Fyrirhugaðar framkvæmdir

Vegaframkvæmdir - Tunguvegur, Skeiðholt - Kvíslartunga

Nýr vegur frá Skeiðholti að Kvíslartungu - Mikil samgöngubót fyrir íbúa Leirvogstungu.


KynningarfundurHafist handa við Tunguveg
Mosfellsbær hefur nú lokið við útboð á hönnun og framkvæmd Tunguvegar. Hnit Verkfræðistofa, Kanon arkitektar og landslagsarkitektinn Birkir Einarsson munu sjá um hönnun. Verktaki er Ístak ehf. og hafa þeir nú þegar sett upp vinnuaðstöðu neðan Kvíslartungu.
Verkið felst í því að leggja nýjan Tunguveg frá Skeiðholti að Kvíslartungu alls um 1 km. Samhliða veginum verður hjóla- og göngustígur. Byggðar verða brýr yfir Varmá og Köldukvísl. Undir brúnum er gert ráð fyrir reiðstíg. Framkvæmdin felst einnig í að byggja undirgöng fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Skeiðholt. Á gatnamótum Skeiðholts, Skólabrautar og Tunguvegar verður hringtorg. Einnig er í undirbúningi breytingar á Skeiðholti að Þverholti sem snúa að hliðrun götunnar sem og hljóðvörnum.

Vegurinn verði tilbúinn næsta sumar
Ljóst er að vegurinn verður gríðarleg samgöngubót fyrir ört stækkandi Leirvogstunguhverfi. Ekki síst fyrir börn hverfisins sem sækja skóla og íþróttastarf á Varmársvæðið. Einnig verður til langþráð aðgengi fyrir íbúa bæjarins að íþróttasvæðinu við Tungubakka og Ævintýragarðinn sem er nú óðum að taka á sig mynd í Ullarnesbrekkum.
Gert er ráð fyrir að heildarverklok framkvædarinnar verði 1. júlí 2014 en brúarsmíði og jarðvinnu við Tunguveg verði lokið um áramót 2013/2014

Með því að smella á mynd má sjá stærri útgáfu en einnig er hægt að hlaða niður .pdf skjali hér

Tunguvegur
f.h Mosfellsbæjar f.h Ístaks
Þorsteinn Sigvaldason Björn Ástmarsson
Gsm 6936703 Gsm 8402786 

 

 

Nýr íþróttasalur að Varmá,

Haraldur og Sævar ásamt fél úr Aftureldingu.Mynd/RaggiÓlaGjörbylt aðstaða fyrir bardagaíþróttir og fimleika auk félagsaðstöðu UMFA með nýjum 1200 fm viðbyggingu og 300 fm millilofti sem verður tekin í notkun um næstu áramót.

Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir við 1200 fm viðbyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá sem hýsa mun starfsemi fimleika- og bardagaíþróttadeilda Aftureldingar sem og að skapa möguleika á aukinni félagsaðstöðu félagsins. Heildarkostnaður við þessa framkvæmd er um 135 m.kr.
Um er að ræða stálgrindarhús sem byggt verður austan við eldri íþróttasalinn og innangengt verður milli salanna. „Það er ljóst að þessi viðbót á húsnæðiskosti að Varmá verður mikil lyftistöng fyrir Aftureldingu, ekki aðeins fyrir fimleika og bardagadeildirnar heldur líka aðrar deildir félagsins, því við þetta skapast meira rými í öðrum íþróttasölum fyrir þær

íþróttagreinar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. Margar deildir munu njóta ávinnings af nýja húsinu Það er ljóst að flestar ef ekki allar deildir félagsins munu njóta ávinnings af þessu nýja íþróttahúsi og fögnum við því mjög að það sé að verða að veruleika. Jafnframt hefur Mosfellsbær samþykkt að hefja vinnu með Aftureldingu um greiningu á framtíðarþörf íþróttamannvirkja félagins,“ segir Sævar Kristinsson formaður Aftureldingar.

Bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að ráðast í framkvæmdir við 1200 fm viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá sem hýsa mun starfsemi fimleikadeildar og bardagaíþróttadeildir Aftureldingar sem og að skapa möguleika á aukinni félagsaðstöðu.

Varmá

Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra er forsaga þessa máls sú að Afturelding ritaði bænum bréf í júlí á síðasta ári þar sem óskað var eftir því að bærinn gerði félaginu kleift að leigja húsnæði sem nýst gæti fimleikadeild, taikwondodeild og karatedeild og um leið leysa brýnasta húsnæðisvanda félagsins. „Það er búið að fara yfir kosti í þessu sambandi síðan og eftir vandlega yfirferð var það niðurstaðan að hagkvæmast væri að bæta við íþróttasal við Íþróttamiðstöðina að Varmá,“ segir Haraldur. „Það er vilji bæjarstjórnarinnar að koma til móts við þessa þörf Aftureldingar og hér er um hagkvæma framkvæmd að ræða sem rúmast innan þess fjárhagslega svigrúms sem bærinn hefur til framkvæmda.“

Vonast er til að hægt verði að taka þennan nýja sal í notkun um næstu áramót langþráð aðstaða fyrir félagsstarfið  „ Við flutning fimleika- og bardagadeilda úr núverandi aðstöðu mun verða hægt að flytja til ýmsar deildir og gera þeim kleift að rækta sitt hlutverk og starfsemi á mun betri hátt en áður. Handboltinn mun til að mynda færast í annan sal sem uppfyllir kröfur HSÍ sem salurinn í dag gerir ekki. Blakið fær aukið rými í húsinu ásamt því að bæði yngri deildir knattspyrnunnar og eins frjálsar ættu að geta fengið innitíma í húsinu yfir veturinn.
Síðast en ekki síst mun Afturelding fá langþráða aðstöðu fyrir félagsstarfið og eins aukið rými fyrir skrifstofu félagsins,“ segir Sævar Kristinsson formaður Aftureldingar.

Fréttin birtist í Mosfellingi  sem kom út fimmtudaginn 23. febrúar.
(www.mosfellingur.is)

 

Hjólastígur meðfram Vesturlandsvegi

Samgongustigur_Vesturlandsvegur_201123.9.2011  Föstudaginn 9. september síðastliðinn  var undirritaður samningur Mosfellsbæjar og Vegagerðarinnar um gerð hjóla- og göngustígs meðfram Vesturlandsvegi.  Um er að ræða samgöngustíg sem tengja mun núverandi stígakerfi í Mosfellsbæ við við sveitarfélagamörk við Reykjavík.  Möguleikar hjólreiðamanna að komast beina leið milli sveitarfélaganna verða því betri en verið hefur.

Nýi hjóla- og göngustígurinn mun liggja sunnan og austan Vesturlandsvegar frá Hlíðartúnshverfi í Mosfellsbæ, gegnum skógræktarsvæði Mosfellinga við Hamrahlíð, og fyrirhugað að hann tengist stígum í Úlfarsfellshverfi í Reykjavík við byggingu Bauhaus.  Í dag eru þarna aðeins grófir malarstígar og gamall lagnastokkur Orkuveitunnar hluta af leiðinni og því erfitt að komast beinustu leið til Reykjavíkur þessa leið.  Hingað til hafa hjólreiðamenn því þurft að hjóla á Vesturlandsveginum sjálfum eða nýta fallegan en hlykkjóttan útivistarstíg meðfram Leiruvogi sem lengir leiðina talsvert.   Stígur milli hverfa Mosfellsbæjar og Reykjavíkur meðfram Vesturlandsvegi mun því opna fyrir betri möguleika á að nota reiðhjól sem samgöngumáta fyrir þá sem vilja komast sem greiðast milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.   Auk þess mun gerð stígsins auka aðgengi Mosfellinga að skógræktarsvæðinu við Hamrahlíð til muna.

Stígurinn verður hannaður meðal annars með hliðsjón af þörfum hjólreiðamanna og verður um 3 metra breiður og um 2.7 km á lengd.
Hönnun stígsins er lokið, og er gert ráð fyrir að uppbygging hans verði boðinn út nú í haust. Stefnt er að því að fyrri hluti stígarins sem nær að skógræktarsvæðinu við Hamrahlíð verði tilbúinn sumarið 2012 og að hann geti verið fullkláraður sumarið 2013.

Vonast er til að gerð samgöngustígs meðfram Vesturlandsvegi muni gera Mosfellingum og öðrum kleift að nýta sér reiðhjól meira sem samgöngumáta milli sveitarfélaganna og auka þannig áherslur á vistvænar samgöngur í sveitarfélögunum. 

 

Göngubrú yfir Vesturlandsveg í smíðum

Göngubrú_afstaða_minni30.9.2011 Vegfarendur um Vesturlandsveg hafa tekið eftir framkvæmdum, sem nýlega var byrjað á rétt sunnan vegarins gegnt Krónunni. Þarna er verið að reisa brú fyrir gangandi og hjólandi yfir Vesturlandsveg, sem tengja mun Krikahverfið við miðbæinn.

Framkvæmdin við sjálfa brúna er á forræði Vegagerðarinnar, sem hefur ráðið byggingarfyrirtækið Eykt sem verktaka, en Mosfellsbær mun sjá um lokafrágang stíganna að brúnni.

Brúin verður 59 metrar að lengd og í megindráttum eins að útliti og gerð og göngubrúin á leiðinni frá Teigahverfi yfir Vesturlandsveg, þ.e. steypt, berandi gólf á þremur sívölum stöplum og með handriðum úr stálvirki. Brúin á að verða fullgerð og tilbúin til notkunar í febrúar á næsta ári en stígarnir að henni verða malbikaðir þegar tíð leyfir í vor.

Menningarhús/kirkja
Haldin var  samkeppni um menningarhús og kirkju árið 2009, þar sem tillaga arkitektur.is varð hlutskörpust.
Engar framkvæmdir hafnar og óvíst er hvenær ráðist verður í framkvæmdir.

Viðbygging við Íþróttamiðstöðina að Varmá
Í nokkurn tíma hefur staðið til að byggja við íþróttamiðstöðina að Varmá. Um er að ræða  2. hæða þjónustuhús sem bæta á móttöku, fundaraðstöðu og búningsaðstöðu í húsinu og auðvelda innbyrðis tengsl í húsinu.
Framkvæmdum hefur verið slegið á frest í óákveðinn tíma.

Undirgöng undir Baugshlíð
Í deiliskipulagi fyrir Vestursvæði Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir mislægum götutengslum undir Baugshlíð. Árið 2008 vann teiknistofan Gláma- Kím forvinnu að  tillögu fyrir undirgöng og var tillagan síðan kynnt fyrir íbúum svæðisins.

Áframhaldandi undirbúningi og framkvæmdum við göngin hefur verið slegið á frest.