Menningarhús og kirkja

16. júní 2009


Tillaga arkitektur.is
Úrslitin liggja fyrir

Dómnefnd hefur nú lokið störfum og voru úrslitin kynnt við athöfn sem fram fór á innitorgi í Kjarna þriðjudaginn 16. júní. Hlutskörpust varð tillaga frá arkitektur.is og hlaut hún fyrstu verðlaun, 4 millj. kr. Önnur verðlaun, 2,5 millj. kr., hlaut tillaga ASK arkitekta ehf. og 3. - 4. verðlaun hlutu tillögur Arkþings ehf. og PK arkitekta, 750 þús kr. hvor. Að auki ákvað dómnefnd að veita einni tillögu viðurkenninguna "athygliverð tillaga." Alls bárust 32 tillögur.

Tillögurnar eru allar til sýnis á torginu í Kjarna, Þverholti 2, og verður sýningin opin fram til 1. júlí frá kl. 8:00 til kl. 19:00.

Dómnefndarálitið hefur verið gefið út í bæklingi, sem inniheldur ávarp formanns dómnefndar, greinargerð um samkeppnina og niðurstöður hennar, myndir af tillögunum og umsagnir dómnefndar um þær.  Bæklingurinn liggur frammi á sýningunni og er til afhendingar þeim sem óska sérstaklega eftir því. Bæklingurinn er einnig hér á heimasíðunni á pdf-formi, annarsvegar í heild sinni í einu skjali og hinsvegar hlutaður sundur í nokkra parta, þar sem heildarskjalið er nokkuð þungt í vinnslu:

Dómnefndarálit í heild (.pdf - 12 MB)

Hlutar:

Forsíða, ávarp og greinargerð um niðurstöðu (.pdf - 100k)

Um 1. verðlaunatillögu (.pdf - 5,7 MB)

Um 2. verðlaunatillögu (.pdf - 2,5 MB)

Um 3.-4. verðlaun og athygliverða tillögu (.pdf - 1 MB)

Um aðrar tillögur (.pdf - 2,8 MB)


1. apríl 2009

Afnot af þríviddarmódeli

Vegna einnar af fyrirspurnunum sem lagðar voru fyrir dómnefnd í fyrri fyrirspurnalotu, hefur hún ákveðið að veita keppendum afnot af þrívíddar-tölvumódeli, sem smíðað var í tengslum við vinnu að deiliskipulagi Miðbæjar Mosfellsbæjar. Dómnefndin setur þó fyrirvara um nákvæmni módelsins og tekur fram að notkun þess við framsetningu tillagna sé á eigin ábyrgð keppenda.
Módelið er lagt til á DWG- og DXF-formi og eru báðar skrárnar þjappaðar í einni ZIP-skrá sem hlaða má niður með því að smella á tengilinn hér að neðan. Skránum fylgir lítið „Lestu mig“ skjal sem mikilvægt er að keppendur lesi.

Hlaða niður ZIP-skrá ...


12. mars 2009 13:24:

Hugmyndasamkeppni um menningarhús og kirkju.

Mosfellsbær og Lágafellssókn efna til samkeppni um hönnun á sameiginlegu menningarhúsi og kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar í samstarfi við Arkitektafélag Íslands.
Markmið með hugmyndasamkeppninni er meðal annars að laða fram fjölbreyttar og metnaðarfullar hugmyndir að menningarhúsi og kirkju er myndi sterka starfræna og byggingarlistarlega heild. Um leið er stuðlað að samvinnu til eflingar kirkju- og menningarstarfsemi, er verði bæjarfélaginu til sóma og menningarlífi bæjarins til framdráttar.
Áhersluatriði dómnefndar við mat á lausnum eru m.a. að heildaryfirbragð byggingarinnar endurspegli framsækna byggingarlist, að byggingin falli vel að umhverfi sínu og verði sveigjanleg í notkun. Gert er ráð fyrir að í húsinu verði fjölbreytt starfsemi á vegum kirkju og menningarhúss, svo sem hefðbundið kirkjustarf, safnaðarsalur, bókasafn, lista- og tónlistarsalir og veitingarekstur.
Samkeppnin er almenn hugmyndasamkeppni og öllum opin. Veitt verða verðlaun að heildarfjárhæð kr. 7.000.000.
Keppnislýsingu er að finna á vef Arkitektafélags Íslands, ai.is, og hér á vef Mosfellsbæjar. Önnur keppnisgögn verða afhent frá og með 4. febrúar gegn skilatryggingu að upphæð kr. 5.000, á skrifstofu Arkitektafélags Íslands, kl. 9:00 – 13:00 virka daga.
Skilafrestur er til og með 30. apríl. Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum fyrir föstudaginn 29. maí 2009.

Samkeppnislýsingin (.pdf - 912kb)

Þarfagreining vegna menningarhúss og kirkju (.doc 419kb)