Göngu- og hjólastígakort

Úrslit ljós í hugmyndasamkeppni um Ævintýragarð


 

Tilkynnt hefur verið um úrslit í hugmyndasamkeppni um Ævintýragarð í Ullarnesbrekkum og eru tillögurnar nú til sýnis á Torgi í Kjarna. Sýningin verður uppi fram til 3. júní og er húsið opið kl. 8-19 alla daga.

 

Alls bárust 16 tillögur. Auk þriggja tillagna sem voru verðlaunaðar var ákveðið að tvær til viðbótar verðskulduðu innkaup sökum áhugaverðra hugmynda sem þar komu fram.

 

1. verðlaun,  kr. 2.000.000. “Að spinna ævintýr”. Höfundar: Landmótun sf. og Sviðsmyndir ehf.

 

Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir m.a.: “Tillagan felur í sér skýra og góða grunnhugmynd sem sett er fram á greinargóðan  máta. Tillagan mætir mjög vel markmiðum bæjaryfirvalda um ævintýragarð sem nýtist öllum aldurshópum til fjölbreyttrar afþreyingar og útivistar allt árið um kring. Styrkur tillögunnar felst í heildarskipulagi garðsins en höfundar ná að fanga flesta þá þætti sem þurfa að vera til staðar í ævintýragarði Mosfellinga.”

 

2. verðlaun, kr. 1.200.000. “Mosinn, villigarður í túninu heima”. Höfundar:Helga Guðrún Johnson, fréttamaður og villimey, Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur og villimey, Helgi Geirharðsson, verkfræðingur og villimaður, Gunnlaugur Ó. Johnson, arkitekt og villimaður.

 

Í umsögn dómefndar um tillöguna segir: “Tillagan er frumleg og skemmtileg, með mörgum sterkum einstökum hugmyndum, s.s. Móri, beljakabraut og tásutröð. Hún byggir á sterkri hugmynd um ævintýragarð þar sem gestir skapa sín eigin ævintýri. Einnig eru í tillögunni margar spennandi en einfaldar lausnir svo sem innkoman í garðinn og öskrað við ána.  Greinagerð tillögunnar er skemmtileg lesning og sýnilega góður textasmiður þar á ferð. afnið er grípandi og mætti vel nýta.  Framsetning er einföld og skýr.”

 

3. verðlaun, kr. 800.000. “Í túninu heima”. Höfundar: Hornsteinar arkitektar ehf.

 

Innkaup – kr. 300.000 – “Ævintýragarðurinn í Mosfellsbæ”. Höfundar: Arkitektur.is, Michael Blikdal Erichsen arkitekt og Carlton Hlynur Keyser arkitekt.

 

Innkaup – kr. 100.000 – “Vættagarður, sjálfbær skemmtigarður”. Höfundur: Arnhildur Pálmadóttir.

 

Bryndís Haraldsdóttir, formaður dómnefndar segir: “Dómnefndin var sammála um að innsendar tillögur væru fallega framsettar og að þær fælu í sér fjölda skemmtilegar og athyglisverðra hugmynda sem byðu upp á marga möguleika. Við vissum því ekki þegar haldið var af stað hverju við gætum átt von á en okkur bárust alls 16 spennandi tillögur. Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt og sendu okkur inn tillögu, þær bera allar vott um það að mikil vinna hefur verið lögð í hugmyndavinnu og útfærslu.”

 

“Það skal tekið fram að með hugmyndasamkeppninni var Mosfellsbær ekki að skuldbinda sig til að útfæra garðinn nákvæmlega eins og vinningstillagan gerir ráð fyrir.  Það er mat dómnefndar að þær þrjár tillögur sem hér eru verðlaunaðar í 1., 2. og 3 sæti séu tillögur sem vel geti fallið saman og séu hugmyndir úr þeim öllum nýttar ættu Mosfellingar að eignast virkilega spennandi og fallegan ævintýragarð.  Það var líka mikilvægt að hugmyndirnar væru þannig fram settar að auðvelt væri að skipta framkvæmdinni upp í áfanga því ljóst er að Ævintýragarðurinn mun ekki rísa á einni nótu og verður framkvæmdur í áföngum.  Það er einnig mikilvægt að mati dómnefndar að garðurinn geti þróast í tímanna rás og sé í raun í stöðugri mótun.”

 

Dómnefndarálitið í heild sinni má nálgast hér....

 

 

Ævintýragarður óskast

Mosfellsbær efnir til hugmyndasamkeppni um hönnun á ævintýragarði fyrir alla fjölskylduna í Ullarnesbrekkum í Mosfellsbæ.

 

Markmið hugmyndasamkeppninnar er að fá fram raunhæfar og spennandi tillögur um hönnun og innihald ævintýragarðs.

Ævintýragarðurinn skal nýtast allri fjölskyldunni til fjölbreyttrar útvistar og ánægju allt árið um kring. Aðgangur að svæðinu skal vera öllum opinn og ókeypis.

 

Verðlaunafé nemur alls 4 milljónum króna.

Keppnislýsing verður látin í té endurgjaldslaust frá og með 19. janúar á skrifstofu Arkitektafélags Íslands. Keppnislýsinguna er einnig að finna á vefsíðu Arkitektafélagsins, ai.is og vefsíðu Mosfellsbæjar, www.mos.is.

 

Keppendur skrá sig til þátttöku á skrifstofu Arkitektafélags Íslands frá og með 19. janúar og fá þar með aðgang að öðrum keppnisgögnum gegn greiðslu endurkræfs skráningargjalds að upphæð kr. 10.000.

 

Skilafrestur tillagna er 1. apríl 2009.

http://aevintyragardur.is/

 

ÝMIS GÖGN:

Keppnislýsing