Fjárhagsaðstoð

Um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ gilda reglur sem bæjarstjórn hefur samþykkt í samræmi við 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga (nr. 40/1991).
Fjölskyldunefnd fer með málefni félagsþjónustu í umboði bæjarstjórnar. 
Starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar sjá um framkvæmd þjónustunnar. Þeir hafa að leiðarljósi að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar.

Markmið
Markmið með veitingu fjárhagsaðstoðar er að stuðla að því að einstaklingar og fjölskyldur geti framfleytt sér.

Hverjir geta sótt um fjárhagsaðstoð?
Þeir sem eru 18 ára eða eldri og eiga lögheimili í bæjarfélaginu geta sótt um fjárhagsaðstoð. Umsækjandi þarf að vera atvinnulaus eða óvinnufær vegna veikinda til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð. Skila þarf inn staðfestingu frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins ef umsækjandi er atvinnulaus eða læknisvottorði ef um veikindi er að ræða. Umsækjandi þarf einnig að skila inn staðfestu afriti af  skattframtali og þremur síðustu launaseðlum.
Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar þurfa að hafa hætt rekstri og lagt inn virðisaukanúmer til að geta sótt um fjárhagsaðstoð.
Aðstoðin er í formi styrks eða láns. Jafnan eru kannaðir aðrir möguleikar en fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð er einungis veitt í tengslum við önnur úrræði s.s ráðgjöf og leiðbeiningar.

Umsókn
Umsóknareyðublöð má nálgast á íbúagátt Mosfellsbæjar.
 
https://ibuagatt.mosfellsbaer.is/oneportal/login.aspx

Umsókn skal undirrituð af umsækjanda og ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða skal umsókn undirrituð af báðum aðilum.
Nánari upplýsingar veitir þjónustuver Mosfellsbæjar í síma 525 6700, þær má einnig nálgast á vefsíðu Mosfellsbæjar
http://www.mos.is.

Sá sem nýtur fjárhagsaðstoðar skal tilkynna fjölskyldusviði ef breytingar verða á tekjum og fjölskylduaðstæðum. Slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar.
Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf.

Viðmiðunarmörk
Þeir sem hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum eiga rétt á fjárhagsaðstoð. Fárhagsaðstoð í formi styrkja er skattskyld. Upphæð fer eftir því hvort umsækjandi er í hjúskap/ skráðri sambúð eða ekki. Fjárhagsaðstoð til einstaklings getur numið allt að 125.540,-  og til hjóna eða sambúðarfólks 200.864,-.

Þagnarskylda
Fulltrúar fjölskyldunefndar og starfsmenn fjölskyldusviðs eru bundnir þagnarskyldu um einkamál þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð. Þagnarskyldan helst þrátt fyrir að viðkomandi láti af störfum.

Afgreiðsla mála og áfrýjunarleiðir
Trúnaðarmálafundur fjölskyldusviðs fjallar um umsóknir um fjárhagsaðstoð og afgreiðir þær í samræmi við reglur Mosfellsbæjar þar að lútandi. Umsækjandi getur áfrýjað afgreiðslu fundarins til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. 
Ákvörðun fjölskyldunefndar getur umsækjandi áfrýjað til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Nefndin hefur aðsetur í félagsmálaráðuneytinu í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu.

Áfrýjun skal borin fram skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um afgreiðslu.

Ábyrgðarmaður: Unnur V. Ingólfsdóttir