Grænar tunnur

Grænar tunnur - endurvinnslutunnur

Íbúar bæjarins geta sótt um grænar tunnur hjá sorphirðufyrirtækjum. Íbúar gera þá samning  beint við fyrirtækið en ekki í gegnum bæinn.

Í grænu tunnurnar eru sett flokkað rusl; pappír, pappi, plast, málmar o.fl.

Hvað er græna tunnan?
Hugmyndafræði Grænu tunnunnar gengur út á að auðvelda fólki flokkun sorps og minnka þannig magn þess sorps sem fer til urðunar.

Í tunnuna má setja allan pappír heimilisins, bylgjupappa og pappa, plast, minni málmhluti (t.d. niðursuðudósir, málmlok af glerkrukkum) og fernur. Tunnan er losuð mánaðarlega.

Með grænu tunnunni losnar fólk við að fara með dagblöð, tímarit og fernur í grenndargáma auk þess sem flokkunarmöguleikar á plasti og málmum bætast við.

Heimilin flokka plastumbúðir, fernur og málma í sér poka, binda fyrir og setja í grænu tunnuna með pappírsflokkunum.

Innihald Grænu tunnanna er flutt í endurvinnsluþorpið í Gufunesi þar sem starfsmenn Íslenska gámafélagsins aðgreina flokkana. Flokkarnir fara síðan mismunandi leiðir í endurvinnslu.

Pappírsflokkarnir eru pressaðir saman í stóra bagga sem fluttir eru í 40 feta gámum til Svíþjóðar til endurvinnslu. Úr pappírnum eru framleiddar ýmsar pappírsvörur s.s. salernispappír, eldhúspappír, ljósritunarpappír, dagblaðapappír, stílabækur, teiknipappír og margt fleira.

Plastefnin eru flokkuð og fara í endurvinnslu hjá plastmótun sem er að setja upp aðstöðu í Gufunesi. Mismunandi plasttegundir eru flokkaðar frá hver annarri og efnið síðan mulið og nýtt til plastframleiðslu á nýjan leik. Afurðir ú endurunnum plastumbúðum eru m.a. vegastikur, rör, girðingastaurar og fleira.

Málmarnir fara í brotajárn sem flutt er erlendis til endurvinnslu. Mikil orka sparast við endurvinnslu málma miðað við framleiðslu þeirra úr grunnefnum. Til að endurvinna ál þarf eingöngu um 5% þeirrar orku sem þarf að frumvinna ál.

Ath! Gler má alls ekki fara í tunnuna þar sem innihald tunnunnar er handflokkað og því getur brotið gler verið varasamt. Einnig getur glerið skemmt annað hráefni í tunnunni og gert það óhæft til endurvinnslu.

Rafhlöður mega ekki fara í tunnuna þar sem þær eru flokkaðar sem spilliefni. Sumar rafhlöður innihalda sýrur sem geta skemmt annað efni í tunnunni þannig að það verði óhæft til endurvinnslu.