Lögmannskostnaður í barnaverndarmálum

Reglur Mosfellsbæjar

um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum

1.gr.

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar veitir aðstoð til greiðslu lögmannsaðstoðar fyrir börn, foreldra eða aðra forsjáraðila barna þegar fyrir liggur einhliða áætlun um beitingu þvingunarúrræða eða áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, svo og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála, sbr 47. gr. og 55. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 28. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Leggja skal fram skriflega umsókn um framangreinda aðstoð.  Þegar umsókn er metin skal höfð hliðsjón af fjárhag umsækjanda auk eðlis og umfang máls.

2.gr.

Aðstoð til greiðslu lögmannskostnaðar er háð því að löglærður aðstoðarmaður hafi réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi eða hæstarétti, sbr. 9. og 14.gr. lagna um málflytjendur nr. 61/1994.

3.gr.

Foreldrar eða aðrir forsjármenn barna eða ungmenna velja sér sjálfir lögmann. Lögmaður skal hafa samband við yfirmann fjölskyldudeildar eða félagsmálastjóra. Gera skal samning um vinnslu málsins þar sem fram kemur hvert hlutverk lögmanns sé í málinu.  Þá skal lögmaður gera grein fyrir tímagjaldi sínu. Ef barnaverndarnefnd skipar barni talsmann sbr. 46. gr. barnaverndarlaga nr 80/2002 gilda sömu reglur.

4. gr.

Hámarksupphæð sem greidd er fyrir lögmannskostnað skv. reglum þessum er 80.000.- án virðisaukaskatts. Til viðbótar getur komið kostnaður vegna málskots til kærunefndar barnaverndarmála allt að 50.000.- án virðisaukaskatts.  Komi upp tilvik þar sem ljóst þykir að vinnsla máls verði sérstaklega umfangsmikil skal samið um það sérstaklega. Lögmaður skal skila tímaskýrslu um leið og hann leggur fram reikning.

5.gr.

Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs staðfestir reikninga vegna lögmannskostnaðar. Hafi verið samið um hærri greiðslur en reglur þessar segja fyrir um skal vísa máli til fjölskyldunefndar til staðfestingar.

 6.gr.

Reglur þessar skulu kynntar forsjáraðilum barns ef mál þeirra sæta meðferðar barnaverndarnefndar og þeim lögmönnum sem taka að sér að aðstoða þá.

Reglur þessar öðlast gildi við staðfestingu fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.

Samþykkt í FJÖLSKYLDUNEFND MOSFELLSBÆJAR 8. desember 2008.

Samþykkt í BÆJARSTJÓRN MOSFELLSBÆJAR 17. desember 2008.