Íbúaþing um sjálfbæra þróun

Íbúaþing um sjálfbæra þróunÍbúaþing um sjálfbæra þróun í Mosfellsbæ var haldið í tengslum við vinnu bæjaryfirvalda við endurskoðun Staðardagskrár 21 í Mosfellsbæ og þeirri framsetningu aðgerðaráætlunar sem nú stendur yfir og bæjaryfirvöld munu horfa til fyrir næstu árin.

Tilgangurinn var að leita eftir skoðunum og hugmyndum íbúa varðandi sjálfbæra þróun sveitarfélagsins, og hafa þær til hliðsjónar við endurskoðunina.

Þingið var haldið í sal Lágafellsskóla þriðjudagskvöldið 9. febrúar 2010 og var boðað til þess með auglýsingu í bæjarblaðinu Mosfellingi, greinarskrifum í sama blaði, á heimasíðu bæjarins www.mos.is, á samskiptavefnum Facebook og með sérstöku tölvuboðsbréfi til félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja í Mosfellsbæ.

Starfsmenn Mosfellsbæjar unnu að framkvæmd þingsins en nutu ráðgjafar Sævars Kristinssonar viðskiptafræðings og rekstrarráðgjafa hjá ráðgjafarfyrirtækinu Netspor um fyrirkomulag og framkvæmd, og var hann í hlutverki fundarstjóra á þinginu.  

Íbúaþingið stóð frá kl. 20:00-22:00 með einu kaffihléi þar sem boðið var uppá kaffiveitingar og niðurskorna ávexti.
Jóhanna B. Magnúsdóttir formaður Verkefnisstjórnar Staðardagskrár 21 í Mosfellbæ opnaði íbúaþingið og bauð fundarmenn velkomna og fór yfir þá vinnu sem þegar hafði farið fram.  Sævar Kristinsson tók síðan við fundarstjórn og leiddi þátttakendur í gegnum AirOpera aðferðafræðina til að finna þá þætti sem fundrmenn teldu mikilvægasta í þróun sjálfbærs samfélags í Mosfellsbæ á komandi árum.

Þátttakendur voru um 30.  

Hér á eftir fylgja helstu niðurstöður íbúaþingsins þar sem fram koma þær áherslur sem þátttakendur vilja sjá þróast í sjálfbæru samfélagi í Mosfellsbæ á komandi árum. Samantekt af íbúaþingi (.pdf 2,5 MB) Þeim má einnig fletta hér að neðan.