Hátíðisdagar

Mosfellingar halda vegleg upp á hátíðisdaga landsmanna og hafa skipast um þá fastar hefðir. Mikill fjöldi fólks kemur saman og skemmtir sér á þessum hátíðisdögum, jafnt Mosfellingar sem aðrir.

Þrettándagleði

Fyrst ber að nefna Þrettándagleðina í Mosfellsbæ sem er ein fjölmennasta hátíðin sem haldin er í Mosfellsbæ ár hvert. Þrettándagleðin er með föstu sniði. Hún hefst með blysför frá Miðbæjartorginu undir stjórn Skátafélagsins Mosverja og gengið er að brennustæðinu sem er fyrir neðan Holtahverfi (Varmárbakkar). Álfakóngur og álfadrottning mæta á svæðið og einnig Grýla, Leppalúði og þeirra hyski.Skólahljómsveit Mosfellsbæjar leikur á álfabrennunni og fjöldasöngur er undir stjórn mosfellskra kóra. Björgunarsveitin Kyndill lýkur hátíðinni með glæsilegri flugeldasýningu.  Minnt er á að næg bílastæði eru við Þverholt, þaðan sem blysförin leggur af stað.

Sumardagurinn fyrsti

Sumardagurinn fyrsti skipar fastan sess í hátíðarhöldum í sveitarfélaginu. Skátafélagið Mosverjar hefur veg og vanda af skipulagningu hátíðarinnar. Dagskráin er yfirleitt með þeim hætti að rétt fyrir kl. 13 er safnast saman á Miðbæjartorgi og gengið í skrúðgöngu að Lágafellsskóla þar sem hátíðarhöldin fara fram. Þar er meðal annars boðið upp á skátatívolí, kaffisölu og menningaruppákomur. Að lokinni dagskrá við Lágafellsskóla fer fram árleg dagskrá Leikfélags Mosfellssveitar í Bæjarleikhúsinu.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní er mikið um dýrðir í Mosfellsbæ. Skátamessa er haldin í Lágafellskirkju um morguninn en eftir hádegi hefst dagskrá í miðbænum. Safnast er saman á Miðbæjartorgi og gengið í skrúðgöngu niður á Hlégarðstún þar sem hátíðardagskrá fer fram. Fjöldi skemmtiatriða fyrir alla fjölskylduna fer fram á sviði við Hlégarð og í Hlégarði sjálfum er boðið upp á heljarinnar kökuhlaðborð sem er mjög vinsælt. Á bílaplaninu við Hlégarð eru Skátafélagið Mosverjar með tívolí og þrautir.