Um aðalskipulag

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag og skal taka til alls lands viðkomandi sveitarfélags. Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnu sína um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu til minnst 12 ára. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir deiliskipulagsgerð einstakra svæða í sveitarfélaginu.

Við gerð aðalskipulags skal byggt á markmiðum skipulags- og byggingarlaga, fyrirliggjandi áætlunum sem varða sveitarfélagið og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins á skipulagstímabilinu. Sveitarstjórn ber að vinna að aðalskipulagi í samráði við íbúa sveitarfélagsins og aðra hagsmunaaðila auk þess sem sveitarstjórn ber að leita til ýmissa opinberra aðila við mótun aðalskipulagsstefnunnar.

Við gerð aðalskipulags ber að leggja mat á umhverfisáhrif þeirrar stefnu sem þar er lögð til. Í leiðbeiningariti Skipulagsstofnunar um gerð aðalskipulags er nokkuð ítarlega fjallað um hvernig unnt er að standa að slíku umhverfismati.

Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og staðfest af umhverfisráðherra, en áður þarf að hafa farið fram kynning á hinni endanlegu skipulagstillögu. Í skipulagsreglugerð er fjallað ítarlega um efni, framsetningu og málsmeðferð aðalskipulags. Framfylgd aðalskipulags er í höndum sveitarstjórnar. Að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skal sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til að endurskoða gildandi aðalskipulag.

Auk heildarendurskoðunar getur þurft að gera breytingar á gildandi aðalskipulagi. Í 21. gr. skipulags- og byggingarlaga og í 7. kafla skipulagsreglugerðar er fjallað um hvernig fara skal með breytingar á aðalskipulagi. Sjá einnig leiðbeiningablað um breytingar á aðalskipulagi .