, og svo kemur nóttin 2007. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir skáldsöguna Sumarljós, og svo kemur nóttin. Jón hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir Himnaríki og helvíti 2007 og Harm englanna 2009 sem valdar voru besta skáldsaga ársins. Þá fékk hann viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins árið 2006.

Bækur Jóns Kalmans hafa verið þýddar á þýsku, sænsku, dönsku, norsku, ensku, hollensku og frönsku og fengið góðar viðtökur.

Segja má að helsta höfundareinkenni og aðalstyrkleiki Jóns Kalmans sé frásagnarstíll hans. Þormóður Dagsson segir um stíl hans að sjá megi; „nokkur keimlík stef í ljóðum hans og skáldsögum en þar ber sérstaklega á vangaveltum um tímann og tungumálið. Auk þess er textinn í skáldsögum hans oft á tíðum afar ljóðrænn og lífsspekilegur“.