Fjölskyldusvið

Þjónusta fjölskyldusviðs er veitt í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, barnaverndarlög nr. 80/2002, lög um málefni aldraðra nr. 125/1999, lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992, lög um húsnæðismál nr. 44/1998, lög um húsaleigubætur nr. 138/1997 og önnur lög eftir því sem við á hverju sinni.
Fjölskyldunefnd fer með málefni félagsþjónustu í umboði bæjarstjórnar. 
Starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar sjá um framkvæmd þjónustunnar.

Hverjir geta notið þjónustu fjölskyldusviðs?
Þeir sem eiga lögheimili í Mosfellsbæ eiga rétt á þjónustu fjölskyldusviðs.  Um skilgreiningu á lögheimili fer samkvæmt lögum um lögheimili nr. 21/1990. 
 
Þagnarskylda
Fulltrúar fjölskyldunefndar og starfsmenn fjölskyldusviðs eru bundnir þagnarskyldu um einkamál þeirra sem njóta þjónustu sviðsins. Þagnarskyldan helst þrátt fyrir að viðkomandi láti af störfum.

Afgreiðsla umsókna og áfrýjunarleiðir
Trúnaðarmálafundur fjölskyldusviðs fjallar um umsóknir um þjónustu fjölskyldusviðs og afgreiðir þær í samræmi við reglur Mosfellsbæjar þar um. Umsækjandi getur áfrýjað afgreiðslu fundarins til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. Ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 má áfrýja til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.
Ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga um húsnæðismál nr. 44/1998 má skjóta til kærunefndar húsnæðismála.
Ákvörðun sem tekin er á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 má skjóta til kærunefndar barnaverndarmála.
Ákvörðun sem tekin er á grundvelli laga um húsnæðismál, nr. 44/1998 má skjóta til kærunefndar húsnæðismála
Málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

Nefndirnar hafa aðsetur í félags- og tryggingamálamálaráðuneytinu í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, sími 545 8100. Frekari upplýsingar um nefndirnar má finna á vefsíðu ráðuneytisins
 
http://www.felagsmalaraduneyti.is/raduneyti/nefndir-rad-stjornir/

Áfrýjun skal borin fram skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um afgreiðslu umsóknar.

Félagsleg ráðgjöf
Markmið félagslegrar ráðgjafar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar.
Ráðgjöfin tekur m.a. til fjármála, húsnæðismála, uppeldismála og samskipta innan fjölskyldu. 
Þjónustan er endurgjaldslaus.

Barnavernd
Fjölskyldunefnd fer með málefni barna samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Markmið barnaverndar er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði. Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.
Barnaverndarlög leggja þær skyldur á almenning að gera barnaverndarnefnd viðvart ef þess verður vart að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að því geti stafað hætta af. Í þessu sambandi leggja lögin sérstakar skyldur á þá sem hafa afskipti af börnum s.s. kennara, dagmæður, presta, lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Sá sem veitir nefndinni slíkar upplýsingar getur óskað nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni. Í framhaldi af tilkynningu til barnaverndarnefndar hefst könnun á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða. Leiði könnun í ljós að svo sé ekki þá lýkur afskiptum nefndarinnar af máli viðkomandi barns. Þar sem úrbóta er þörf, er nefndinni skylt að aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum sínum og þá er lögð upp áætlun um stuðningsaðgerðir. Langflest barnaverndarmál leysast í samvinnu við foreldra. Í þeim tilvikum sem það gerist ekki getur nefndin þurft að grípa til þvingunaraðgerða.

Starfsmenn barnaverndarnefndar taka við tilkynningum í síma 525 6700 virka daga frá 08:00 til 16:00. Utan þess tíma tekur Neyðarlínan við tilkynningum í síma 112.
Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um barnavernd.

Fjárhagsaðstoð
Markmið með veitingu fjárhagsaðstoðar er að stuðla að því að einstaklingar geti framfleytt sér. Fjárhagsaðstoð er einungis veitt í tengslum við önnur úrræði svo sem  ráðgjöf og leiðbeiningar. Sækja þarf um fjárhagsaðstoð skriflega ásamt því að veita upplýsingar um fjárhagsaðstæður. Ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða þarf umsóknin að vera undirrituð af báðum aðilum. Sá sem nýtur fjárhagsaðstoðar skal tilkynna fjölskyldusviði ef breytingar verða á tekjum og fjölskylduaðstæðum. Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf. 
Þeir sem hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum eiga rétt á fjárhagsaðstoð. Fárhagsaðstoð í formi styrkja er skattskyld.

Um fjárhagsaðstoð gilda reglur sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt. 
Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um fjárhagsaðstoð.

Þjónusta við fatlaða
Fatlaðir eiga rétt á almennri þjónustu sem veitt er á fjölskyldusviði auk þess er ferðaþjónusta og liðveisla sérstaklega ætluð fötluðum.  Þjónustu við fatlaða íbúa Mosfellsbæjar er ætlað að skapa þeim skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi.

Liðveisla er þjónusta fyrir þá sem eru andlega eða líkamlega fatlaðir og búa utan stofnunar. Markmið liðveislu er að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar og veita persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun hans. Liðveisla er endurgjaldslaus.
Ferðaþjónusta er fyrir fatlaða einstaklinga sem hafa ekki aðgang að eigin farartæki, eða eru ófærir um að nota almenningsvagnaþjónustu.  Ferðir til og frá vinnu og vegna skóla, lækninga og hæfingar ganga fyrir öðrum ferðum. Hámarksferðafjöldi á mánuði miðast við 60 ferðir.
Ferðaþjónustan er veitt virka daga frá 07:00 til 23:00, laugardaga frá 08:00 til 23:00 og sunnudaga frá 10:00 til 23:00. Á stórhátíðum miðast þjónustutími við akstur almenningsvagna.
Greitt er fyrir hverja ferð í samræmi við gjaldskrá þar um.

Nánari upplýsingar er að finna í  kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um þjónustu við fatlaða.

Aðra þjónustu við fatlaða sér Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á  Reykjanesi um.  Skrifstofan er til húsa í Fjarðargötu 13-15, 6. hæð, 220 Hafnarfirði.  Sími 525 0900, Netfang: smfr@smfr.is

Þjónusta við aldraða
Aldraðir eiga rétt á almennri þjónustu sem veitt er á fjölskyldusviði.   Auk þess eiga þeir rétt á þjónustu sem er sérstaklega ætluð þeim sem eru 67 ára og eldri. Í vissum tilvikum miðast þjónustan við 65 ára og eldri. Markmið þjónustu við aldraða er að stuðla að því að þeir geti búið við eðlilegt heimilislíf svo lengi sem unnt er.

Matarþjónusta stendur eldri borgurum til boða. Hægt að fá keyptar máltíðir alla daga vikunnar.  Boðið er  upp á heimsendingu matar á vikrum dögum en um helgar þarf að sækja í mötuneyti Eirhamra .  Fyrir matarþjónustuna er greitt samkvæmt sérstakri gjaldskrá.
 
Snyrting stendur eldri borgurum til boða í þjónustumiðstöð. Um er að ræða hárgreiðslu, fót- og handsnyrtingu. Tekið er á móti pöntunum í síma 566 8060 frá 08:00 til 16:00 virka daga. Fyrir þjónustuna er greitt samkvæmt sérstakri gjaldskrá

Félagsstarf aldraðra felst meðal annars í listsköpun, handmennt, spilamennsku, kórstarfi, leikfimi, sundi og ferðalögum. Félagsstarfinu er ætlað að fyrirbyggja félagslega einangrun aldraðra og finna þekkingu, reynslu og hæfileikum þátttakenda farveg.
Félagsstarfið fer fram alla virka daga milli 13:00 til 16:30.
Þátttakendur í félagsstarfinu sem ekki hafa aðgang að eigin farartæki né eru færir um að nota almenningsvagna eiga þess kost að fá akstur til og frá félagsstarfi gegn gjaldtöku.

Vorboðinn, er kór eldri borgara. Æfingar  fara fram í þjónustumiðstöð aldraðra á fimmtudögum frá 17:00 til 19:00. Öflugt félagsstarf er í tengslum við starfsemi kórsins.

Öryggisíbúðir
Eir hjúkrunarheimili á og rekur Eirhamra. Í húsinu eru 58 hlutdeildaríbúðir fyrir aldraða, þar er matarþjónusta og einnig miðstöð félagslegrar heimaþjónustu og félagsstarfs aldraðra.

Dvalarrými
Dvalarrými eru á hefðbundnum dvalarheimilum, sambýlum eða í íbúðum í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu.
Úthlutun dvalarrýmis skal veitt að undangengnu mati á þörf. Matsteymi dvalarrýma á höfuðborgarsvæðinu, sér um framkvæmd matsins. Sótt er um dvalarrými hjá félagsþjónustu í sveitarfélagi umsækjanda. hægt er að nálgast umsóknareyðublöð í þjónustuveri Mosfellsbæjar eða á vefsíðu bæjarfélagsins
http://www.mos.is/umsoknir/matathorfadvalarrymialdradra

Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarheimili eru fyrir þá sem geta ekki búið sjálfstætt. Þegar sótt er um dvöl til frambúðar á hjúkrunarheimili þarf mat á þörf fyrir vistun að liggja fyrir. Vistunarmat er faglegt mat á þörf fólks, óháð aldri, fyrir varanlega vistun í hjúkrunarrými eins og þau eru skilgreind í lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu.

Sótt er um vistunarmat á sérstökum eyðublöðum sem hægt er að nálgast í þjónustuveri Mosfellsbæjar og á heimasíðu landlæknisembættisins http://landlaeknir.is/Pages/1142
Vistunarnefnd höfuðborgarsvæðisins sér um framkvæmd vistunarmats og kallar eftir upplýsingum frá læknum, hjúkrunarfræðingum og félagsráðgjöfum við vinnslu matsins.

Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um þjónustu við aldraða.

Félagsleg heimaþjónusta
Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Félagsleg heimaþjónusta getur verið fólgin í, aðstoð við heimilishald, aðstoð við persónulega umhirðu, félagslegan stuðning eða aðstoð við umönnun barna og ungmenna.
Þeir sem eiga lögheimili í bæjarfélaginu og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu geta sótt um félagslega heimaþjónustu. Þörf fyrir aðstoð er metin í hverju tilviki. Leitast er við að veita þá þjónustu, sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Miðstöð félagslegrar heimaþjónustu er í þjónustumiðstöð aldraðra við Eirhamra. Eir, hjúkrunarheimili annast framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu samkvæmt sérstökum samningi.

Um félagslega heimaþjónustu og gjaldtöku vegna hennar gilda reglur sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt.

Heilsugæslustöð Mosfellsumdæmis, Þverholti 2 sér um heimahjúkrun þar með talda baðþjónustu fyrir aldraða.

Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um félagslega heimaþjónustu.

Félagsleg húsnæðismál
Markmið með þjónustu á sviði félagslegra húsnæðismála er að stuðla að því að íbúar geti búið við öryggi í húsnæðismálum. Þjónustan nær til ráðgjafar, afgreiðslu húsaleigubóta og úthlutunar félagslegra leiguíbúða.
Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um félagsleg húsnæðismál.

Húsaleigubætur eru greiddar þeim sem leigja íbúðarhúsnæði og eiga þar lögheimili. Húsaleigubætur eru ekki skattskyldar.
Grunnstofn húsaleigubóta er 13.500 kr. fyrir íbúð. Að auki bætist við 14.000 kr. vegna fyrsta barns, 8.500 kr. vegna annars barns, 5.500 kr. vegna þriðja barns sem er á framfæri leigjanda, að auki koma 15% þess hluta leigufjárhæðarinnar sem liggur á milli 20.000 – 50.000 kr. leigu. Húsaleigubætur geta mest orðið  46.000kr á mánuði, þó aldrei hærri en 50% af leigufjárhæð.  Eignir geta skert upphæð húsaleigubóta. Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi félagsmálaráðuneytisins um húsaleigubætur.

Sérstakar húsaleigubætur
Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra erfiðleika. Aðstæður umsækjenda eru metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sem tilgreind eru í 2.gr.
Sérstakar húsaleigubætur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu vegna samþykktra íbúða á almennum markaði til viðbótar við almennar húsaleigubætur.

Félagslegar leiguíbúðir í Mosfellsbæ eru 30. Íbúðirnar eru til að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum úrlausn í húsnæðismálum, sem ekki eru færir um það sjálfir. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis er einungis ætlað að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Umsækjandi um leiguíbúð þarf að hafa verið búsettur í bæjarfélaginu síðastliðna 12 mánuði og standa í skilum við stofnanir bæjarfélagsins og fyrirtæki.Um úthlutun félagslegra leiguíbúða og upphæð húsaleigu gilda reglur sem bæjarstjórn hefur samþykkt. Nánari upplýsingar er að finna í kynningarbæklingi fjölskyldusviðs um félagsleg húsnæðismál.

Símatímar og viðtalsbeiðnir
Símatímar starfsmanna fjölskyldusviðs með aðsetur í Kjarna, Þverholti 2 eru virka daga frá kl. 10:00 til 11:00, þó er símatími húsnæðisfulltrúa mánudaga og miðvikudaga frá kl. 11:00 til 12:00.  Þjónustufulltrúi tekur við skilaboðum utan símatíma og kemur þeim á framfæri til viðkomandi starfsmanns sem hefur samband við fyrsta tækifæri.
Viðtalsbeiðnir eru afgreiddar í símatímum starfsmanna eða utan þeirra fyrir milligöngu starfsmanna í þjónustuveri.
Forstöðumaður félagsstarfs aldraðra er til viðtals í síma 586 8214 frá kl. 13:00 til 16:00 virka daga.

Umsóknareyðublöð og reglur
Umsóknareyðublöð og reglur um þjónustu fjölskyldusviðs má nálgast í þjónustuveri bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar að Þverholti 2, 1. hæð og í íbúagátt
http://www.mos.is/.

Fjölskyldusvið mosfellsbæjar
Fjölskyldusvið Mosfellsbæjar er til húsa í húsnæði bæjarskrifstofa Þverholti 2 (Kjarna), sími 525 6700. Opnunartími þjónustuvers er frá kl. 08:00 til 16:00.

 

Ábyrgðarmaður: Unnur V. Ingólfsdóttir