Aðalskipulag 2011-2030

Bru-a-VarmaNýtt aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 var staðfest af Skipulagsstofnun 19. september s.l. og tók gildi með birtingu auglýsingar í Stjórnartíðindum 3. október. Lauk þar með endurskoðun aðalskipulagsins sem unnið hafði verið að allt frá árinu 2008. Nýja skipulagið leysir af hólmi skipulag sem samþykkt var árið 2003 og hafði gildistímann 2002-2024.

Meðal helstu nýmæla í nýju skipulagi m.v. það eldra má nefna breytta stefnumörkun varðandi útfærslu Vesturlandsvegar og gatnamóta við hann með tilliti til „sambúðar vegar og byggðar,“ nánari skilgreiningar og skilmála um hverfisverndarsvæði, frístundabyggð, stök sumarhús og um blandaða byggð í Mosfellsdal, svo og skilgreiningu ævintýragarðs og nýtt svæði fyrir hesthús og hestaíþróttir í landi Hrísbrúar.

Nýja skipulagið felur hinsvegar aðeins í sér óverulegar breytingar á byggðarsvæðum, enda munu þau byggðarsvæði sem skilgreind voru í eldra skipulagi rúma áætlaða fjölgun íbúa til 2030 og vel það. Samkvæmt grunnspá skipulagsins munu íbúar bæjarins, sem voru tæp 9.000 í lok árs 2012, verða tæp 14.000 árið 2024 og tæp 17.000 árið 2030.

Staðfest skipulagsgögn aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011-2030 eru annarsvegar tveir uppdrættir; þéttbýlisuppdráttur og sveitarfélagsuppdráttur; og hinsvegar greinargerð sem inniheldur stefnu og skipulagsákvæði aðalskipulagsins og umhverfisskýrslu. Í viðauka er gerð grein fyrir athugasemdum sem bárust á auglýsingartíma skipulagsins og umsögnum Mosfellsbæjar um þær.

Hér má nálgast ofangreind staðfest skipulagsgögn á pdf- eða jpg-formi:

Þéttbýlisuppdráttur, -  pdf-skjal, 3,6 MB  -  jpg-mynd, 0,8 MB
Sveitarfélagsuppdráttur, -  pdf-skjal, 7,4 MB  -  jpg-mynd, 0,9 MB
Greinargerð, -  Stórt pdf-skjal (10 MB)  -  Minna pdf-skjal (3,4 MB)

Hér má ennfremur nálgast áfangaskýrslur 1-4 (pdf-skjöl), sem unnar voru í skipulagsferlinu:

Áfangaskýrsla 1: Forsendur
Áfangaskýrsla 2: Stefna
Áfangaskýrsla 3: Matslýsing
Áfangaskýrsla 4: Verkefnislýsing skv. 30. gr.

Hvað er aðalskipulag ?
(af vef Skipulagsstofnunar) 

  • Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags
  • Í aðalskipulagi birtist stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál, þróun byggðar og byggðamynstur til a.m.k. 12 ára
  • Í aðalskipulagi eru forsendur fyrir gerð deiliskipulags
  • Aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðherra þegar það á við

 Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og endurskoðun aðalskipulags. Gerð aðalskipulags á að byggja á markmiðum skipulagslaga, landsskipulagsstefnu, svæðisskipulags, liggi það fyrir, auk þess sem samræmis skal gætt við aðalskipulag aðliggjandi sveitarfélaga. Við mótun tillögu skal jafnhliða lagt mat á umhverfisáhrif stefnu.

Í upphafi skipulagsvinnunnar skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram koma áherslur sveitarstjórnar við skipulagsgerðina og upplýsingar um skipulagsforsendur, fyrirhugað skipulagsferli, kynningu og samráð. Leita skal umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna almenningi.

Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skal sveitarstjórn taka til umfjöllunar og ákveða hvort ástæða sé til að endurskoða gildandi aðalskipulag. Við slíka endurskoðun skal hugað að samfélagsþróun undanfarinna 4 ára og til næstu framtíðar auk þess að skoða hvernig framfylgd aðalskipulagsins hefur gengið eftir. Nýtt aðalskipulag og breytingar á því er háð staðfestingu Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðherra þegar það á við.

Nánari upplýsingar um gerð og málsmeðferð aðalskipulags má nálgast með eftirfarandi krækjum

Skipulagslög nr. 123/2010
Skipulagsreglugerð nr. 90/2013
Lög um umhverfismat áætlana