Fjölskyldunefnd

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar er einnig barnaverndarnefnd fyrir Kjósarhrepp 

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar sér einnig um félagsþjónustu fyrir Kjósarhrepp

 

Samþykkt fyrir Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar.
 

1. gr.
Fjölskyldunefnd fer með félagsmál eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og í samþykkt þessari.
 
2. gr.
Fjölskyldunefnd er skipuð fimm fulltrúum og fimm til vara, kosnum af bæjarstjórn.  Bæjarstjórn kýs formann og varaformann nefndarinnar.  Kjörtímabil hennar er það sama og bæjarstjórnar.  Nefndin skal halda gerðabók og skulu fundargerðir hennar sendar bæjarstjórn til staðfestingar.  Fulltrúar í fjölskyldunefnd skulu gæta þagmælsku um einkamálefni fólks sem fjallað er um á fundum nefndarinnar.  Fulltrúi skal víkja af fundi, og kalla til varamann, tengist hann einstaklingum eða málum, sem fjallað er um í nefndinni, þannig að spillt geti óhlutdrægni hans og valdið tortryggni.
 
3. gr.
Hlutverk fjölskyldunefndar er:

-að gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnu í félagsmálum og hafa eftirlit með að stefna bæjaryfirvalda á hverjum tíma sé haldin.

-að hafa eftirlit með stofnunum sem vinna að félagsmálum, og fylgjast með að þær vinni að settum markmiðum, í samræmi við lög og veiti góða þjónustu.

-að leggja mat á þá þjónustu sem veitt er á vegum sveitarfélagsins í félagsmálum með tölulegum upplýsingum og könnunum á meðal bæjarbúa.  Einnig að fjalla um þær kvartanir sem berast vegna þjónustunnar. 

-að hafa eftirlit með jafnréttismálum í stofnunum bæjarins, og fylgjast með að þær fylgi stefnu bæjaryfirvalda í jafnréttismálum og vinni samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

-að fylgjast með ástandi jafnréttismála í Mosfellsbæ og leggja mat á stöðu þeirra í bæjarfélaginu með tölulegum upplýsingum og könnunum á meðal bæjarbúa.  Einnig að fjalla um þær kvartanir sem berast vegna jafnréttismála.

-að fara yfir tillögur forstöðumanna að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar og gæta þess í ákvörðunum sínum að halda áætlanir þegar að framkvæmdum kemur.

-að vera bæjarstjórn að öðru leyti til ráðuneytis í félagsmálum.
 
4. gr.
Verkefni fjölskyldunefndar eru:

Málefni tengd félagslegri ráðgjöf skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Málefni tengd fjárhagsaðstoð skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Málefni aldraðra, þ.á.m. félagsleg heimaþjónusta, skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni aldraðra.

Málefni barna og ungmenna skv. lögum um vernd barna og ungmenna. barnalögum, lögræðislögum og ættleiðingarlögum.

Málefni unglinga skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Málefni fatlaðra skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra.

Húsnæðismál skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.  Þar á meðal umsjón með leiguhúsnæði í eigu bæjarins og umsjón með greiðslu húsaleigubóta. sbr.. lög um húsaleigubætur.

Málefni áfengissjúkra og vímuefnavarnir, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og áfengislög.

Málefni atvinnulausra, þ.á.m. málefni tengd atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um vinnumiðlun.

Málefni tengd félagslegri heimaþjónustu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Málefni sem tengjast fjölskylduráðgjöf Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.

Jafnréttismál eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.

Að gera tillögur til bæjarstjórnar um sérstakar tímabúndnar aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna í Mosfellsbæ eftir því sem ástæða er til hverju sinni.

Að taka við ábendingum vegna brota á jafnréttislögum.

Að vera tengiliður við ráðuneyti jafnréttismála og Jafnréttisráð.

Að vinna að öðrum þeim verkefnum sem bæjarstjórn felur nefndinni á hverjum tíma.
 
5. gr.
Forstöðumaður fjölskyldusviðs situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.  Hann er ráðgjafi nefndarinnar og sér um ritun fundargerða, nema nefndin ákveði annað.  Hann undirbýr fundi í samstarfi við formann og framkvæmir ákvarðanir nefndarinnar eftir að bæjarstjórn hefur staðfest þær,

Um starfsmannamál fer eftir starfsmannastefnu Mosfellsbæjar.
 
6. gr.
Séu ákvæði í lögum eða samstarfssamningum um seturétt aðila utan nefndarinnar, þegar um mál þeim tengd er fjallað, skal gæta þess að þau ákvæði séu uppfyllt.  Nefndin skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála