Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar


Samþykkt fyrir Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar

1. gr.
Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar er sjálfstæð skjalavörslustofnun sem lýtur
yfirstjórn forstöðumanns Héraðsbókasafnsins og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Lögheimili þess er í Mosfellsbæ.

2. gr.
Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar starfar samkvæmt lögum um Þjóðskjalasafn nr.
66/1985 og reglugerð um héraðsskjalasöfn nr. 283/1994. Umdæmi safnsins er Mosfellsbær.

3. gr.
Héraðsskjalasafnið skal samkvæmt 3. til 5. grein reglugerðar um héraðsskjalasöfn
annast söfnun, innheimtu og varðveislu skjala, skrásetja þau og gera aðgengileg
notendum og á allan hátt leitast við að varðveita og efla þekkingu á sögu síns
umdæmis. Héraðsskjalasafnið skal m.a. varðveita skjalasöfn þeirra embætta,
stofnana og félaga sem hér greinir sbr. 5. grein reglugerðar um afhendingarskyldu:

1. Bæjarstjórnar,
2. sýslu- og héraðsnefnda,
3. byggðasamlaga,
4. hreppsnefnda,
5. hreppstjóra,
6. bæjar-, sýslu-, héraðs- og hreppsfyrirtækja,
7. sáttanefnda,
8. forðagæslumanna,
9. yfir- og undirskattanefnda,
10. undirfasteignamatsnefnda,
11. skólanefnda,
12. barnaverndarnefnda,
13. héraðsfunda,
14. sóknarnefnda,
15. sjúkrasamlaga,
16. búnaðarsambanda,
17. ræktunarsambanda,
18. hreppabúnaðarfélaga,
19. búfjárræktarfélaga,
20. skógræktarfélaga,
21. íþrótta- og ungmennafélaga,
22. lestrarfélaga,
23. slysavarna- og björgunarfélaga,
24. leikfélaga og annarra menningarfélaga, þ.á m. kvenfélaga,
25. annarra félaga, fyrirtækja og stofnana sem stjórnin tekur ákvarðanir um.

Skipi bæjarstjórn, héraðsfundir eða sóknarnefndir trúnaðarmenn eða nefndir sem
ekki er getið í upptalningunni hér að framan, skulu öll skjalagögn slíkra
trúnaðarmanna eða nefnda afhendingarskyld til Héraðsskjalasafnsins.

Héraðsskjalasafnið skal leitast  við að eignast eftirtökur af öðrum skjölum sem
varða héraðið og ekki fást í frumriti. Jafnframt safnar Héraðsskjalasafnið
markverðum skjölum einstaklinga og félagasamtaka sem ekki eru skilaskyld til
safnsins, auk ljósmynda, hljóð- og myndbanda sem varða sögu héraðsins eða íbúa
þess á einhvern hátt.

4. gr.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar leggur Héraðsskjalasafninu til rekstrarfé í samræmi við
samþykkta fjárhagsáætlun.

5. gr.
Bæjarstjórn skipar stjórn Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar. Hlutverk stjórnar er
að hafa umsjón með Héraðsskjalasafninu í umboði bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, s.s.
mannaráðningar, útvegun húsnæðis og annað er að yfirumsjón lýtur. Stjórnin gerir
árlega tillögu að fjárhagsáætlun til bæjarstjórnar og er ábyrg fyrir að rekstri
verði hagað í samræmi við fjárframlög bæjarstjórnar hverju sinni. Fundargerðir
stjórnar safnsins skulu sendar bæjarstjórn til staðfestingar.

6. gr.
Reikningar Héraðsskjalasafnsins skulu fylgja uppgjöri bæjarsjóðs og vera
endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda bæjarins. Ársreikningar safnsins
skulu lagðir fyrir stjórn safnsins og bæjarstjórn til staðfestingar.

7. gr.
Samþykkt þessi og breytingar sem kunna að verða gerðar á henni öðlast gildi
að fengnu samþykki bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Skal hún einnig lögð fyrir
þjóðskjalavörð til staðfestingar.

Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, dags.___________

 

____________________________________
Jóhann Sigurjónsson
bæjarstjóri

 

Staðfest af þjóðskjalaverði, dags.___________

 

_____________________________________
Ólafur Ásgeirsson
þjóðskjalavörður