Hjalti Úrsus Árnason 2006

Hjalti Ursus valinn Mosfellingur ársins 2006 Kraftakarlinn og kerfisfræðingurinn landsþekkti Hjalti „Úrsus” Árnason er Mosfellingur ársins 2006.

Hjalti er einn mesti afreksmaður landsins í kraftlyftingum og hefur unnið til fjölda titla sem slíkur, bæði hérlendis sem og erlendis. Undanfarin ár hefur hann lagt metnað sinn í að skrásetja sögu eins þekktasta aflraunamanns Íslands, Jóns Páls Sigmarssonar. Mynd hans, sem ber heitið „Þetta er ekkert mál”, er mest sótta heimildamynd sem gerð hefur verið á Íslandi og er meðal annars tilnefnd til Edduverðlaunanna. Hátt í 12.000 manns hafa séð þessa heimildamynd sem hefur vakið mikla athygli. Mikill áhugi er meðal erlendra kvikmyndargerðarmanna að fá hana sýnda. Sala myndarinnar hérlendis í formi DVD er þegar komin í gullsölu sem er ótvírætt merki þess að myndin hafi fallið í góðan jarðveg.  „Það er von mín að minningin um Jón Pál, þennan frábæra félaga og vin, gleymist aldrei”, sagði Hjalti. Að lokum vildi Hjalti bæta við að sú nafnbót að vera Mosfellingur ársins væri sannur heiður.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir mig og heiður," segir Hjalti „Úrsus" Árnason, kraftlyftinga- og kvikmyndagerðarmaður. Hjalti var fyrir skömmu útnefndur Mosfellingur ársins 2006 en það er bæjarblaðið Mosfellingur sem veitir viðurkenninguna. Heiðurstitilinn fékk Hjalti meðal annars fyrir störf sín í þágu kraftlyftinga hér á landi sem og fyrir mynd sina um Jón Pál Sigmarsson.