Barnavernd

Barnaverndarstofa vinnur að eflingu og samhæfingu barnaverndarstarfs, hún veitir barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi úrlausn barnaverndarmála. Ennfremur hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda. Barnaverndarstofa er til húsa að Borgartúni 21, sími 530 2600.

Yfirstjórn barnaverndarmála er hjá félagsmálaráðuneytinu. Þangað má skjóta ákvörðunum Barnaverndarstofu.

Nánari upplýsingar um barnavernd í Mosfellsbæ eru veittar í síma 525 6700.

Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Með börnum er átt við einstakling innan 18 ára aldurs.

Þjónustan er í samræmi við barnaverndarlög nr. 80/2002 og önnur lög, eftir því sem við á hverju sinni. Fjölskyldunefnd fer með málefni samkvæmt barnaverndarlögum og starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar sjá um framkvæmd þjónustunnar.

Tilkynning
Barnaverndarlög nr. 80/2002 leggja þær skyldur á almenning að gera barnaverndarnefnd viðvart ef þess verður vart að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu, er skylt að tilkynna það fjölskyldunefnd. Sérstakar skyldur eru lagðar á lögreglu og þá sem hafa afskipti af börnum svo sem kennara, dagmæður, presta, lækna, ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa um að tilkynna slík mál til barnaverndarnefndar. Starfsmenn fjölskyldudeildar taka við tilkynningum í síma 525 6700 og utan dagvinnutíma tekur 112 við tilkynningum.

Nafnleynd
Sá sem tilkynnir um vanrækslu barns eða óviðunnandi misfellur á uppeldi þess getur óskar nafnleyndar. Það á þó ekki við gagnvart barnaverndarnefnd og starfsmönnum nefndarinnar.

Könnun máls
Þegar borist hefur tilkynning eða upplýsingar um að barn eða ófætt barn kunni að vera í hættu, er fyrst kannað hvort um rökstuddan grun er að ræða. Í flestum tilvikum hefst könnun hjá þeim sem best þekkja til, þ.e. foreldrum barnsins og barninu sjálfu. Í framhaldi af því er leitað upplýsinga hjá öðrum sem þekkja barnið, um líðan þess og aðstæður. Foreldrum er í flestum tilfellum greint frá því að haldið sé uppi fyrirspurnum um barn.

Áætlun um stuðningsaðgerðir
Að lokinni könnun er metið hvort þær upplýsingar sem liggja fyrir hafi leitt í ljós að uppeldi barns sé áfátt vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra eða að barn stefni eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, t.d. afbrotum eða neyslu vímuefna. Í slíkum tilfellum er gerð skrifleg áætlun um áframhaldandi meðferð málsins. Áætlun er í flestum tilfellum unnin í samvinnu við foreldra barns. Í áætlun kemur fram hvert markmið afskipta barnaverndaryfirvalda er og hvernig hagsmunir barnsins verða best tryggðir. Ennfremur kemur fram hvaða aðstoð nefndin veitir foreldrum og barni, til hversu langs tíma áætlunin er gerð og hvenær hún skuli endurskoðuð.

Úrræði barnaverndarnefndar
Barnaverndarnefnd er skylt að aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum. Úrræði sem nefndin hefur yfir að ráða eru að:

•    Leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns.
•    Útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu.
•    Útvega barni dagvist, skólavist, atvinnu og möguleika til hollrar tómstundaiðju.
•    Beita almennum úrræðum til úrbóta samkvæmt öðrum lögum svo sem lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra.
•    Aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu, eða annarra persónulegra vandamála.
•    Vista barn um skamman tíma utan heimilis á vistheimili eða fósturheimili.
•    Taka við forsjá barns með samþykki foreldra og útvega því varanlegt fósturheimili og hlutast til um að barninu verði skipaður lögráðamaður.

Langflest barnaverndarmál leysast í samvinnu við foreldra. Beri stuðningsaðgerðir hins vegar ekki árangur getur þurft að beita þvingunaraðgerðum. Þessar aðgerðir geta verið tímabundnar, eða leitt til forsjársviptingar foreldra yfir barninu.

Útivistartími barna
Frá 1. september til 1. maí mega börn 12 ára og yngri ekki vera á almannafæri eftir kl. 20 og börn á aldrinum 13-16 ára mega ekki vera á almannafæri á þessu tímabili eftir kl. 22. frá 1. maí til 1. september lengist tíminn um 2 klukkustundir. Undanskilið er bein heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu eða að barnið sé í fylgd fullorðins.

Reglur um útivistartíma eru ekki settar fram af tilviljun. Reynslan hefur sýnt þeim sem starfa að barnaverndarstarfi að börn byrja að fikta með áfengi og aðra vímugjafa utan lögboðins útivistartíma og að þá er einnig meiri hætta á alvarlegum líkamsárásum og óæskilegri kynlífsreynslu. Í ljós hefur komið að um 90% foreldra segjast virða reglur um útivistartíma barna og unglinga.

Þagnarskylda
Fulltrúar fjölskyldunefndar og starfsmenn fjölskyldusviðs eru bundnir þagnarskyldu um einkamál þeirra sem njóta þjónustu sviðsins. Þagnarskyldan helst þrátt fyrir að viðkomandi láti af störfum.

Áfrýjun
Foreldrar barns eða aðrir þeir, sem eru barninu nákomnir geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála. Kærunefnd barnaverndarmála er til húsa í félags- og tryggingamálamálaráðuneytinu í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, sími

Úrskurði skal skotið til kærunefndar innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var gert kunnugt um úrskurð nefndarinnar. Málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. 545 8100.