Húsaleigubætur, sérstakar

Reglur um sérstakar húsaleigubætur

I. Kafli

Almenn ákvæði

1. gr.
Markmið og hlutverk

Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra erfiðleika. Aðstæður umsækjenda eru metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sem tilgreind eru í 2.gr.

Sérstakar húsaleigubætur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu vegna samþykktra íbúða á almennum markaði til viðbótar við almennar húsaleigubætur.

II. Kafli

Réttur til sérstakra húsaleigubóta

2.gr.

Skilyrði
Við vinnslu umsóknar skal leita upplýsinga m.a. um félagslegar aðstæður, lögheimili, tekjur og eignir.  

a)      Umsækjandi hafi ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði.

b)      Umsækjandi uppfylli öll skilyrði um almennar húsaleigubætur og hafi sótt um þær.

c)      Umsækjandi eigi lögheimili í Mosfellsbæ þegar sótt er um og hafi átt það samfellt síðastliðna 12 mánuði.

d)      Tekjur:  Miðað skal við tekjur síðasta árs samkvæmt staðfestu skattframtali og til hliðsjónar tekjur síðastliðinna þriggja mánaða. Með tekjum er átt við heildartekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks og barna 18 ára og eldri sem búa á heimilinu, þó ekki barna húsráðenda sem eru á aldrinum 18-20 ára ef þau stunda fullt nám í framhaldsskóla, enda sé námið staðfest af skóla.  Starfsmaður skal, ef þörf krefur afla frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda svo sem hjá skattayfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum og atvinnuleysistryggingasjóði.

e)      Eignir og tekjur umsækjanda miðast við eftirfarandi hámarksupphæðir: Eignarmörk eru kr. 2.899.000. Tekjumörk eru kr. 2.056.404  fyrir einstakling en kr. 2.933.701  fyrir hjón og sambúðarfólk, auk þess kr. 329.112 fyrir hvert barn á framfæri innan 18 ára.

f)        Sérstakar húsaleigubætur samkvæmt þessum lið skulu einungis veittar í eðlilegum tengslum við önnur úrræði, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar og í tengslum við úrræði annarra stofnana samfélagsins.

g)      Vegna mjög sérstakra aðstæðna er heimilt að víkja frá ákvæðum d) og e) liða. Þá er einnig heimilt við slíkar aðstæður að víkja frá ákvæðum um búsetu í leiguhúsnæði á almennum  markaði.

3. gr.

Undanþága frá skilyrðum

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum um lögheimili samanber c-lið 2. greinar ef umsækjandi hefur búið í Mosfellsbæ á undanförnum fimm árum en flutt úr bæjarfélaginu vegna skorts á leiguhúsnæði, veikinda eða skerðingar.

 

III. Kafli.

Framkvæmd

4. gr.

Útreikningur bóta

Sérstakar húsaleigubætur eru reiknaðar sem ákveðið hlutfall af almennum húsaleigubótum þannig að fyrir hverjar kr. 1.000 fær leigjandi kr. 1.300 í sérstakar húsaleigubætur. Þó geta húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur aldrei numið hærri fjárhæð en samtals kr. 50.000 og aldrei farið yfir 75% af leigufjárhæð.

5. gr.
Umsóknir

Umsóknir skulu berast fjölskyldusviði á þar til gerðum eyðublöðum.
Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu og með samþykki umsækjanda.  Endurnýja skal umsókn um sérstakar húsaleigubætur á sex mánaða fresti og um leið og endurnýjun almennra húsaleigubóta á sér stað. Í tilvikum þar sem umsækjandi á við fjárhagsvanda að etja og skuldastaða er slæm, skal viðkomandi gera skriflega áætlun um fjárhagslega stöðu, með það að markmiði að vinna að varanlegri lausn vandans. Áætlunin endurskoðist við endurnýjun húsaleigubóta.

6. gr.

 Breyttar aðstæður 

Bótaþega er skylt að tilkynna þegar í stað breytingar á högum sínum sem geta haft áhrif á rétt  hans til bóta og á bótafjárhæð.

 

IV. Kafli.
Málsmeðferð 

Málsmeðferð er samkvæmt ákvæðum XVI og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og ákvæði laga um húsaleigubætur nr. 138/1997.

7. gr.
Ákvörðunarvald

Ákvörðun um sérstakar húsaleigubætur tekur trúnaðarmálafundur fjölskyldudeildar fjölskyldusviðs í umboði fjölskyldunefndar. 
Afgreiða skal umsókn eins fljótt og unnt er eftir að hún berst og skal niðurstaða kynnt umsækjanda og niðurstaðan kynnt skriflega. 

8. gr.
Rökstuðningur synjunar

Umsækjanda sem er synjað um sérstakar húsaleigubætur skal svarað skriflega, þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar. Jafnframt skal umsækjendum bent á málskotsrétt sinn til fjölskyldunefndar. 

9. gr.
Áfrýjanir

Ákvörðun trúnaðarmálafundar fjölskyldudeildar má skjóta til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar og skal það gert skriflega innan fjögurra vikna frá dagsetningu synjunarbréfs. 
Ákvörðun fjölskyldunefndar má skjóta til úrskurðanefndar félagsþjónustu, Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu. Skal það gert skriflega innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun. Synjun á sérstökum húsaleigubótum skal rökstudd og umsækjenda jafnframt bent á málsskotsrétt sinn.

10. gr.
Rangar eða villandi upplýsingar

Ef rangar eða villandi upplýsingar leiða til þess að umsækjandi fái greiddar hærri bætur eða styrk en honum ber samkvæmt reglum þessum, skal umsækjandi endurgreiða þá fjárhæð um leið og krafist er.

Samþykkt á fundi fjölskyldunefndar 8.janúar 2008.

Samþykkt í bæjarstjórn 16.janúar 2008.