Verkefnalisti 2011

Verkefnalisti Staðardagskrár 21 í Mosfellsbæ fyrir árið 2011

Félags- og fjölskyldumál

1.    Íbúum sé áfram tryggður góður aðgangur að þjónustu fjölskyldusviðs með daglegum símatímum og upplýsingum um þjónustuna á heimasíðu bæjarins og þeim standi til boða viðtöl og félagsleg ráðgjöf.

2.    Félagsleg ráðgjöf veiti hjálp til sjálfshjálpar, þar sem einstaklingar og fjölskyldur eru hvattir til frumkvæðis og leiðbeint við að leita leiða úr aðsteðjandi vanda.

3.    Haldnir verði reglulegir samráðsfundur fagaðila sem vinna að málum barna og ungmenna í Mosfellsbæ.

4.    Stuðlað verði að skilvirkri þjónustu þeirra sem að málum fjölskyldunnar koma með reglulegum samráðsfundum fulltrúa þeirra stofnana sem fjölskyldunni þjóna.

5.    Foreldrar séu hvattir til að vera góð fyrirmynd, og stuðla að öruggu og jákvæðu uppeldisumhverfi, s.s. með því að virða útivistartíma barna, leyfa ekki eftirlitslaus samkvæmi og gæta þeirra.

6.    Stuðlað sé að því að eldri borgarar geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf með því að tryggja aðgengi að nauðsynlegri þjónustu svo sem félagslegri heimaþjónustu og félagsstarfi.

7.    Tryggt verði virkt samráð við félag aldraðra um málefni sem þeim tengjast.

8.    Sjónarmið íbúa séu virt með því að tryggja að þau komi fram við vinnslu mála.

9.    Tryggt sé að til staðar sé virk móttökuáætlun fyrir móttöku innflytjenda í sveitarfélaginu til að flýta fyrir aðlögun þeirra og aðgengi að upplýsingum.

Umhverfismál

10.    Stutt verði við verkefnið Vistvernd í verki

11.    Fræðsla til almennings um Staðardagskrá 21 verði lifandi og m.a. haldið uppi í staðbundnum miðlum og á almennum kynningarfundum

12.    Virkt eftirlit verði haft með ástandi og hreinsun rotþróa í Mosfellsbæ

13.    Við alla skipulagsvinnu í Mosfellsbæ verður sjálfbær þróun ávallt höfð að leiðarljósi.

14.    Mosfellsbær verði þátttakandi í verkefnum sem stuðla að virkjun Staðardagskrár 21 í bænum, s.s. Evrópskrar samgönguviku, Dags umhverfisins, Lífshlaupsins og Hjólað í vinnuna

15.    Áfram verði lögð áhersla á að göngu- og hjólreiðastígar til og frá skólum séu öruggir.

16.    Götur og stígar verði hreinsaðar af fokefnum þegar ástæða er til, s.s. við framkvæmdir.

17.    Hvatt verði til notkunar margnota burðarpoka við innkaup.

18.    Íbúar, fyrirtæki og stofnanir í Mosfellsbæ verði upplýst um kosti og aðferðir við að flokka og endurnýta úrgang með það að markmiði að minnka það hlutfall sem fer til urðunar.

19.    Upplýsingar um grenndarstöðvar, gámastöð Sorpu og aðrar flokkunarleiðir verði aðgengilegar fyrir almenning, s.s. á heimasíðu bæjarins.

20.    Bæjarbúar verði upplýstir um kosti þess að spara orku og þær aðferðir sem má nota.

21.    Reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum þar sem íbúar eru einnig hvattir og aðstoðaðir við að hreinsa til í sínu nærumhverfi.

22.    Fram fari sérstakt hreinsunarátak á byggingarsvæðum til að tryggja góðan frágang og koma í veg fyrir slysahættu.

23.    Unnið verði að uppgræðslu á örfoka svæðum, m.a. með sáningu birkis og gróðursetningu “birkieyja” til sjálfsáningar.

24.    Skoðað verði með möguleika á því að hjólreiðastígar verði hannaðir og skilgreindir sem samgönguæðar, s.s. meðfram stofnbrautum.

25.    Hvatt verði sérstaklega til notkunar umhverfisvænna ferðamáta, s.s. almenningssamgangna og reiðhjóla.

Stjórnsýsla

26.    Mannauðsstefna verði lifandi verkfæri á skrifstofu og stofnunum bæjarins með það að markmiði að auka vellíðan starfsmanna og þar með viðskiptavina.

27.    Tryggt verði að starfsemi ungmennaráðs verði virk og sýnileg.

28.    Tryggt verði að þjónusta bæjarfélagsins sé  aðgengileg, ábyggileg og skilvirk.

29.    Tryggt verði að gott upplýsingaflæði sé milli starfsmanna bæjarins og að þátttaka starfsmanna í ákvarðanatöku sé virk.

30.    Ávallt séu í gangi virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa Mosfellsbæjar.

31.    Aðgengi viðskiptavina að upplýsingum og stjórnsýslu bæjarins verði stöðugt bætt í gegnum heimasíðu, íbúagátt og þjónustuver.

32.    Stofnanir og svið bæjarins geri árlega starfsáætlun í jafnréttismálum.

33.    Á öllum skólastigum verði veitt fræðsla um jafnréttismál

34.    Haldnir verði reglulega opnir fundir eða málstofur um ýmis málefni sem tengjast Staðardagskrá 21.

35.    Leitast verði við eins og kostur er að taka tillit til sjónarmiða íbúa við útfærslu skipulags í sveitarfélaginu, s.s. með íbúaþingum, kynningarfundum og í gegnum athugasemdir íbúa við auglýst skipulög.

36.    Áhersla á rafræna stjórnsýslu verði aukin á skrifstofu og stofnunum bæjarins.

37.    Ábendingar sem berast frá íbúum og fyrirtækjum verði skoðaðar þannig að sjónarmið þeirra nýtist til að bæta þjónustu bæjarins.

Fræðslumál

38.    Áfram verði lögð áhersla á öflugt forvarnarstarf til þess að draga úr vímuefnaneyslu, afbrotum og einelti.

39.    Lýðheilsuátaki í grunnskólum og stofnunum Mosfellsbæjar verði fram haldið, s.s. íþróttamiðstöðvum, þar sem lögð verði áhersla á heilsusamlegt matarræði og gildi hollrar hreyfingar.

40.    Starfsfólk skólastofnana Mosfellsbæjar fái fræðslu um Staðardagskrá 21 á sérstökum fræðslufundum.

41.    Skólarnir í samstarfi við grenndarsamfélagið og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar taki í fóstur svæði út í náttúrunni til uppgræðslu og notkunar fyrir nemendur.

42.    Unnið verði áfram að uppsetningu útikennslusvæða til afnota fyrir skóla í Mosfellsbæ.

43.    Fræðsla sem byggist á sjónarmiðum um samþættingu og þverfaglega hugsun fari fram á öllum skólastigum um sjálfbæra þróun, vistfræði og hnattræn umhverfisáhrif, endurnýtingu og samhengi neyslu og framleiðslu.

44.    Lögð verði sérstök áhersla á fjölbreytileg viðfangsefni fyrir börn til að stuðla að réttum þroska þeirra

45.    Skólar verði hvattir til að leggja aukna áherslu á umhverfismál og ákvarðanir sem teknar eru taki mið af sjálfbærri þróun.

46.    Virkja starfsmenn skólastofnana til þátttöku í verkefnum sem byggja á sjálfbærri þróun

47.    Almennt verði hlúð að og stuðlað að fjölgun menningarviðburða í bænum.

48.    Sett verði fram heildstæð stefna á menningarsviði sem höfð sé að leiðarljósi í menningarstarfi í Mosfellsbæ.

49.    Markvisst verði unnið að varðveislu menningarminja í Mosfellsbæ og kortlagningu þeirra.

Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri
17. mars 2011