ADHD

Í ADHD vitundarvikunni opnuðu samtökin krakkavefsíðuna.

ADHD samtökin hafa starfað að málefnum barna með ADHD og fjölskyldna þeirra frá árinu 1988. Til margra ára hafa samtökin skipulagt fræðslu og námskeið um ADHD fyrir foreldra, börn, kennara og fleiri. Í gegnum tíðina hafa samtökin átt gott samstarf við fjölda aðila í skólakerfinu, heilbrigðiskerfinu og hjá félagsþjónustu sveitarfélaga.

Víða í Evrópu og í Bandaríkjunum er árlega skipulögð svokölluð ADHD vitundarvika í skólum og víðar seinni hluta september mánaðar. Meðal annars til að stuðla að vitundarvakningu um ADHD og auka skilning gangvart þeim vaxandi fjölda barna sem glímir við athyglisbrest og ofvirkni. Samkvæmt rannsókn hjá Íslenskri erfðargreiningu glímir um 7,5 % barna hérlendis við ADHD og mörg börn eru jafnframt með ýmsar fylgiraskanir.

Í ADHD vitundarvikunni opnuðu samtökin krakkavefsíðuna sem unnin var af nemendum í margmiðlun við Tækniskóla Íslands. Á þessari vefsíðu er ýmis fróðleikur um ADHD, leiðbeiningar í samskiptum fyrir börn með ADHD, teiknimyndasaga, leikir og fleira áhugavert. 

ADHD er alþjóðleg skammstöfun sem stendur fyrir Attention Deficit Hyperactivity Disorder eða athyglisbrestur og ofvirkni.

Um ADHD og niðurstöður rannsókna, orsakir, tíðni og framtíðarhorfur

Niðurstöður rannsókna hérlendis og erlendis sýna að um 7,5% barna greinast með athyglisbrest og ofvirkni. Orsakir athyglisbrests eru líffræðilegar og stafa af truflun boðefna í miðtaugakerfi og heila. Rannsóknir benda ennfremur til þess að þessi röskun gangi í erfðir. Rannsóknir benda til þess að erfðir skýri um 75 - 95% einkenna ADHD. Börn og unglingar með ADHD eiga erfitt uppdráttar bæði námslega og félagslega. Um 50-70% þeirra eru áfram með einkenni athyglisbrests og ofvirkni sem fullorðin og um 30% þeirra þróa með sér alvarleg sálfélagsleg vandamál og ánetjast vímuefni. Rannsóknir sýna ennfremur framá að um helmingur fanga á Íslandi uppfyllir eða hefur á lífsleiðinni uppfyllt greiningarviðmið um ADHD. 

Tíðni eða algengi ADHD

Ýmsar faraldsfræðilegar rannsóknir á almennu þýði sýna 5-10 % algengi ADHD hjá börnum og unglingum, en 4-5% meðal fullorðinna (Faraone et al.,2003)

Miðað við 7,5% algengi hjá börnum undir 18 ára aldri á Íslandi þá eru um 6000 börn á Íslandi með ADHD.
Miðað við 4,5% algengi hjá fullorðnum 18 ára og eldri á Íslandi þá eru um 10.000 fullorðnir með ADHD.
Miðað við tölur frá Hagstofu Íslands 1. janúar 2008, 79.988 börn undir 18 ára aldri og 233.388 fullorðnir.

hvað er ADHD

Hvað er ADHD?

Athyglisbrestur og ofvirkni
Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð greind. ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir “Attention Deficit Hyperactivity Disorder” eða athyglisbrest og ofvirkni.

Algengi / tíðni ADHD

Nýjar rannsóknir sýna að 5-10% af hundraði barna og unglinga glíma við ofvirkni sem þýðir að 2-3 börn með ADHD gætu verið í hverjum bekk að meðaltali í öllum aldurshópum. Auk þess geta börn haft vægari einkenni. Í hópi barna með ADHD eru þrír drengir á móti hverri einni stúlku. Nýjar rannsóknir benda þó til að fleiri stúlkur séu með ADHD en talið hefur verið, en þær koma síður til greiningar. Nýjar bandarískar rannsóknir sýna 4,4% algengi ADHD hjá fullorðnum.

Hvað veldur ADHD ?

Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Rannsóknir benda til að orsaka sé að leita í truflun í boðefnakerfi heila á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn hegðunar. Erfðir gegna mikilvægu hlutverki, talið er að erfðir útskýri 75-95% ADHD einkenna. ADHD getur einnig komið fram í tengslum við sjúkdóma eða slys, t.d. höfuðáverka eða áföll á meðgöngu, og hún fylgir oft öðrum þroskatruflunum.

ADHD og nám

Þótt ekki sé um beina sértæka námsörðugleika að ræða má rekja ýmis konar námserfiðleika barna og unglinga með athyglisbrest og ofvirkni beint til veikleika þeirra. Þótt þau eigi ekki í beinum lestrarörðugleikum ná þau oft illa innihaldi textans og fylgjast illa með, hugurinn hvarflar frá lestrinum og minnistækni er slök. Skipulögð frásögn bæði í máli og riti er þeim oft erfið og mörg glíma við skriftarerfiðleika. Þótt börnin hafi oft ágætis stærðfræðiskilning veldur ónákvæmni þeirra skekkjum og þeim gengur illa að beita reikningsaðgerðum og höndla óhlutbundin stærðfræðihugtök. Ómeðhöndluð ofvirkni hindrar þessa einstaklinga í að nýta sér greind sína.  

ADHD samtökin

ADHD samtökinADHD samtökin voru stofnuð 7. apríl 1988 og þá undir nafninu Foreldrafélag misþroska barna. Fyrsti formaður þess var Matthías Kristiansen.

ADHD samtökin eru til stuðnings börnum og fullorðnum með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir, sem og fjölskyldum þeirra.

Um 1150 félagsmenn eru í samtökunum.

Skrifstofa ADHD samtakanna eru á 3. hæð að Háaleitisbraut 13 í sama húsi og Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir..

ADHD samtökin,
Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík,
Sími: 581-1110

Netfang: adhd[hja]adhd.is
vefsíða : www.adhd.is