Hringur Jóhannesson

Hringur Jóhannesson fæddist í Aðaldal árið 1932 og lést árið 1996. Hringur stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík á árunum 1949-1952 og lauk þaðan teiknikennaraprófi. Hann þótti vera einn helsti fulltrúi ljóðræns nýraunsæis í íslenskri myndlist á sjöunda og áttunda áratugnum.

Sem myndlistarmaður starfaði hann við auglýsingagerð, bókaskreytingar, myndskreytingar fyrir dagblöð og tímarit auk hönnunar einkennismerkja og minnispeninga fyrir margvísleg félög og tilefni.

Á ferli sínum hélt hann rúmlega fimmtíu einkasýningar á verkum sínum hér á landi auk nokkurra í Danmörku. Þar að auki tók hann þátt í á áttunda tug samsýninga.
Verk eftir Hring eru meðal annars í eigu Listasafns Akureyrar, Listasafns ASÍ, Listasafns Borgarness, Listasafns Hafnarfjarðar, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafns Húsavíkur, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins í Reykjavík.

Hringur hlaut starfslaun listamanna í eitt ár árið1982 og sex mánaða starfslaun hjá launasjóði myndlistarmanna í Reykjavík árið 1993.

Á ferli Hrings birtist víða umfjöllun um verk hans á síðum dagblaða og tímarita,  fjöldi viðtala í ljósvakamiðlum, auk þess sem skrifaðar hafa verið um hann námsritgerðir bæði við Myndlista-og handíðaskólann og Kennaraháskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um listamanninn er að finna hjá  Upplýsingamiðstöð myndlistar.

 

 

Verk eftir Hring Jóhannesson í eigu Mosfellsbæjar: 

 

Nafn listaverks: Úr hljóðaklettum. 1986
Efni – aðferð: Pastellitir
Stærð:  60x70 cm
Staðsetning:  Íbúðir aldraðra að Hlaðhömrum (forstofa)
Verkið er gjöf frá Kvennadeild Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, á stofndegi Mosfellsbæjar 9. ágúst 1987