2006 - 2007

„Mosfellingar samtímans“

Myndir úr safni bæjarblaðsins Mosfellings
9. ágúst - 25. ágúst 2007

Myndir frá sýningunni

Bergsteinn Ásbjörnsson

„Bönd“

9. júní – 28. júlí 2007

Sýningin Bönd er innsetning sem Bergsteinn vinnur inn í rými Listasalar Mosfellsbæjar. Verkið tengist hugleiðingum listamannsins um hjónaband, ættarband en þó að mestu um tímann og er verkið tilraun til að gera tímann og tímans bönd sýnileg. Grunnur verksins er í norrænni goðafræði sem fléttast órofa böndum saman við innsetninguna.
Myndir frá sýningunni

Freyja Önundardóttir

„Eiginleikar“

5. maí – 2. júní 2007

Málverk Freyju hafa í breyst mikið í gegnum tíðina. Allt frá hugrenningum um tengsl manna og náttúru, með manninum í forgrunni, yfir í að sýna náttúruna án mannsins. Verk hennar búa yfir náttúrustemningu og eru huglægar landslagsmyndir. Á sýningu Freyju í Listasal Mosfellsbæjar var kafað ofan í svörðinn þar sem eiginleikar landsins eru kannaðir.

Nánar um Freyju
 

„Sjömílnaskór“

Samsýning sjö listamanna í boði Listasalar Mosfellsbæjar
31. mars – 28. apríl 2007

Sjö listamönnum var boðið að sýna í Sjömílnaskóm í Listasal Mosfellsbæjar. Í hópnum eru listamenn sem vinna með fjölbreytta miðla og spanna því vítt róf myndlistar (ljósmyndir, innsetningar, málverk, skúlptúr og fleira). Listamennirnir eru með ólíkan bakgrunn og mislangan feril að baki. Þeir eiga þó allir sameiginlegt að eiga rætur að rekja til Mosfellsbæjar.

Listamenninrnir voru:

Berglind Jóna Hlynsdóttir (f. 1979)
Eyþór Árnason (f. 1981)
Heiða Harðardóttir (f. 1977)
Ingibjörg Birgisdóttir(f. 1981)
Oddvar Örn Hjartarson (f. 1977)
Unnar Örn Jónasson Auðarson (f. 1974)
Þórdís Aðalsteinsdóttir (f. 1975)
Myndir frá sýningunni

Ragnar G. Einarsson og Guðlaug Friðriksdóttir

„Bóklist á vegg og myndlist á bók“

24. febrúar - 24. mars 2007

Bókband er gamalgróin iðngrein sem byggir á handverki þar sem rétt handbragð og auga fyrir formfegurð ráða ferðinni. Listbókband er hreint handverk sem í mörgu styðst við sömu markmið og listgreinar. Skilin á milli handverks og listar eru því óljós.

Ragnar G. Einarsson og Guðlaug Friðriksdóttir vinna saman að listbókbandi og leggja mikið upp úr því að viðhalda þessari list sem þróast hefur á Íslandi frá fornri tíð. Einnig sýnir Guðlaug olíu- og akrílmálverk sem hún tengir við bókbandið. Á sýningunni gefur m.a. að líta 400 ára minningarútgáfu Guðbrandsbiblíu handinnbundna á listilegan hátt. Ragnar og Guðlaug draga hér fram í dagsljósið hluta af því sem þau hafa verið að vinna að, sameiginlega og sitt í hvoru lagi, síðastliðin 15-20 ár.

Myndir frá sýningunni

Bryndís Brynjarsdóttir

„Hið óendanlega rými og form“

20. jan. – 17. feb 2007

Í verkum Bryndísar er að finna persónulega sýn og upplifun á umhverfi æskustöðvanna á Dalvík. Einstök dýpt Eyjafjarðarins þar sem blandast saman bæði huglæg og raunveruleg sýn að sjóndeildahring hafsins. Í verkum hennar má sjá áhrif strangflatarlistar, mínimalisma og op-listar og úr þeim áhrifum spilar Bryndís um leið og hún skapar sín eigin persónulegu verk þar sem leika saman form og hið óendalega rými.
Nánar um Bryndísi

Nemendasýning

„Í fótspor listamanna“

15. des. 2006 - 15. jan. 2007

Nemendur settu sig í fótspor myndlistarmanna með því að kynna sér listamenn og verk þeirra. Síðan völdu þeir sér eitt málverk til að endurmála. Nemendurnir þurftu að finna út rétta liti og áferð svo endurgerðin líktist frummyndinni sem allra mest.
Nemendur Lágafellsskóla völdu sér popplistamenn til að vinna með en nemendur Varmárskóla einbeittu sér að íslensku listamönnum.

Myndlistarkennarar:

Lágafellsskóli - Arna Björk Birgisdóttir
Varmárskóli - Elísabet Stefánsdóttir

Ólöf Oddgeirsdóttir

„Táknmyndir“

18. nóv. - 9. des. 2006

Verk Ólafar eru teikningar unnar á pappír með blýanti og vatnslit. Hún sækir myndefni sitt í gömul útsaums- og vefnaðarmynstur sem mörg hver byggja á táknmyndum úr náttúrunni s.s. trjám, blómum og fuglum. Inn í mynstrin vefjast svo lífræn form og æðar sem fléttast saman við manngerð mynstur.
Sýningin bar yfirskriftina Táknmyndir þar sem mynstrin vísa til menningararfs, kvenlegra gilda og lífræn form hins ytri og innri heims. Tíminn vinnur sitt verk, nýgræðingur vex upp og dafnar í frjóum jarðvergi þess sem var og nær að lokum yfirhöndinni. Eðlilegur ferill breytinga er undirtónn verkanna ásamt endurnýjunar bæði í menningarlegu og náttúrulegu tilliti.
Nánar um Ólöfu

Gréta Berg

„Grasakonan“

29. okt. – 11. nóv. 2006

Sýning Grétu Berg, Grasakonan, fjallaði um tengsl hjúkrunar, geðræktar og listar þar sem heilbrigði og dramatík sálarlífsins léku um myndirnar. Í tengslum við sýninguna bauð Gréta sýningargestum upp á slökun á laugardögum.
Myndir frá sýningunni

Steinunn Marteinsdóttir

„Lifandi land – lifandi vatn“


23. september – 14. október 2006

Steinunn Marteinsdóttir sýndi í Listasal Mosfellsbæjar nýjustu málverk sín og fjölluðu verkin um land og náttúru. Steinunn nálgast náttúruna sem lifandi veru hlaðna vissri dulúð, náttúru sem á undir högg að sækja vegna síaukinna umsvifa mannsins og framkvæmdahroka.
Nánar um Steinunni

Sigfús Halldórsson

„Sigfús í ljúfri sveiflu“

7. septemper – 18. september 2006

Sigfús Halldórsson (1920 - 1996) tónskáld og listmálari er eitt af okkar ástsælustu tónskáldum og þekktustu dægurlagasmiðum. Eitt frægasta dægurlag hans er líklega Litla flugan.
Auk þess að vera öflugur dægurlagasmiður var Sigfús einnig myndlistarmaður. Hann stundaði nám bæði hér heima og erlendis. Sigfús sinnti ýmsum störfum sem tengdust myndlist s.s. leiktjaldamálun og myndlistarkennslu. Hann málaði oft á tíðum mannamyndir og landslag en þó voru húsa- og götumyndir það myndefni sem hann hélt mest upp á.