Framhaldsskóli

Nú stendur yfir hönnunarsamkeppni um húsnæði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, FMOS. Samkeppislýsingu má nálgast hér.

Nýr skóli hóf starfsemi haustið 2009

Samkomulag um stofnun Framhaldsskólans í Mosfellsbæ var undirritað 19. febrúar 2008 af mennta- og menningarmálamálaráðherra og bæjarstjóra Mosfellsbæjar, þar sem gert er ráð fyrir að skólinn hefji starfsemi haustið 2009. Í samkomulaginu kemur fram að aðilar séu sammála um að byggja nýjan skóla og að í fyrsta áfanga verði gert ráð fyrir allt að 4.000 m² byggingu sem rúmi 4-500 nemendur. Við hönnun hússins og undirbúning skólastarfs skal lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni. Jafnframt verði við ákvörðun lóðarstærðar gert ráð fyrir möguleikum til verulegrar stækkunar í framtíðinni.

Kennir sig við auðlindir og umhverfi

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er framhaldsskóli sem kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og verða þær áherslur samfléttaðar við skólastarfið. Þar er átt jafnt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningarlegar auðlindir. Enn fremur er stefnt að því að gera umhverfi skólans að lifandi þætti í skólastarfinu þar sem hugað verður m.a. að náttúrufræði umhverfisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig njóta má umhverfisins og nýta á skynsamlegan hátt.

Skólinn er framhaldsskóli með áfangasniði og lögð er áhersla á að bjóða nemendum metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins, á stúdentsbrautum, stuttum starfsnámsbrautum og almennum brautum. Það endurspeglast í námsframboði skólans á þann hátt að þó að skólinn sé að stærstum hluta bóknámsskóli, mun hann bjóða fram nám í verknáms- og handverksgreinum og listgreinum til að auka fjölbreytni námsins.

Fjölbreyttar, verkefnamiðaðar kennsluaðferðir

Stefna skólans gerir ráð fyrir því að kennsluhættir einkennist af því að nemendur verði virkir þátttakendur í eigin námi og öðlist þannig sjálfstæði og frumkvæði. Til að ná þessu fram verða notaðar fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir þar sem hugmyndafræðin gengur út á að nemandinn tileinki sér námsefnið í gegnum verkefni sem hann vinnur eða umræður sem hann tekur þátt í. Rýmisáætlunin tekur mið af þessum kennsluháttum með skilgreiningu á svokölluðum klösum sem samanstanda af lokuðum rýmum fyrir 20-30 nemendur, lokuðum rýmum fyrir minni hópa og opnum rýmum bæði fyrir minni og stærri hópa.

4.000 m2 nýbygging

Í rýmisáætluninni er gert ráð fyrir um 1.900 m2 í kennslurými, 400 m2 í stjórnunarrými og um 500 m2 í önnur rými; samtals 2.800 m2 nettó fermetra. Miðað við reynslutölur frá sambærilegum byggingum má gera ráð fyrir að auka þurfi nettórými um 40 % vegna tæknirýma, ganga og veggja og því er áætlað að nýbygging skólans verði um 4.000 m2 brúttó.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ verður staðsettur í miðbæ Mosfellsbæjar. Fyrirhuguð lóð framhaldsskólans liggur við götuna Háholt og er áætluð um 12.000 m2 að stærð. Samkvæmt nýjum hugmyndum að deiliskipulagi miðbæjarins er gert ráð fyrir allt að fjögurra hæða byggingum á miðbæjarsvæðinu. Í fyrri athugun Mosfellsbæjar um staðarval framhaldsskólans í Mosfellsbæ var gert ráð fyrir samtals 8.000 m2 byggingu á um 12.000 m2 lóð. Þar var gert ráð fyrir allt að þriggja hæða framhaldsskóla og einnar hæðar íþróttarhúsi á lóð skólans.

Ný bygging tekin í notkun 2012-2013

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hóf kennslu haustið 2009 í Brúarlandi, húsnæði í eigu Mosfellsbæjar. Einn árgangur var tekinn inn í haust og gert er ráð fyrir að bæta við öðrum haustið 2010. Áætlað er að nýtt húsnæði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ verði tekið í notkun 2012-2013.