Flokkun sorps

Ýmsar leiðir eru til flokkunar sorps í Mosfellsbæ:

Bláar tunnur

Á vormánuðum 2012 verður tekið upp nýtt fyrirkomulag á sorphirðu í Mosfellsbæ með innleiðingu á blárri pappírstunnu við öll heimili í Mosfellsbæ til viðbótar við gráa sorptunnu fyrir almennt sorp.  Í bláu pappírstunnuna skal setja allan pappírsúrgang, dagblöð, tímarit, fernur, eggjabakka, sléttan pappír, skrifstofupappír og bylgjupappa.  Fyrirhugað er að bæta við fleiri endurvinnsluflokkum í tunnuna líklega strax á næsta ári.

Grænar tunnur
Niðurgreiðsla á grænni flokkunartunnu var stunduð í tæp tvö ár, en það var tilraunaverkefni þar sem íbúum voru kynntir kostir flokkunartunnunnar.  Í framhaldi af verkefninu hafa íbúar verið hvattir til að nýta sér þær lausnir sem gámafyrirtækin bjóða uppá fyrir íbúa til aukinnar flokkunar úrgangs.

Mosfellsbær hefur reynt að fræða íbúa Mosfellsbæjar um möguleika í flokkun úrgangs með umfjöllun og greinum á heimasíðu bæjarins og í Mosfellingi þar sem hvatt hefur verið til aukinnar flokkunar og endurvinnslu.

Víðtækt grenndargámakerfi er í Mosfellsbæ
Í dag eru grenndargámar á þremur stöðum í bænum, við Langatanga, Dælustöðvarveg og Háholt, og þar má skila flokkuðum úrgangi í þrjá aðskilda flokka:
a) Blár gámur sem tekur við pappír og pappa,
b) Grænn gámur sem tekur við plastumbúðum,
c) Dósasöfnunargámur fyrir endurvinnanlegar drykkjarumbúðir.
Útvíkkun og endurskoðun á grenndargámakerfinu stöðugt í gangi.

Endurvinnslustöð Sorpu
Endurvinnslustöð Sorpu bs. í Mosfellsbæ er staðsett við Blíðubakka og er þar tekið við flokkuðum úrgangi, og er opnunartími rúmur.  Mosfellsbær hefur lagð áherlsu á að ekki kæmi til lokunar þessarar stöðvar þrátt fyrir verulegan samdrátt í þessum málaflokki.

Vistvernd í verki
Mosfellsbær hefur gert áframhaldandi samstarfssamning við Landvernd vegna verkefnisins Vistvernd í verki, þar sem með visthópum er boðið uppá leiðbeiningar um endurvinnslu og flokkun í anda sjálfsbærs lífsstíls.  Mosfellsbær hefur bæði greitt árlega upphæð til verkefnisins og aðstoðað við auglýsungar eftir þátttakendum í visthópum.  Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins, http://landvernd.is/vistvernd/

Sameiginlegar framtíðarlausnir sveitarfélaganna

Mosfellsbær hefur verið í samstarfi við Sorpu bs. þar sem leitað hefur verið leiða til samræmdra aðgerða til aukinnar flokkunar úrgangs á höfuðborgarsvæðinu.  Margvíslegar hugmyndir hafa verið í umræðunni, m.a.  tveggja- og þriggja tunnu kerfi, og hafa ýmsar hugmyndir Sorpu verið kynntar fyrir umhverfisnefnd, en Sorpa bs. er ennþá með málið í skoðun.

Mosfellsbær hefur í samskiptum sínum við Sorpu bs. lagt áherslu á að flýta eins og kostur er uppsetningu á gas- og jarðgerðarstöðvum í Álfsnesi þar sem flokkaður úrgangur er unninn, í stað þess að urða hann, í samræmi við Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á suður- og vesturlandi.