Hjóla- og göngustígar

Í Mosfellsbæ geta íbúar og gestir ferðast hjólandi eða gangandi um bæinn á öruggan og vistvænan hátt. Stígar eru lagðir um vinsælar útivistarperlur s.s. meðfram Varmánni og Leirvoginum. Víða eru göngubrýr yfir ár og læki og undirgöng undir umferðaæðar til að auðvelda för.

Stikaðar gönguleiðir

Skátafélagið Mosverjar hefur í samvinnu við Mosfellsbæ unnið að stikun gönguleiða um útivistarsvæði í Mosfellsbæ. Fyrsta áfanga verksins er lokið en ætlunin er að stika alls um 65 km en auk þess að setja upp vegpresta við vegamót og upplýsingaskilti við gönguleiðirnar.

Göngukort sem hefur verið prentað verður fyrirliggjandi ókeypis á íþróttamiðstöðvunum að Varmá og Lágafelli og einnig í bókasafni Mosfellsbæjar og má einnig nálgast rafrænt á tenglinum hér til hægri.
 
Markmiðið með lagningu stikaðra gönguleiða er að auðvelda almenningi aðgang að ósnortinni náttúru útivistarsvæðis Mosfellsbæjar. Þar eru margar náttúruperlur og sögulegar minjar sem sagt verður frá á sérstökum fræðsluskiltum sem verða sett upp í tengslum við verkefnið.
 
Göngufólk er hvatt til að nýta sér stikuðu gönguleiðirnar og göngukortið jafnt sumar sem vetur, ganga vel um og njóta útivistarsvæðisins.

Með því að smella á hlekki á stikunni hér til vinstri má skoða ýmsa útivistarmöguleika auk korta og loftmynda af Mosfellsbæ.