Umhverfisstefna

UMHVERFISÁÆTLUN MOSFELLSBÆJAR 2006-2010

Inngangur

Upphaf Staðardagskrár 21 má rekja til heimsráðstefnunnar í Ríó de Janeró í Brasilíu í júní
árið 1992, en ráðstefnan markaði tímamót í alþjóðlegu samstarfi að umhverfismálum.

Staðardagskrá 21 er mjög víðtæk áætlun, nánast heildaráætlun um þróun hvers samfélags
fyrir sig fram eftir þessari öld. Henni er ætlað að verða eins konar forskrift að sjálfbærri
þróun einstakra samfélaga, það er að segja skrá yfir þau verk sem hvert samfélag um sig
þarf að vinna til að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.

Í stað þess að einskorða hugmyndir við umhverfismál er lögð áhersla á tengingu þeirra
við aðra málaflokka er varða mannleg samfélög og menningu og lögð áhersla á að
umhverfi verði skoðað í sem nánustu samhengi við hina mannlegu þætti.

Vísindamenn eru sammála um að loftslagsbreytingar séu að stórum hluta vegna
mannlegrar athafna. Breytingarnar eru víðtækar og munu halda áfram næstu áratugi. Eftir
því sem þessar breytingar verða hraðari, þeim mun erfiðara verður að bregðast við þeim.
Afleiðingarnar geta orðið mjög alvarlegar. Of seint er orðið að koma í veg fyrir að
breytingar eigi sér stað, en með mótvægisaðgerðum er hægt að hægja á þeim og gefa
vistkerfum og mannfólki aukið svigrúm til að laga sig að nýjum aðstæðum.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti haustið 1998 að vinna að Staðardagskrá 21 fyrir
bæjarfélagið. Ólafsvíkuryfirlýsingin var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 31. janúar
2001, en markmið hennar er að tryggja sjálfbæra þróun og lífsgæði jafnt fyrir núverandi
og komandi kynslóðir.
Staðardagskrá 21 ásamt Ólafsvíkuryfirlýsingunni er í raun fyrst og fremst velferðaráætlun
sem tekur jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta samfélagsins.
Hér er um langtímamarkið að ræða sem krefst aukins upplýsingaflæðis til allra íbúa
Mosfellsbæjar. Á samráðsfundi með fulltrúum SSH kom greinilega fram, að fræðsla til
allra aldurshópa um þennan málaflokk væri mikilvægasta verkefnið á komandi árum.
Staða málaflokksins í Mosfellsbæ er góð þar sem allir stjórnendur, ásamt kjörnum
fulltrúum í nefndir bæjarins, eru vel meðvitaðir um sjálfbæra þróun samfélagsins.
Samstarf er grundvöllur þess að góður árangur verði í þessu starfi sem öðrum, þekking,
virðing, árangur og samvinna mun skila okkur fram á veginn á komandi árum.
Í þessari áætlun er farið yfir helstu málaflokka með tillögur til aðgerða, en æskilegt er að
hver stofnun setji sér sín eigin markmið í sjálfbærri þróun.
Nauðsynlegt er fyrir hverja stofnun að hafa umhverfisnefnd sem heldur utan um starfið
og skilar árlega (janúar) inn yfirliti yfir störf liðins árs. Meðfylgjandi eru skýrslur frá
tveimur stofnunum um starf og stöðu málaflokksins. Stefna ber að því, að allar stofnanir
skili inn skýrslum á næsta ári .
Heilsa hefur verið skilgreind á ýmsan hátt, en skilgreining
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er:
Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan
en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku

Umhverfi og lýðheilsa
Stefna:
Í Mosfellsbæ verði lýðheilsa skilgreind sem órjúfanlegur þáttur í úrbótum í
umhverfismálum.
Tengsl umhverfis og lýðheilsu, þ.e. heilsu manna, eru mikil. Oftast nær eru lausnir í
umhverfismálum samofnar bættri heilsu fólks. Hér má nefna ferðamáta þar sem akstur
hvetur til hreyfingarleysis en göngu- og hjólreiðar bæta heilsufar og eru mun
umhverfisvænni. Mikilvægt er að skapa umhverfi, jafnt inni sem úti, sem er laust við
áhrif mengunar og bætir þ.a.l. heilsu fólks og vellíðan. Mikilvægt er að gera sér grein
fyrir að aukin lýðheilsa og bætt umhverfi eykur líkur á heilsusamlegra og hamingjuríkara
mannlífi þar sem íbúarnir kunna að njóta augnabliksins.
Fátt hefur jákvæðari áhrif á heilsufar og vellíðan fólks eins og góð útivist í fallegu
umhverfi. Það er því hlutverk Mosfellsbæjar að skapa þær aðstæður að fólk geti stundað
útivist án þess að þurfa að aka langan veg til þess að njóta hennar. Mikilvægt er að
bæjaryfirvöld tryggi gott aðgengi að útivistarsvæðum allt árið um kring.
Markmið:
Tryggt verði aðgengi allra bæjarbúa að útivistarsvæðum innan eðlilegrar göngufjarlægðar
frá heimilum sínum. Útivistarsvæði verði aðgreind með tryggum hætti frá umferðaræðum
til að minnka hávaðamengun og auka öryggi þeirra.
Félagsauður og heilsuefling:
Stór þáttur í lýðheilsu er að tryggja samskipti manna á milli og þar með auka svonefndan
félagsauð. Þessi þáttur er sérstaklega mikilvægur fyrir fólk sem er félagslega einangrað
vegna mismunandi aðstæðna svo sem heilsubrests, aldurs eða annarra orsaka.
Bætt lýðheilsa felur m.a. í sér heilsueflingu þar sem bæjarbúar stundi í auknum mæli
útivist og líkamsrækt og neyti hollrar fæðu. Þetta fer einnig saman með lausnum í
umhverfismálum þar sem t.d. hjólreiðar, göngur eru mengunarlausir og heilsubætandi
ferðamátar.
Markmið:
Með sértækum aðgerðum verði rofin félagsleg einangrun ákveðinna þjóðfélagshópa svo
sem aldraðra og öryrkja t.d. með kynningu á möguleikum til útivistar og félagsstarfs.
Einnig mun kröftugt listalíf ásamt heildstæðri fjölskyldustefnu hafa mikil áhrif.
Heilsuefling verði sjálfsagður lífsstíll bæjarbúa og átak verði gert í kynningu á
heilsusamlegu fæði. Bæjaryfirvöld skoði möguleika á að taka aukinn þátt í kostnaði við
íþróttastarf barna. Auka fræðslu um tengsl bættrar heilsu samfara minni bílanotkun.

Mengun í lofti, láði og legi
Stefna:
Mosfellsbær verði í forystu meðal sveitarfélaga á öllum sviðum sem tengjast
mengunarmálum.
Mikið hefur áunnist í mengunarmálum sveitarfélagsins á s.l. árum.
Fráveitumannvirki hafa verið byggð, og tenging skolplagnar til Reykjavíkur.
Gerðar eru meiri kröfur um mengunarvarnarbúnað fyrir mengandi starfsemi og meira
tillit er tekið til mengunarvarna í uppbyggingu fyrirtækja.
Loftmengun hefur örugglega aukist hér, þótt engar mælingar hafa verið gerðar, þar sem
mikil aukning hefur orðið í Reykjavík samkvæmt mælingum.
Í Reykjavík mælist CO2 útstreymið um 95% vegna samgangna, en aðeins 5% frá öðrum
uppsprettum. Svifryk á höfuðborgarsvæðinu er orðið alvarlegt vandamál, þar sem það
ógnar heilsu manna. Samkvæmt mælingum, fyrir og eftir hreinsun gatna, þá minnkaði
svifryk um 70% eftir hreinsun.
Mosfellingar hafa aðgang að góðu drykkjarvatni, en ekki hefur verið athugað með
jarðvegsmengun í bæjarlandinu.
Markmið:
Umgengni einstaklinga, fyrirtækja og stofnana verði til fyrirmyndar.
Byggingar og önnur mannvirki verði viðhaldið svo að sómi sé að.
Gert verði átak í bættri umgengni fólks og samhliða verði athugað með möguleika á því
að beita viðurlögum við að henda rusli á almannafæri.
Förgun úrgangs frá dýrum, svo sem hestum, svínum og fuglum, verði stýrt í samráði við
hagsmunaaðila.
Jarðvegur í bæjarlandinu verði laus við mengun. Með markvissu fræðslu – og
kynningarstarfi verði komið í veg fyrir mengun jarðvegs.
Mosfellsbær leggi sitt af mörkum til þess að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda með
hvetjandi aðgerðum í samgöngumálum og metnaðarfullum kröfum um
umhverfisstjórnun mengandi fyrirtækja í bæjarfélaginu. Áfram verði unnið að bættri
hljóðvist í íbúðarhverfum.
Lokið verði við aðskilnað ofanvatnslagna og skólplagna í bæjarfélaginu.
Mosfellsbær hvetji fyrirtæki til þess að taka upp vottað umhverfisstjórnunarkerfi til þess
að m.a. að tryggja rétta meðhöndlun í frárennslismálum.
Tryggð verði hámarksgæði á sviðum vatnsbúskapar, og gætt verði ítrustu varúðar um
vatnsból Mosfellsbæjar.

Samgöngur
Stefna:
Í Mosfellsbæ bjóðist fjölbreyttir valkostir til að ferðast innan bæjarfélagsins á auðveldan
og þægilegan hátt.
Vaxandi umræða um samgöngur hefur verið í þjóðfélaginu undanfarin ár. Bílafjöldi hefur
aukist mikið og er nú svo komið að verulega er farið að gæta áhrifa aukins bílafjölda t.d
vegna álags á umferðarmannvirki og aukinnar loftmengunar.
Ekki er ætlunin að hvetja fólk til þess að hætta að nota einkabílinn heldur hvetja til
minnkunar á notkun hans og draga stórlega úr þörf fyrir aukabíla á heimilinu.
Til eru margir valkostir aðrir en einkabíllinn og virðist sem svo að ímynd annarra
valkosta sé ekki nægjanlega sterk. Hér má sérstaklega nefna almenningssamgöngur,
hjólreiðar og ganga.
Umhverfisvænn ferðamáti eflist vegna lífstílsbreytinga þar sem vaxandi heilsuefling í
þjóðfélaginu gerir kröfu um aukna útivist. Það tengist jafnframt hagrænum þáttum í
rekstri heimilisins svo sem sparnað í útgjöldum vegna minni bílanotkunar.
Notkun á almenningssamgöngum hefur verið mun minni hérlendis m.v. erlendis, en
aðeins um 4% ferða allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu er með strætó. Brýnt er að stækka
notendahóp Strætó bs. sem mest.
Markmið:
Notkun almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldist á tímabilinu í kjölfar
skilvirkari þjónustu Strætó bs. Gert verði átak til þess að ná til nýrra notenda svo sem
starfsmanna stærri vinnustaða í þeim tilgangi að sérsníða ferðir til og frá vinnu.
Göngu- og hjólastígar verði skilgreindir sem samgönguæðar og hannaðir og viðhaldið
sem slíkum. Hjólareinar verði settar meðfram öllum stofnbrautum.
Markvisst verður unnið að því, í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, að
notkun nagladekkja verði hætt.
Stofnanir bæjarins og fyrirtæki hvetji starfsmenn sína til að nota umhverfisvænan
ferðamáta. Í framhaldi þess verði hætt greiðslu bílastyrkja til starfsmanna og þeim boðnir
aðrir valkostir svo sem hjóla- eða strætóstyrkir.
Mosfellingar geri umhverfisvænan ferðamáta að lífsstíl.
Umhverfissvið beitir sér í kynningu á umhverfisvænum ferðamáta sem heilsusamlegum
og hagkvæmum valkosti.
Hjólabrautir verði efldar og verði gerðar að sýnilegum valkosti til að komast á vinnustað.
Dregið verði úr mengun vegna samgangna með kynningu á valkostum við mengandi
ferðamáta.

Náttúruvernd og útivist
Stefna:
Mosfellsbær bjóði íbúum sínum og gestum aðgengi að fjölbreyttum útivistarmöguleikum
allt árið.
Í Mosfellsbæ eru mörg spennandi og falleg útivistarsvæði. Má þar nefna Tröllafoss,
Helgufoss, Seljadal, Hafravatn, Grímmannsfell, Mosfell, Helgafell , Reykjafell, Lágafell
og Úlfarsfell. Jafnframt eru opin græn svæði innan bæjarmarkanna svo sem neðan Holtaog
Tangahverfis, Hlégarðstún, umhverfi Varmár frá ósum til fjalla.
Kaldakvísl, Leirvogsá og Úlfarsá eru einnig náttúruperlur. Nýting útivistarsvæða hefur
farið mjög vaxandi meðal bæjarbúa.
Markmið:
Útivistarsvæði Mosfellsbæjar verði aðgengileg og fjölbreytt þannig að bæjarbúar geti
notið margvíslegrar útivistar allt árið.
Auka þarf rannsóknir á útivistarsvæðum og náttúrufari til þess að stýra frekari
uppbyggingu þeirra byggðum á vísindalegum staðreyndum.
Áfram þarf að tryggja nálægð útivistarsvæða við íbúðabyggð.
Útivistarsvæðin verði meira nýtt til fræðslu- og skólastarfs með áherslu á að vinna með
náttúrunni.
Athugaðir verði möguleikar á því að gera útivistarsvæðin fjölbreyttari og sérhæfðari t. d.
með því að nýta ákveðin svæði sem leikjagarða (Stekkjarflöt að Álafosskvos).
Aukið verður samráð við frjáls félagasamtök um aðkomu þeirra að nýtingu
útivistarsvæða.
Í öllum hverfum bæjarins verði skilgreind útivistarsvæði, sælureitir í næsta nágrenni, þar
sem hljóð- og loftmengun er í lágmarki.
Tryggja þarf sátt milli náttúruverndar og útivistar með fræðslu og góðu skipulagi á
aðgengi slíkra svæða.

Neysla og úrgangur
Stefna:
Mosfellsbær verði í forystu þess að draga úr myndun úrgangs ásamt endurvinnslu og
endurnýtingu sorps.
Úrgangsmál eru eitt af stóru umhverfismálum samtímans. Í Mosfellsbæ er þeim hluta
úrgangs sem ekki er endurunninn eða endurnýttur urðaður. Um 30% úrgangs er
endurunninn og endurnýttur en um 70% er varanlega urðaður. Verulegur árangur hefur
náðst með skilagjaldi á umbúðir undir drykkjarvörur og er núna um 85% innskil.
Úrgangur skapast af neysluvenjum og þess vegna er nauðsynlegt að fjalla um neyslu á
sama tíma og úrgangsmál eru rædd. Með því að hvetja til breyttrar hegðunar fólks og
fyrirtækja, t.d. með því að draga úr magni umbúða við framleiðslu (t.d. pizzubakkar), má
minnka úrgangsmagnið við upprunastað og fá þannig heilsteypta hringrás framleiðslu,
neyslu og förgunar vöru.
Markmið:
Kerfisbundið verði unnið að minnkun neyslu og úrgangs frá stofnunum, fyrirtækjum og
íbúum bæjarins sem leið til að auka hreina ímynd bæjarins.
Hagrænum hvötum verði beitt til að auka flokkun úrgangs t.d. verði móttaka á flokkuðu
sorpi ódýrari en óflokkuðu.
Efla þarf lykiltölugreiningu í úrgangsmálum og kynna þau viðmið sem stefnt er að t.d. í
endurvinnslu eða endurnýtingu umbúðaúrgangs.
Aukin verði áhersla á vistvæn innkaup hjá Mosfellsbæ
Fordæmi og fyrirmyndir, sveitarfélög og allur rekstur þeirra, stofnanir og fyrirtæki.
Mosfellsbær hvetji fyrirtæki og stofnanir til þess að hanna mannvirki og ástunda
vöruþróun með umhverfissjónarmið í huga.
Kerfisbundið verði unnið að minni pappírsnotkun með áherslu á notkun rafrænna miðla.
Athugað verði með staðsetningu og stofnun skiptimarkaðar fyrir bæjarbúa.
Kannaðir verði möguleikar á sektum fyrir sóðaskap, eins og t.d. að henda rusli á götur og
á víðavangi í lögsagnarumdæmi Mosfellsbæjar. Þetta er víða gert erlendis með góðum
árangri.

Landnotkun og byggingar framtíðarinnar
Stefna:
Ásýnd og ímynd Mosfellsbæjar endurspegli skapandi hugsun íbúa bæjarins,
Þar sem mannlífið er sett í fyrirrúm og fólki finnst gott að búa.
Skipulag lands og hönnun bygginga er eitt af mikilvægustu umhverfismálum líðandi
stundar. Skynsamleg nýting getur haft jákvæð áhrif á aðra þætti samfélagsins eins og t.d.
með minni þörf á dýrum samgöngumannvirkjum. Ef reisa á byggingar á skipulögðu landi
er ekki síst mikilvægt að vel takist til um hönnun þeirra og efnisnotkun. Þar er hægt að ná
verulegri hagræðingu í líftímakostnaði byggingarinnar og sparnaði í auðlindanotkun.
Markmið:
Umhverfismat verði gert á öllum skipulagstillögum.
Að áhersla verði lögð á þéttingu og blöndun byggðar í eldri íbúahverfum.
Áfram verði lögð áhersla á græn og skjólsæl svæði innan bæjarins.
Að vægi bílastæða minnki sem hlutfall af heildarsvæði byggðs lands og þau svæði sem
þannig losna verði nýtt á hagkvæmari hátt.
Mótun byggðar taki mið af sérstöðu lands og íbúa t.d. varðandi lága sólstöðu, útsýni og
veðurfar.
Áhersla verði lögð á meiri blöndun atvinnu- og íbúðabyggðar í skipulagi nýrra hverfa.
Saga bæjarins verði virt og varfærni verði gætt í umgengni og skipulagi við eldri
byggingar.
Við hönnun bygginga og val á byggingarefnum á vegum bæjarins verði tekið tillit til
umhverfis- og hagrænna þátta. Jafnframt verði einkaaðilar hvattir til að gera slíkt hið
sama.
Reglulega verða gerðar rannsóknir á líðan íbúa.
Byggingalist svo sem íslenskur arkitektúr verði skapandi og virtur sem slíkur.

Umhverfismennt
Stefna:
Mosfellsbær tryggi að allir bæjarbúar geti notið fræðslu um umhverfismál á aðgengilegan
hátt.
Í umhverfismálum samtímans er fræðsla nauðsynleg. Mennta verður börn jafnt sem
fullorðna um markmið og tilgang umhverfisstarfs vegna þess, að uppspretta margra
brýnna verkefna í umhverfismálum eru einstaklingarnir sjálfir. Til staðar eru nú þegar
verkefni á sviði umhverfismála sem beinast að hegðun og má þar nefna Vistvernd í verki
og Lesið í skóginn. Þessi verkefni hafa í flestum tilfellum breytt hugsunarhætti og jafnvel
hegðun og þannig fengið fólk til að taka upp umhverfisvænni lífsstíl.
Markmið:
Umhverfismennt verði órjúfanlegur þáttur í kennslu á öllum skólastigum.
Vinnuskóli Mosfellsbæjar verði nýttur betur til að kynna umhverfismál og náttúru
bæjarlandsins.
Komið verði á fót fræðslugarði meðfram Varmá með sem fjölbreytilegustum gróðri sem
hafi það markmið að fræða bæjarbúa um gróðurfar landsins. Merkingar á helstu
plöntutegundum og gróðursamfélögum mun gera garðinn mjög eftirsóknarverðan af jafnt
nemendum sem og öðrum bæjarbúum.
Átak verði gert í því að efla umhverfismennt á öllum skólastigum.
Áfram verði stutt við verkefni á borð við Vistvernd í verki til að virkja einstaklinga og
heimili í umhverfismálum.
Umhverfissvið Mosfellsbæjar, í samvinnu við hagsmunaaðila, sjái til þess að tekin verði
upp virk umhverfisfræðsla til fyrirtækja svo sem með því að útbúa fræðsluefni.
Umsjónarmenn skóla fái reglulega kynningu á umhverfismálum.
Kynntir verði möguleikar á því að minnka/ hætta notkun eiturefna utandyra í garðyrkju.
Verk- tækni- og byggingafræðingar fái sérstaka fræðslu um umhverfismál.

Hverfið mitt – íbúalýðræði
Stefna:
Með öflugu íbúalýðræði verði bæjarbúar virkir þátttakendur í umhverfismálum.
Ein af megin forsendum við kynningu og framkvæmd umhverfismála er nálægð við
bæjarbúa. Hverfi og íbúalýðræði er í raun forgrundvöllurinn fyrir góðu umhverfisstarfi í
sveitarfélaginu, enda er í flestum tilfellum verið að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á
nánasta umhverfi íbúanna. Það er því mikilvægt, að íbúarnir í hverfum bæjarins, geti haft
áhrif á ákvarðanir er varða sitt nánasta umhverfi.
Markmið:
Aukið íbúalýðræði efli jafnræði og jafnrétti allra bæjarbúa til að hafa áhrif á umhverfi
sitt, einkum í því hverfi sem menn búa í.
Í öllum hverfum bæjarins verði til öflug íbúasamtök sem efli samkennd íbúa með
tengingu frjálsra félagasamtaka, íþróttafélaga og foreldrastarfs.
Í kjölfar samráðs við íbúa verði búnir til sáttmálar fyrir hvert hverfi bæjarins.
Þessi sáttmáli tekur til allra þátta sem skipta íbúa máli í hverfinu þ.m.t. umfjöllun um
umhverfismál og reglulega samráðsfundi, þar sem teknir eru fyrir hverfislegir þættir.
Sem liður í að efla samkennd í hverfinu verði komið á umræðuvettvangi þar sem helstu
mál hverfisins eru reifuð.
Athugað verði með stofnun umferðaröryggishópa í hverfum

Grænt bókhald og umhverfisstjórnun
Stefna:
Mosfellsbær, og fyrirtæki innan lögsagnarumdæmis Mosfellsbæjar, verði fyrirmynd
annarra sveitarfelaga í umhverfismálum.
Norræni Svanurinn hefur verið vinsælasta umhverfisvottunin á Íslandi hingað til, en með
vaxandi kröfum og aukinni samkeppni er ljóst, að bæði fyrirtæki og stofnanir munu
leitast eftir vottun samkvæmt ISO 14 001
Grænfáninn, sem er á vegum Landverndar, er þekktur hér í Mosfellsbæ og mun
Lágafellsskóli flagga honum með vorinu.
Í Noregi hefur verið hannað kerfi sem er kallað Umhverfisvitinn. Þessu kerfi er auðvelt
að koma á og fylgir ekki eins ströngum kröfum og hefðbundin kerfi. Það hefur því notið
vinsælda á Norðurlöndunum sem fyrsta skref fyrirtækja í átt að öðrum útbreiddari
kerfum, eins og t.d. ISO 14 001. Umhverfistinn er í skoðun fyrir fyrirtæki á Íslandi.
Nokkur munur er á milli þessara kerfa, en í raun lúta þau öll sömu lögmálum, að gera
starfsemi viðkomandi fyrirtækis umhverfisvænni.
Markmið:
Fyrirtæki og stofnanir sem standa sig vel í umhyverfisstarfi í Mosfellsbæ, njóti þess á
hagrænan hátt ekki síður en í umhverfisvænum úrbótum.
Umhverfisviðmið geri fyrirtækjum og stofnunum auðvelt fyrir að meta stöðu sína miðað
vð sambærilega aðila jafnt hérlendis sem erlendis.
Stofnanir Mosfellsbæjar taki upp umhverfisstjórnunarkerfi.
Fyrirtækjum og stofnunum verði gert auðvelt að stíga fyrstu skrefin í umhverfisstarfi svo
sem með aðgengi að einföldu umhverfisstjórnnarkerfi.
Kynna þarf þá hagræðingu og sparnað sem hægt er að ná með upptöku
umhverfisstjórnunarkerfa sem gæðakerfa.
Árangur Mosfellsbæjar í umhverfismálum verði markvisst kynntur í fjölmiðlum til þess
að vera öðrum hvatning til góðra verka.