Um Mosfellsbæ og kort

Mosfellsbær er bæjarfélag um 8.700 íbúa sem er um 220 ferkílómetrar að stærð í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Byggðarþróun hefur verið ör síðustu árin og sífellt fleiri hafa sótt í þá góðu blöndu borgarsamfélags og sveitar sem þar er að finna. Skipulag tekur mið af fjölbreyttri og fallegri náttúru bæjarfélagsins.  Þar eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í skjóli fella, heiða, vatna og strandlengju.

Mosfellsbær státar af talsverðri sérstöðu hvað snertir fjölbreytileika.  Bæjarfélagið samanstendur af þéttbýliskjarna við Leirvog þar sem boðið er uppá nauðsynlega þjónustu, auk víðáttumikillar sveitar, svo sem í Mosfellsdal. 

Mosfellingar kunna vel að meta umhverfi sitt og eru almennt mikið útivistarfólk. Hestamennska er áberandi þáttur í daglegu lífi bæjarbúa, enda liggja reiðleiðir til allra átta. Gönguleiðir eru góðar allt frá fjöru til fjalla og óvíða er aðstaða til íþróttaiðkana betri en í Mosfellsbæ.  Tveir golfvellir eru í Mosfellsbæ, ásamt góðri aðstöðu fyrir fuglaskoðun í Leirvogi og við ósa Varmár og Köldukvíslar.

Náttúruperlur og sögulegar minjar eru víða í Mosfellsbæ, má þar nefna Tröllafoss, Helgufoss, Varmá, Mosfellskirkju og fornleifauppgröft við Hrísbrú í Mosfellsdal. Atvinnusaga bæjarins er einnig á margan hátt sérstök og má þar nefna viðamikla ullarvinnslu og kjúklingarækt sem starfsrækt hefur verið í bænum um langt skeið. 

Menning hefur um langt árabil skipað stóran sess í sögu Mosfellsbæjar, þar sem helst má nefna búsetu Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljan Laxness að Gljúfrasteini í Mosfellsdal, menningarminjar í Álafosskvos og fjölbreytt menningarlíf.

Saga Mosfellsbæjar

Þróun íbúafjölda

Ýmis gagnleg KORT af skemmtilegum leiðum í mosfellsbæ.