Örn Þorsteinsson

Örn er fæddur 1948. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá árinu 1966 til 1970. Þá hélt hann til Svíþjóðar þar sem hann dvaldi frá 1971 til 1972 við nám í Konstskolan í Stokkhólmi.

Örn hefur unnið margvísleg störf í tengslum við myndlistina. Hann hefur starfað við uppsetningu sýninga fyrir Norræna húsið og hannað verðlaunagripi fyrir Menningarverðlaun DV árið 1989 og Forsetaverðlaun Útflutningsráðs árið 1991. Hann hefur sinnt myndlistarkennslu, rekið sýningarsali og unnið margvísleg félagsstörf, meðal annars verið formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og formaður sýningarnefndar Félags íslenskra myndlistarmanna.

Örn hefur haldið á annan tug einkasýninga frá árinu 1977 og tekið þátt í fjölda samsýninga. Verk eftir Örn eru meðal annars í eigu Listasafns ASÍ, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafns Íslands og Listasafns Kópavogs. Verk eftir Örn í opinberri eigu eru hátt á annan tug.

Örn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og alloft hlotið listamannalaun. 

Nánari upplýsingar um listamanninn eru á vef Upplýsingamiðstöðvar myndlistar.