Útivist

Hér má lesa um 7 tinda - fjölskyldufellin í Mosfellsbæ

Möguleikar til útivistar og afþreyingar í  Mosfellsbæ eru margvíslegir, þar sem eitthvað er við allra hæfi.

Nálægðin við ósnortna náttúru og fallega staði er sérstaða bæjarins og er það m.a. ástæða þess að margir hafa valið að búa þar,  fjarri skarkala borgarlífsins.

Auknum áhuga á að stunda útivist og hverskyns íþróttir hefur verið svarað með markvissri uppbyggingu útivistarsvæða fyrir íbúa bæjarins, gesti þeirra og ferðamenn.

Stikun gönguleiða

Skátafélagið Mosverjar hefur í samvinnu við Mosfellsbæ unnið að stikun gönguleiða um útivistarsvæði í Mosfellsbæ. Fyrsta áfanga verksins er lokið en ætlunin er að stika alls um 65 km en auk þess að setja upp vegpresta við vegamót og upplýsingaskilti við gönguleiðirnar.

Göngukort sem hefur verið prentað verður fyrirliggjandi ókeypis á íþróttamiðstöðvunum að Varmá og Lágafelli og einnig í bókasafni Mosfellsbæjar og má einnig nálgast rafrænt á eftirfarandi slóð: Kort af stikuðum gönguleiðum

Markmiðið með lagningu stikaðra gönguleiða er að auðvelda almenningi aðgang að ósnortinni náttúru útivistarsvæðis Mosfellsbæjar. Þar eru margar náttúruperlur og sögulegar minjar sem sagt verður frá á sérstökum fræðsluskiltum sem verða sett upp í tengslum við verkefnið.
 
Göngufólk er hvatt til að nýta sér stikuðu gönguleiðirnar og göngukortið jafnt sumar sem vetur, ganga vel um og njóta útivistarsvæðisins.

Með því að smella á hlekki á stikunni hér til vinstri má skoða ýmsa útivistarmöguleika auk korta og loftmynda af Mosfellsbæ.

Hestamennska

Í Mosfellsbæ er góð aðstaða fyrir hestamenn og þar er staðsett blómleg hesthúsabyggð.  Hesthúsahverfið er á Varmárbökkum í fallegu umhverfi með sýn til fjalla og sjávar.