Fundir, tónleikar og önnur starfsemi

Listasalur Mosfellsbæjar er fjölnota salur í Bókasafni Mosfellsbæjar sem hefur verið starfræktur frá 2005. Þar fer fram margvíslegt félags- og menningarstarf eins og myndlistarsýningar, tónleikar, fundir o.fl.

Salurinn er 80 fm að stærð og honum fylgir smáeldhús með vaski og ísskáp og aðgengi að fatahengi og salerni. Einnig geta fylgt salnum borð, 60 stólar og flygill við tónlistarviðburði.

Viðburðir í Listasal sem eru öllum opnir og hafa ekki truflandi áhrif á starfsemi Bókasafnsins geta farið fram á afgreiðslutíma safnsins. Miðist aðgengi að viðburði eingöngu við afmarkaðan hóp er hægt að fá Listasalinn leigðan utan afgreiðslutíma safnsins gegn gjaldi.

Sækja verður um afnot af salnum á sérstökum eyðublöðum sem fást í Bókasafninu og ábyrgðarmaður tiltekins viðburðar fyllir út og undirritar. Hver og ein umsókn verður metin með tilliti til þess hvort tiltekinn viðburður eigi erindi í Listasalinn samkvæmt starfsreglum um hann.

Listasalnum verður að skila í því ástandi sem hann var fenginn og snyrtileg umgengni er skilyrði. Veitingar eru almennt ekki leyfðar en undantekningar eru gerðar við opnun sýninga með samþykki umsjónarmanns Listasalarins og í samráði við hann.

Ef flytja þarf listaverk sem til sýnis eru í salnum (vegna skjávarpa eða þegar listaverk standa á gólfi) skal hafa samband við umsjónarmann Listasalarins.

Ábyrgðarmaður sem fær salinn til afnota sér um að raða þeim borðum og stólum sem nota skal og útvega þau tæki sem þarf. Gott er að ábyrgðarmaður mæti nokkru fyrir auglýstan tíma viðburðarins til undirbúnings.

Ef uppákomur í Listasalnum eru auglýstar skal nota fullt nafn salarins:
Listasalur Mosfellsbæjar.

Úr  starfsreglum um Listasal Mosfellsbæjar:

  • Óheimilt er að lána salinn til kynningar á vörum sem hafa sölugildi og eru Bókasafninu og menningarstarfsemi bæjarfélagsins óviðkomandi.
  • Um lán/leigu á salnum gildir sérstök verðskrá sem menningarmálanefnd semur og endurskoðar árlega.
  • Þegar salurinn er í leigu utan afgreiðslutíma Bókasafnsins gildir eftirfarandi:
  • Sérstakur vaktmaður á vegum Bókasafnsins skal loka og læsa salnum eftir notkun. Hann lítur einnig eftir að frágangur leigutaka sé í samræmi við þær vinnureglur að salnum skuli skila í því ástandi sem hann var fenginn. Vægt gjald er greitt fyrir hvert útkall þegar vaktmaður kemur til að opna og læsa.


Ef eitthvað vantar eða kemur óvænt upp á eftir að starfsfólk Bókasafnsins er farið skal hafa samband við vaktmann Listasalar Mosfellsbæjar, Þórarinn s. 694 2706.