Úthlutunarreglur

Inngangur

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur það verkefni, í umboði bæjarstjórnar, að vera úthlutunaraðili byggingarlóða samkvæmt eftirfarandi verklagsreglum. Byggingarlóðir geta verið ein eða fleiri saman á skilgreindu deiliskipulögðu svæði. Reglur þessar eiga einungis við byggingarlóðir (leigulóðir) á eignarlandi Mosfellsbæjar.

Verklagsreglur

1. gr.    Ferli kynninga og auglýsinga

1.1
Áður en byggingarlóðir (lóð) eru tilbúnar til úthlutunar og áður en þær eru auglýstar lausar til umsóknar, skal Tækni – og umhverfissvið  semja úthlutunarskilmála er skilgreina réttindi og skyldur þeirra lóðarhafa er byggja á viðkomandi lóðum.  Úthlutunarskilmálarnir skulu auglýstir samhliða lóðunum sjálfum og skulu vera aðgengilegir um leið og umsóknarfrestur hefst.

1.2
Allar byggingarlóðir skulu að jafnaði auglýstar lausar til umsóknar áður en þeim er úthlutað. Auglýsingin skal birtast þar sem Mosfellsbær alla jafna birtir opinberar tilkynningar sínar s.s. í staðarblöðum og á heimasíðu bæjarins. Bæjarráð getur þó úthlutað lóðum fyrir atvinnuhúsnæði án auglýsingar sbr. 4. mgr. í tölulið 3.2.1

Úthlutunarreglur

2. gr.   Forsendur og skilyrði umsóknar um byggingarlóð

2.1  Forsendur umsóknar um byggingarlóð
Umsækjendur geta verið einstaklingar eða lögaðilar og skulu þeir uppfylla einhvern af stafliðum a til c hér að neðan, auk stafliðar d:

a. vera íslenskir ríkisborgarar, eða íslenskir lögaðilar
b. vera ríkisborgarar ríkja er taka þátt í samstarfinu um hið evrópska efnahagssvæði EES, eða vera lögaðili sem hefur lögheimili (starfsstöð) á Íslandi ,
c. uppfylla skilyrði 1. gr. laga nr. 19/1966 um eignarétt og afnotarétt fasteigna.
d. vera fjárráða og bús síns ráðandi

2.2   Skilyrði umsóknar um byggingarlóð
Umsókn telst gild ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

2.2.1
Umsóknin er rétt útfyllt á þar til gerðu eyðublaði og meðfylgjandi séu umbeðin fylgiskjöl í samræmi við leiðbeiningar á umsóknareyðublaði. Einstaklingur eða lögaðili má aðeins leggja inn eina umsókn í sínu nafni hverju sinni, í hverjum flokki þeirra húsgerða er til úthlutunar eru hverju sinni.

Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða má aðeins annað þeirra leggja inn umsókn, eða þau mega leggja inn eina umsókn í nafni beggja.

2.2.2
Umsókninni er skilað innan tilskilins umsóknarfrests á þann stað er greinir í auglýsingu hverju sinni. Móttaka umsóknar skal staðfest af Mosfellsbæ.

2.2.3 
Umsækjandi er ekki í vanskilum við bæjarsjóð og / eða stofnanir bæjarins.

2.2.4 
Einstaklingur sem umsækjandi um lóð skal leggja fram greiðslumat  frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun og skal greiðslumatið uppfylla þær kröfur er íbúðalánasjóður gerir til lántaka sinna, greiðslumatið skal bera það með sér að umsækjandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu.
Lögaðili sem umsækjandi um lóð skal leggja fram mat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu.

3. gr.  Tegundir lóða, úthlutunaraðferðir lóða og endurúthlutanir lóða

3.1   Einbýlishúsalóðir, parhúsalóðir, tvíbýlishúsalóðir, rað- og
 fjölbýlishúsalóðir
Einbýlis-, parhúsa-, tvíbýlis-, rað- og fjölbýlishúsalóðum er úthlutað til einstaklinga og lögaðila.

3.1.1  Almennar úthlutunaraðferðir lóða sem getið er í  3.1  
Úr gildum umsóknum er dreginn sá fjöldi lóða sem til úthlutunar er hverju sinni og dregnar eru jafnmargar til vara svo fremi umsóknir séu fleiri en þær lóðir sem til úthlutunar eru hverju sinni.
Útdráttur fer fram á fundi sem bæjarráð boðar. Viku síðar boðar bæjarráð til annars fundar þar sem  þeir sem dregnir voru út vikunni fyrr, velja sér lóð í þeirri röð sem þeir voru dregnir út í upphafi og telst sá dagur úthlutunardagur lóðar.
Ef umsækjandi, eða umbjóðandi hans með skriflegt umboð, mæta ekki til seinni fundarins hafa þeir fyrirgert rétti sínum til að velja sér lóð og skal þá sá er næstur er á eftir í röðinni velja lóð. Þeim lóðum sem þá standa eftir verður úthlutað í réttri röð til þeirra sem voru fjarstaddir.
Séu umsóknir færri en þær lóðir sem í boði eru fara þær lóðir sem ekki ganga út á listann yfir “lóðir til úthlutunar” sbr. 4. gr. 4.1. Lóðir til endurúthlutunar.

3.1.2   Endurúthlutanir lóða sem getið er í  3.1
Falli úthlutuð lóð aftur til bæjarins vegna þess:

- að lóðarhafi greiðir ekki innan tilskilins frests sbr. 5. gr. tölulið 5.1
- að lóðarhafi skilar henni sjálfur og óskar endurgreiðslu, eða að öðrum sökum, skal lóðin boðin þeim er dregnir voru út í áframhaldandi númeraröð sbr. tölulið 3.1.1 hér að ofan.  Þessi aðferð verði viðhöfð svo lengi sem nokkur þeirra umsækjenda er eftir sem dregnir voru út í fyrstu.
Þessi aðferð er þó ekki viðhöfð í lengri tíma en 6 mánuði frá úthlutunardegi, að þeim tíma loknum taka við reglur sbr. 4. gr. hér að neðan  Lóðir til endurúthlutunar.

3.2   Atvinnuhúsnæði
Atvinnuhúsnæðislóðum er úthlutað til einstaklinga og lögaðila.

3.2.1   Almennar úthlutunaraðferðir lóða sem getið er í  3.2
Úr gildum umsóknum er dreginn sá fjöldi lóða sem til úthlutunar er hverju sinni og dregnar eru jafnmargar til vara svo fremi umsóknir séu fleiri en þær lóðir sem til úthlutunar eru hverju sinni.
Útdráttur fer fram á fundi sem bæjarráð boðar. Viku síðar boðar bæjarráð til annars fundar þar sem  þeir sem dregnir voru út vikunni fyrr, velja sér lóð í þeirri röð sem þeir voru dregnir út í upphafi og telst sá dagur úthlutunardagur lóðar.
Ef umsækjandi, eða umbjóðandi hans með skriflegt umboð, mæta ekki til seinni fundarins hafa þeir fyrirgert rétti sínum til að velja sér lóð og skal þá sá er næstur er á eftir í röðinni velja lóð. Þeim lóðum sem þá standa eftir verður úthlutað í réttri röð til þeirra sem voru fjarstaddir.
Séu umsóknir færri en þær lóðir sem í boði eru fara þær lóðir sem ekki ganga út á listann yfir “lóðir til úthlutunar” sbr. 4. gr. 4.1. Lóðir til endurúthlutunar

Bæjarráði er þó í sérstökum tilvikum heimilt að úthluta lóðum fyrir atvinnuhúsnæði, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum, sem ekki hefur verið ákveðið að auglýsa skv. 1. mgr. þessarar greinar.
Úthlutun getur þó ekki farið fram fyrr en að lokið hefur verið við alla skipulags- og undirbúningsvinnu og úthlutunarskilmálar settir sbr. 1. gr.

3.2.2   Endurúthlutanir lóða sem getið er í 3.2 
Falli úthlutuð lóð aftur til bæjarins vegna þess:

- að lóðarhafi greiðir ekki innan tilskilins frests sbr. 5. gr. tölulið 5.1
- að lóðarhafi skilar henni sjálfur og óskar endurgreiðslu, eða að öðrum sökum, skal lóðin boðin þeim er dregnir voru út í áframhaldandi númeraröð sbr. tölulið 3.3.1 hér að ofan. Þessi aðferð verði viðhöfð svo lengi sem nokkur þeirra umsækjenda er eftir sem dregnir voru út í fyrstu.
Þessi aðferð er þó ekki viðhöfð í lengri tíma en 6 mánuði frá úthlutunardegi, að þeim tíma loknum taka við reglur sbr. 4. gr. hér að neðan, Lóðir til endurúthlutunar.

3.3  Sérstakar úthlutunaraðferðir lóða sem getið er í  3.1 og 3.2
Heimilt er bæjarráði að efna til forvals meðal verktaka þegar sérstaklega stendur á og nauðsynlegt þykir að einn og sami aðili annist uppbyggingu tiltekinna bygginga innan ákveðins deiliskipulagssvæðis eða hluta þess .
Þá skal í úthlutunarskilmálum fyrir viðkomandi lóðir tilgreina að fara eigi þessa leið og jafnframt skulu forvalsreglur kynntar um leið og lóðir eru kynntar sbr. 1. gr. 1.1.
 Heimilt er bæjarráði að bjóða upp einstaka lóðir og skal þá í úthlutunarskilmálum  
fyrir viðkomandi lóðir tilgreina að fara eigi þessa leið og jafnframt skulu uppboðsreglur kynntar um leið og lóðir eru kynntar sbr. 1.gr.1.1

4. gr.  Lóðir til endurúthlutunar 

 4.1   Lóðir til endurúthlutunar að loknu ferli sbr. 3.1.2 og 3.2.2
 Að liðnum þeim 6 mánuðum sem getið er í 3.1.2 og 3.2.2 skal útbúa lista yfir
 þær lóðir sem kann að vera óúthlutað þ.e. “lóðir til úthlutunar”. Auglýsa skal lóðir  til úthlutunar eftir reglum í 1. gr. 1.1 og upp frá því eftir hentuleikum hverju sinni.
 Allar lóðir sem áður hafa fengið meðhöndlun skv. 3. gr. skal skrá á listann lóðir til  úthlutunar hvernig svo sem þær falla aftur til Mosfellsbæjar.

 Setja skal sömu skilyrði og getið er í 2. gr. hér að ofan þegar lóðum er  endurúthlutað skv. grein þessari.

5. gr. Almenn ákvæði

5.1
Innan fjögurra vikna frá lóðarúthlutun ber lóðarhafa að ganga frá fullnaðargreiðslu gatnagerðagjalda og annarra tengdra gjalda vegna lóðarinnar í samræmi við gildandi gjaldskrár og greiðsluskilmála Mosfellsbæjar.

5.2
Skýrt skal tekið fram við lóðarúthlutun um byggingarfrest á viðkomandi lóð eða byggingarsvæði þar með talið skil á teikningum o.þ.h.

5.3
Lóðarhafa er óheimilt að afhenda eða framselja lóð sem hann hefur fengið úthlutað til þriðja aðila fyrr en  lóðarleigusamningur hefur verið

gerður.

5.4
Komi í ljós eftir lóðarúthlutun að lóðarhafi hafi gefið rangar og eða villandi upplýsingar vegna  lóðarumsóknar er heimilt að afturkalla lóðarúthlutun.

5.5
Við alla afgreiðslu umsókna og meðhöndlun þeirra skal gæta jafnræðis og samræmis í samræmi við ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

5.6
Farið skal með allar persónulegar upplýsingar sem fram koma í umsókn sem trúnaðarmál. Reglur upplýsingalaga nr. 50/1996 gilda þó um þau efnisatriði sem lögin heimila að séu upplýst.

5.7
Komi fram misræmi á milli texta í þessum úthlutunarreglum og texta   úthlutunarskilmála  ræður texti þessara úthlutunarreglna.

5.8
Bæjarráð fer með framkvæmd þessara reglna og sker úr um hugsanleg ágreiningsefni er upp kunna að koma. Verði ágreiningur innan bæjarráðs, fara mál til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.