Lögregla, slökkvilið og björgunarsveit

Lögreglan í Mosfellsbæ ( lögreglustöð 4)

Frá lögreglustöðinni að Vínlandsleið 2-4  er sinnt verkefnum í Mosfellsbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Þar eru bæði rannsóknarsvið og almennt svið en átta rannsóknarlögreglumenn starfa á lögreglustöðinni.

Helstu stjórnendur eru Árni Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, Eggert Ól. Jónsson aðalvarðstjóri og Einar Ásbjörnsson lögreglufulltrúi. Árni Þór er jafnframt stöðvarstjóri.

Almennum fyrirspurnum og upplýsingum til lögreglu er hægt að koma á framfæri í síma 444-1180 allan sólarhringinn og fyrirspurnum um rannsóknir mála í síma 444-1190 á skrifstofutíma.

Íbúar Mosfellsbæjar njóta eins og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu þjónustu öflugra rannsóknardeilda og tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að rannsóknum stærri og flóknari sakamála. Þá er umferðardeild embættisins sýnileg í Mosfellsbæ við almennt umferðareftirlit.

Sólarhringslöggæsla er á höfuðborgarsvæðinu alla daga ársins en rannsóknardeildin er opin á virkum dögum frá kl, 08:00 til 16:00. Ef óskað er eftir aðstoð lögreglu ber að hringja í 112.

Fróðleik og upplýsingar að finna á vef lögreglunnar, www.logregla.is

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. (SHS) er öflugt björgunarlið sem hefur margþættu hlutverki að gegna við almenning, fyrirtæki og stofnanir á starfssvæðinu. Helstu verkefni liðsins eru:

  • Slökkvistörf
  • Sjúkraflutningar
  • Forvarnir og eldvarnaeftirlit
  • Viðbrögð við mengunaróhöppum
  • Almannavarnir
  • Verðmætabjörgun
  • Björgun fólks úr sjó og vötnum
  • Björgun fólks utan alfaraleiða
  • Tilfallandi aðstoð við almenning      

Starfssvæði SHS nær til sveitarfélaganna sjö sem standa sameiginlega að rekstri liðsins.  Þau eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Álftanes.  Liðið veitir þjónustu við Kjósarhrepp samkvæmt samningi og hefur skyldur um aðstoð við nærliggjandi sveitarfélög samkvæmt starfssamningum.  Starfssvæðið nær frá Hvalfjarðarbotni í norðri, til Straumsvíkur í suðri og Bláfjallasvæðisins í austri.  Íbúar á starfssvæðinu voru um 201 þúsund í ársbyrjun 2010 eða um 63% landsmanna.

SHS sér um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið og hefur gert árum saman.  Hjá SHS er lagður mikill metnaður í menntun og endurmenntun sjúkraflutningamanna og hefur sjúkraflutningamönnum með bráðatæknimenntun fjölgað jafnt og þétt. 
   
Samningur er í gildi milli SHS og Faxaflóahafna sf. um aðgerðir vegna hugsanlegra mengunaróhappa á hafnarsvæði Faxaflóahafna sf.  Í samningnum felst að slökkviliðið fer með stjórnun aðgerða þegar mengunaróhöpp verða.  Búnaður Faxaflóahafna sf. sem ætlaður er til nota í mengunarslysum er í vörslu slökkviliðsins auk þess sem slökkviliðið annast undirbúning og skipulagningu nauðsynlegra æfinga. 

Starfsmenn SHS eru um 160.