Vistvernd í verki

Vistvernd í verki er verkefni sem snýst um að breyta lífstíl heimilanna til umhverfisvænni vegar. Verkefnið er byggt upp á þann hátt að fulltrúar heimila sem saman mynda visthóp fara í gegn um helstu þætti umhverfismála heimilanna, með hjálp handbókar.

Vistvernd í verki er íslenskt heiti á alþjóðlegu verkefni sem kallast Global Action Plan (GAP) og unnið er á vegum Landverndar. Það komst fyrst á fót í Bandaríkjunum árið 1989 og er nú í boði í 17 löndum. Þetta er verkefni sem styður og eflir þá sem vilja taka upp umhverfisvænni lifnaðarhætti, með því að bjóða þeim að taka þátt í svokölluðum visthópi.

Visthópurinn hittist á 7-8 fundum og fer sameiginlega í gegnum handbók, þar sem teknir eru fyrir 5 efnisflokkar, þ.e. sorp, orka, samgöngur, innkaup og vatn. Á fyrsta fund mætir leiðbeinandi, sem fylgir hópnum í gegnum verkefnið. Þátttakendur skipta með sér fundarstjórn fyrir hvern efnisflokk, en eru í símasambandi við leiðbeinandann milli funda. Á hverjum fundi ræða þátttakendur um ýmsar aðgerðir til umhverfisvænni lífsstíls og taka ákvörðun um það sem þeir vilja sjálfir prófa í eigin heimilishaldi. Gerðar eru mælingar bæði fyrir og eftir sem sýna ótvírætt þann árangur sem næst. Sem dæmi um árangur, þá hafa þátttakendur í visthópum í Svíþjóð að jafnaði sýnt eftirfarandi árangur: Sorp minnkaði um 42%, vatnsnotkun um 20%, orka um 9% og eldsneytisnotkun einkabílsins minnkaði um 19%.

Þátttaka í visthópi tekur um 9 vikur. Þar við bætist, að hóparnir ljúka verkefninu gjarnan með einskonar uppskeruhátíð. Þetta er einstaklega skemmtileg og áhrifarík leið til að taka upp umhverfisvænni lifnaðarhætti með stuðningi og í góðum félagsskap.

Kynningarfundir

Reynslan sýnir að þegar fólk segir frá þátttöku sinni í visthópnum, vekur það oft áhuga annarra, t.d. vinnufélaga, nágranna og vina. Einmitt þannig verða síðan til fleiri visthópar, því hver hópur lýkur verkefninu með því að halda kynningarfund í samvinnu við leiðbeinandann. 

Hér fyrir neðan má lesa bækling Landverndar um verkefnið Skref fyrir skref. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á vef Landverndar
Bæklingur Landverndar, opnast í nýjum glugga

Kynntu þér verkefnið Vistvernd í verki og taktu þátt í því með nágrönnum og vinum.

Smelltu hér ef þú vilt taka þátt í Vistvernd í verki í Mosfellsbæ eða hringdu í síma 525 6700.