Hallsteinn Sigurðsson

Hallsteinn Sigurðsson er fæddur árið 1944. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1963 til 1966 en hélt þá til Bretlands þar sem hann lagði stund á höggmyndalist við ýmsar stofnanir til ársins 1972. Eftir það fór hann í nokkrar námsferðir, meðal annars til Ítalíu, Grikklands og Bandaríkjanna.

Hallsteinn hélt á annan tug einkasýninga á árunum 1971 til 1997, meðal annars á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsal. Hann hefur einnig tekið þátt í á þriðja tug samsýninga hér heima og erlendis. Hallsteinn hefur tekið þátt í fjölda samkeppna, gert verðlaunagripi fyrir ýmis tilefni og unnið minnismerki fyrir samtök og sveitarfélög. Verk Hallsteins eru meðal annars í  eigu Listasafns Borgarness, Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur. Tugir verka hans eru í opinberri eigu, þ.á m. Reykjavíkurborgar, Borgarhrepps í Mýrasýslu, Seltjarnarneskaupstaðar, Búðardals og Rauða krossins.

Hallsteinn hefur fjórum sinnum hlotið þriggja mánaða starfslaun listamanna í Reykjavík og árið 1995 hlaut hann þriggja ára starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna. Hallsteinn er félagi í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Sambandi íslenskra myndlistarmanna.

 

Listamanninum var úthlutað einum og hálfum hektara lands í Gufunesi fyrir höggmyndir og eru þar 25 myndir í eigu höfundar.

Nánari upplýsingar um listamanninn er að finna hjá Upplýsingamiðstöð myndlistar. 

 

Verk eftir Hallstein Sigurðsson í eigu Mosfellsbæjar

 

Nafn listaverks: Veðrahöll III. 1984
Efni – aðferð: Steinsteypa
Stærð:  51x24 cm
Staðsetning:  Bæjarskrifstofur Kjarna, fundarherbergi á 4. hæð.

Verkið er viðurkenning til Mosfellsbæjar fyrir merkt framlag til umhverfis- og útivistarmála 1989 frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.