Mos Bus útivistardagur

Mos-Bus

Útivistardagur í Mosfellsbæ

Mosfellsbær býður upp á ótal marga og spennandi möguleika til útivistar. Umhverfið er ákaflega heillandi og fellin í kringum bæinn hafa gjarnan verið vinsælir áfangastaðir göngugarpa.  Í Mosfellsbæ er einnig að finna ýmsa útivistarmöguleika á láglendinu en þar er meðal annars að finna fuglaskoðunarhús, golfvelli , göngustíga og spennandi leikvelli fyrir yngstu kynslóðina.

Útivistardagur í Mosfellsbæ með MOS-BUS

Tilvalið er fyrir göngugarpana að nesta sig upp í Mosfellsbakaríi áður en ferðin hefst en þar er að finna gott úrval af veitingum sem henta til þess að gleðja svanga munna. Ferðalagið hefst í Lágafellslaug þar sem útivistargarparnir geta skipt um föt og smellt sér í göngugallann og því næst sest upp í MOS-BUS og notið ferðarinnar í gegnum Mosfellsbæ.  

1. Fyrsta stopp ferðalangana er að Ásum við rætur Helgafells en það er einmitt einn af 7 tindunum í Mosfellsbæ. 

Sunnan við mynni Mosfellsdals er Helgafell 216 m hátt. Það er mjög áberandi þó ekki sé það mjög hátt. Það rís uppfrá Leiruvoginum og sést víða að. Það er  grösugt nema í skriðurunnum norðurhlíðunum sem skarta klettabelti efst. Fjallið er skorið með nokkrum  lægðardrögum sem stefna norður - suður og skemmtilegum klettahöfðum sem gerir fjallið óreglulegt. Mjög skemmtilegt útsýni er af Helgafelli. Sést vel yfir Mosfellsdal og uppá Mosfellsheiði og einnig vestur til Reykjavíkur og yfir Faxaflóa á góðum degi. Gestabók er á Helgafelli. Gönguleiðir eru á fjallið til dæmis frá Ásum við Þingvallaveg og úr Skammadal.

Algengasta gönguleiðin á Helgafell er frá bílastæðinu á Ásum við Þingvallaveg. Fyrst eru undirhlíðarnar gengnar til suðurs og fljótlega tekinn sneiðingur upp vesturhlíðar fjallsins. Leiðin er nokkuð brött en þegar komið er upp á brúnina er hægt að stoppa og sjá yfir Mosfellsbæ. Síðan er sveigt til austur og stefnan tekin á hæsta hnjúkinn sem er á norðurbrún fjallsins. Þegar þangað er komið opnast útsýn til austurs yfir Mosfellsdalinn. Gönguleið er 1,2 km.

2. Næsta stopp er við Esjustofu en það er heillandi veitinga staður við rætur Esjunnar sem er einn helsti áfangastaður höfuðborgarbúa.  Tilvalið er að bregða örlítið út af vananum og prófa eitthvað annað en hefðbundnu leiðina upp á topp til dæmis Skógarstíginn.  Lúpínubreiður setja sterkan svip á landslagið ásamt birki- og barrskógi þegar ofar dregur.

Þegar göngugarparnir eru orðnir svangir er mælt með Esjustofusúpunni eða Fjallahamborgara sem vilja fá eitthvað meira í maga.  Esjustofa býður einnig upp á sérstakan matseðil fyrir „fjallgöngufólk framtíðarinnar“

3. Til þess að ljúka yndislegum útivistardegi er tilvalið að láta þreytuna líða úr sér í Lágafellslaug en laugin er einkar glæsileg og vel útbúin.  Ef að einhverjir hafa enn orku að þá er þar að finna sérstaka þrautarbraut í anda „wipe out“

Fjölskyldudagur í Mosfellsbæ með MOS-BUS

Mosfellsbær býður upp á Mosfellsbær býður upp á ótal marga spennandi afþreyingarmöguleika fyrir fjölskyldur hvort sem að meðlimir hennar séu stórir eða smáir.  Hver og ein fjölskylda getur hannað sinn sérstaka fjölskyldudag en hér á eftir kemur tillaga að einum sem ætti að henta öllum.  Allt sem þarf er útivistarfatnaður,  nesti og góða skapið.
Mælt er með því að menn geri sér ferð í Mosfellsbakarí áður en ævintýrið hefst og nesti sig upp.  Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi sem gleður svanga munna.  

Ferðalagið hefst við  Lágafellslaug þar sem fjölskyldan kemur sér vel fyrir í Mos-Bus og nýtur ferðalagsins og þess sem fyrir augun ber en Mosfellsbær er bæði gróðursæll og fallegur bær. 

1. Fyrsta stopp fjölskyldunnar er í Álafosskvosinni , vöggu ullariðnaðarins, má upplifa einstaka stemningu þar sem listamenn hafa komið sér fyrir í gömlum verksmiðjubyggingum og listastarfsemin blómstrar í fallegu og áhugaverðu umhverfi. Í Álafosshúsinu er að finna Álaffoss verksmiðjusölu en þangað inn er virkilega skemmtilegt að koma bæði til þess að kynnast íslensku handverki og skoða muni og myndir allt frá árinu 1897 sem segja sögu þessarar merku verksmiðju.
Umhverfið  er einkar áhugavert og tilvalið er að fá sér göngutúr í kvosinni  sem geymir stór merkilega sögu ullariðnaðarins á Íslandi.

„Álafoss var stofnað 1896 og átti Björn Þorláksson frumkvæði af byggingu verksmiðjunnar. Hann sá hvað kvosin var hentugur staður með Álafossinn og brekkuna frá honum til að knýja vélarnar og Varmá ylvolga og mjög hentuga til ullarþvotts.

Björn stíflaði Varmá fyrir ofan Álafoss og leiddi svert rör fyrir vatnið niður brekkuna í verksmiðjuhúsið til að knýja vélarnar. Árið 1917 eignast Sigurjón Pétursson hlut í Álafoss og jók hann umsvifin meir en áður hafði þekkst í ullariðnaði á Íslandi. Eitt af kjörorðum Sigurjóns var Álafossföt bezt. 

Starfsmenn Álafossverksmiðjunnar bjuggu flestir á staðnum og var rekið meðal annars blómlegt félagslíf með dansleikjum og leiksýningum, það má ennþá sjá áhorfendastæðin sem útbúin voru í brekkunni fyrir ofan gömlu sundlaugina árið 1929.

Íþróttir og sund voru í hávegum höfð hjá sigurjóni og árið 1921 gekkst hann fyrir fyrsta Álafoss hlaupinu og hlaupið var frá álafossi til gamla Melavallarinns í vesturbæ Reykjavíkur þar sem Kristján X konungur Íslands og Danmerkur afhenti verðlaunin. Sigurjón var líka fljótur að sjá hvaða möguleikar fólust í Varmánni ylvolgri og þar sem Varmá hafði verið stífluð þá myndaðist stórt uppistöðulón sem var tilvalið til sundkennslu og dýfinga. Íþróttaskóli var starfræktur að Álafossi frá árinu 1928 fyrir börn og unglinga og var hann starfandi fram til 1940. Árið 1933 var ný innisundlaug tekin í notkun að Álafossi og var hún notuð í u.þ.b. 30 ár við kennslu í skólasundi eða þar til Varmárlaugin var vígð árið 1964, núna er gamla sundlaugin notuð sem upptökustudíó af hljómsveitinni Sigurrós.

Álafossull er á við gull var eitt af vígorðum verksmiðjunnar þegar allt gekk sem best og árið 1983 störfuðu 420 manns við Álafoss verksmiðjuna.“   (www.alafoss.is)

2. Ef fjölskyldan er á ferð á laugardegi  eftir miðjan júlí er tilvalið að koma við á Mosskógum í Mosfellsdal  en þar eru útimarkaður sem skemmtilegt er heim að sækja, ekki síst í því skyni að upplifa stemninguna. Þar er fjölbreytt framboð af ýmsum varningi, lífrænt ræktuðu grænmeti af svæðinu, heimagerðar sultur, pestó og annað matarkyns, blóm, silungur úr Þingvallavatni og margt fleira.

3. MOS-BUS stoppar næst  við hús skáldsins, Gljúfrastein, en þar gefst einstakt tækifæri til þess að kynnast heimili og vinnustað  Nóbelsskálds Íslendinga Halldórs Laxnes.
Á Gljúfrasteini er boðið er upp á vandaða hljóðleiðsögn um húsið og yngsta kynslóðin fær afhenda möppu sem býr yfr miklum ævintýrum þeirra Sögu og Jökuls.

„Húsið er safn Halldórs Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt. Stærstu vistarverurnar eru stór stofa á jarðhæð og skrifstofa Halldórs á annarri hæð. Þar er bókasafn hans varðveitt svo og vinnupúltið sem hann stóð gjarnan við.

Mikill fjöldi listaverka setur sterkan svip á heimilið, meðal annars eftir Svavar Guðnason, Nínu Tryggvadóttur, Jóhannes Kjarval og danska málarann Asger Jörn. Einnig gefur þar að líta útsaumsmyndir eftir Auði Laxness sem var annáluð hannyrðakona. Húsgögn og innanstokksmunir eru þeir sömu og í tíð Halldórs og Auðar.
Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins enda umhverfið fagurt. Gestir eru hvattir til að nýta sér gönguleiðirnar í nágrenni hússins sem stendur við ána Köldukvísl og er byggt í landi jarðarinnar Laxness þar sem Halldór ólst upp. Garðurinn umhverfis húsið er opinn almenningi og hentugar gönguleiðir eru til dæmis upp með ánni í átt að eyðibýlinu Bringum og niður með Köldukvísl í áttina að Guddulaug. Halldór segir frá lauginni í einni bóka sinna og taldi vatnið sérlega heilnæmt og ljóst er að ískalt lindarvatnið úr Guddulaug svíkur engan.“
(www.gljufrasteinn.is)
 

Á sunnudögum verður boðið upp á hina margrómuðu stofutónleika en skáldið var mikill áhugamaður um tónlist og bauð gestum sínum jafnan upp á tónleika. 

4. Ef fjölskyldan hefur áhuga á gönguferðum er tilvalið að skella sér í létta göngu á Helgafell eða í Esjuhlíðar. 

5. Til þess að ljúka yndislegum fjölskyldudegi er tilvalið að láta þreytuna líða úr sér í Lágafellslaug en laugin er einkar glæsileg og vel útbúin.  Ef að einhverjir hafa enn orku að þá er þar að finna sérstaka þrautarbraut í anda „wipe out“

6. Enginn má fara svangur úr Mosfellsbæ. Cafe Kidda rót býður upp rómantíska hamborgara, brjálaðar pizzur og sérstakan barnamatseðil.  Innanveggja er að finna stórglæsilegar myndir úr íslenskir náttúru teknar af sjálfum Kidda rót og stórmerkilega sögu hljómsveita á Íslandi.

 

Menningardagur

Handverkshúsið

Hraunhús

Álafoss

Gljúfrasteinn