Skipulagsvefsjá

Gildandi skipulag á netinu

Skipulagsvefsja_mynd-minniÍ Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar, sem nær til landsins alls, verður mögulegt að finna og skoða allt gildandi aðal- og deiliskipulag sem samþykkt hefur verið frá gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulagsvefsjáin fór í loftið á árinu 2010 en hún er raunar enn í smíðum, þar sem tengingu skipulagsgagna við hana er ekki að fullu lokið, og því getur komið fyrir að skipulag sem þar ætti að vera finnist ekki.

Vegna tilkomu Vefsjárinnar hefur Mosfellsbær ákveðið að byggja ekki upp sérstakan aðgang að gildandi skipulagi í bænum á eigin heimasíðu, en vísa í staðinn á Skipulagsvefsjána. Notendum, sem leita eftir gildandi deiliskipulagi fyrir tiltekinn stað eða svæði í bænum í Skipulagsvefsjánni og finna ekki, er bent á að snúa sér til þjónustuvers Mosfellsbæjar eða skipulagsfulltrúa.

Grunnur vefsjárinnar er kort/loftmyndir af landinu, þar sem búið er að afmarka sveitarfélögin, og innan þeirra „fleka“ fyrir einstök deiliskipulagssvæði. Þessir flekar koma í ljós þegar þysjað hefur verið inn á sveitarfélagið og er þá hægt að smella á þá með valtóli (pílu) og kalla fram tengla við deiliskipulagsuppdrætti og greinargerðir. Áður en þysjað hefur verið inn er hægt að renna valtólinu yfir kortið af landinu og smella á einstök sveitarfélög og kalla með því fram tengla við aðalskipulagsgögn fyrir sveitarfélagið. Einnig má leita með leitarorðum. Nánari leiðbeiningar er að finna í vefsjánni sjálfri.

Fara á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar