Jafnréttisstefna 2007-2010

Hægt er að lesa Jafnréttisstefnu í heild sinni með því að fylgja hlekk hér að neðan, hægt er að fletta bæklingnum eða skoða sem texta:

Jafnréttisstefna Mosfellsbæjar 2007-2010 (.pdf - 151kb)
Jafnréttisstefna Mosfellsbæjar 2007-2010

Inngangur
Stefna þessi byggir á fyrri jafnréttisáætlunum Mosfellsbæjar og er í samræmi við 10.gr. laga nr. 96/2000 um jafnan rétt kvenna og karla. Þar sem segir meðal annars að jafnréttisnefndir sveitarfélaga skuli hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlana sveitarstjórna til fjögurra ára sem lagðar skulu fram eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.
Lögð er áhersla á að öll svið bæjarfélagsins taki mið af jafnréttisstefnunni og að stofnanir bæjarfélagsins sem hafa 25 eða fleiri starfsmenn setji sér sérstakar jafnréttisáætlanir.

Tilgangur
Tilgangur stefnunnar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.

Markmið
Markmið stefnunnar er að stuðla að því að konum og körlum sé ekki mismunað í þjónustu og starfsemi Mosfellsbæjar og að bærinn veiti þjónustu sem samræmist þörfum og væntingum hvors kyns fyrir sig.

Með stefnunni lýsir bæjarstjórn vilja sínum til þess að í starfsemi og þjónustu bæjarins sé stuðlað að því að jafna stöðu kvenna og karla með sérstökum aðgerðum. Þetta skuli meðal annars gert með því að samþætta jafnréttissjónarmið inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum bæjarins. Flétta þarf sjónarhorn beggja kynja inn í alla stefnumótun innan bæjarins og endurskilgreina hefðbundin hlutverk kynjanna.

Hugmynda- og aðferðarfræði
Jafnréttisstefna Mosfellsbæjar tekur mið af samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða (e. gender mainstreaming) við alla ákvörðunartöku á vegum sveitarfélagsins. Í því felst viðurkenning þess að ákvarðanir geti haft mismunandi áhrif á konur og karla (stúlkur og drengi) vegna þess að líf þeirra og reynsla er ólík. Þess vegna verði að gæta kynjasjónarmiða við alla ákvarðanatöku. Jafnréttisstarf verði reglubundið og skipulagt viðfangsefni, fléttað í alla þætti stjórnsýslunnar.

Samþykkt í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 13.nóvember 2007
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 21. nóvember 2007

Að vinna að jafnréttismálum innan bæjarfélagsins verði skipulögð og markviss.
Að jafnréttisstefna verði hluti af árlegum starfsáætlunum fyrir málaflokka bæjarins.
Að hægt sé að meta árangur starfsins og að koma með úrbætur ef fyrirhugaðar aðgerðir skila ekki árangri.
Að jafnréttissjónarmið séu samþætt inn í alla stefnumótun, ákvarðanir og aðgerðir á vegum bæjarins.

Í stefnunni felst:

Fjölskyldunefnd - félagsmálastjóri
Fjölskyldunefnd mótar stefnu Mosfellsbæjar í jafnréttismálum og setur sér árlega starfsáætlun.
Fjölskyldunefnd beinir því til forstöðumanna sviða að sjá til þess að markmið til að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna verði hluti af starfsáætlunum í öllum málaflokkum bæjarins.
Félagsmálastjóri framfylgir jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar og öðrum samþykktum og verkefnum sem lúta að jafnréttismálum.

Félagsmálastjóri er bæjaryfirvöldum, stofnunum og starfsmönnum bæjarins til aðstoðar í jafnréttismálum. Hann vinnur í samstarfi við sviðsstjóra, forstöðumenn stofnana og nefndir bæjarins svo og aðra sem að jafnréttismálum koma.

Fjölskyldunefnd hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttisstefnunnar.

Starfsáætlanir í jafnréttismálum - Stofnanir og svið
Árlega skulu stofnanir og svið bæjarins gera starfsáætlanir í jafnréttismálum eða endurskoða gildandi starfsáætlun. Þar komi fram hvernig þær hyggist vinna á grundvelli jafnréttisstefnu og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar í þeim tilgangi. Í lok hvers árs mun félagsmálastjóri kalla eftir stöðu mála og leggja niðurstöðuna fyrir fjölskyldunefnd.

Fjölskyldunefnd veitir viðurkenningu árlega, einstaklingi, stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum sem hefur staðið sig best við að vinna að framgangi jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.

Nefndir og ráð
Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum bæjarins skulu hlutföll kynja vera sem jöfnust. Í tengslum við sveitarstjórnarkosningar skulu teknar saman upplýsingar um hlutfall kynja í nefndum og ráðum á vegum Mosfellsbæjar og þær sendar til þeirra sem tilnefna fulltrúa.

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN JAFNRÉTTISSTEFNU 2007-2010

I. Starfsmannamál

Auglýsingar og ráðningar
Í auglýsingu um starf hjá Mosfellsbæ skal koma fram hvatning þess efnis að konur jafnt og karlar sæki um starfið.

Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í starf hjá Mosfellsbæ. Umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfi skal ganga fyrir við ráðningu þegar umsækjendur eru jafnhæfir.

Starfsaðstæður og kjör
Við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Þess skal gætt að konur og karlar njóti að öllu leyti sambærilegra kjara og
starfsaðstæðna. Það telst þó ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og fæðingar.

Tryggt verði að bæði kynin njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar svo og til að sækja námskeið og ráðstefnur sem haldnar eru til að auka hæfni í starfi.
Tryggt verði að jafnréttismál verði fléttuð inn í starfsmannastefnu Mosfellsbæjar.

II. Fræðsla og ráðgjöf
Fræðsla um jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna skal vera virkur þáttur í starfi fjölskyldunefndar og starfsmanna fjölskyldusviðs bæði innan stofnana bæjarins og gagnvart bæjarbúum.

Jafnréttisfræðsla í skólum og öðrum uppeldisstofnunum
Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál. Í mennta- og uppeldisstofnunum ber að vinna að því að jafna stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að nýta hæfileika sína til fulls án tillits til kynferðis.

Lögð skal áhersla á að kennarar fái þjálfun í að undirbúa nemendur af báðum kynjum fyrir einkalíf, atvinnulíf, félagslíf og fjölskyldulíf.

Vinna þarf að því að veita nemendum af báðum kynjum hvatningu til að rækta sérkenni sín og virðingu fyrir gagnstæðu kyni.
Fjölskyldunefnd beinir því til skólayfirvalda að við framsetningu námsefnis sé gætt sjónarmiða beggja kynja.
Ennfremur að lögð sé áhersla á að búa bæði kynin undir ábyrgð og skyldur fjölskyldu- og atvinnulífs, meðal annars með kennslu um jafnréttismál.

Námskeið og fræðslufundir
Fjölskyldunefnd mun árlega standa fyrir fræðslufundi eða námskeiði um jafnréttismál fyrir starfsmenn bæjarins og kjörna fulltrúa. Auk þess sem hvatningu verði beint til fyrirtækja um mótun jafnréttisstefnu.

III. Kannanir
Könnun á launamun kynjanna hjá Mosfellsbæ skal gerð á tveggja ára fresti til þess að skoða framvindu þeirra mála. Sýni niðurstöður að launamunur sé á milli kynja verði unnið að því að eyða honum.

Í allri upplýsingasöfnun sem lögð er til grundvallar að stefnumótun og ákvarðanatöku hjá Mosfellsbæ, skulu upplýsingar vera kyngreindar.

IV. Kynning á jafnréttisstefnunni
Jafnréttisstefna Mosfellsbæjar skal kynnt öllum stjórnendum og starfsmönnum bæjarins og kjörnum fulltrúum. Ennfremur verði hún kynnt fyrir bæjarbúum og fyrirtækjum í bæjarfélaginu.

V. Endurskoðun
Jafnréttisstefna verði endurskoðuð annað hvort ár.

Samþykkt í fjölskyldunefnd 13. nóvember 2007
Samþykkt í bæjarstjórn 21. nóvember 2007