Þjónusta við fatlaða

Þjónusta við fatlaða íbúa Mosfellsbæjar miðar að því að skapa þeim skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi. Fjölskyldusvið annast ferðaþjónustu og liðveislu. Önnur þjónusta er á höndum Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra, Fjarðargötu 13-15, 6. hæð, 220 Hafnarfirði. Sími 525 0900, bréfasími 525 0909, netfang: smfr@smfr.is

Fatlaðir eiga rétt á almennri þjónustu sem veitt er á fjölskyldusviði, í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992.
Fjölskyldunefnd fer með málefni félagsþjónustu í umboði bæjarstjórnar. 
Starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar sjá um framkvæmd þjónustunnar. 

Liðveisla
Markmið liðveislu er að efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, veita persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun hans.

Hverjir geta sótt um liðveislu?
Heimilt er að veita þeim liðveislu þeim sem eru andlega og líkamlega fatlaðir, búa utan stofnana og sambýla og hafa náð 6 ára aldri .

Reglur
Reglur Mosfellsbæjar skipa þjónustunni í flokka eftir eðli fötlunar.
Liðveisla fyrir fatlaða einstaklinga sem eru alfarið háðir aðstoð annarra við athafnir daglegs lífs getur numið 16-20 klst. á mánuði. Liðveisla við þá sem þurfa minni aðstoð getur numið 10-14 klst. á mánuði.

Liðveisla er endurgjaldslaus

Ferðaþjónusta
Markmið ferðaþjónustu fatlaðra er  að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda vinnu eða nám  og njóta tómstunda.

Hverjir geta sótt um ferðaþjónustu?
Notendur hjólastóla, þeir sem eru blindir og þeir sem eru ekki færir um að nota almenningsvagnaþjónustu vegna annarrar fötlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki geta sótt um ferðaþjónustu.

Ferðir til og frá vinnu og vegna skóla, lækninga og hæfingar ganga fyrir öðrum ferðum. Fjöldi ferða til einkaerinda er háður takmörkunum,  miðað við að þær séu ekki fleiri en 16 á mánuði. Hámarksferðafjöldi á mánuði miðast við 60 ferðir. Með ferð er átt við akstur frá einum stað á annan.
Þjónustusvæði ferðaþjónustunnar markast frá Hafnarfirði í suðri að Mosfellsbæ í norðri.

Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita 67 ára og eldri ferðaþjónustu..

Þjónustutími
Ferðaþjónustan er veitt virka daga frá 07:00 til 23:00, laugardaga frá 08:00 til 23:00 og sunnudaga frá 10:00 til 23:00. Á stórhátíðum miðast þjónustutími við akstur almenningsvagna.

Giald
Gjald fyrir hverja ferð er 140 kr. 

Þagnarskylda
Fulltrúar fjölskyldunefndar og starfsmenn fjölskyldusviðs eru bundnir þagnarskyldu um einkamál þeirra sem njóta þjónustu sviðsins. Þagnarskyldan helst þrátt fyrir að viðkomandi láti af störfum.

Afgreiðsla umsókna og áfrýjunarleiðir
Trúnaðarmálafundur fjölskyldusviðs fjallar um umsóknir um liðveislu og ferðaþjónustu og afgreiðir þær í samræmi við reglur Mosfellsbæjar þar um. Umsækjandi getur áfrýjað afgreiðslu fundarins til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. 
Í samræmi við 3.gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 hefur félagsmálaráðuneytið yfirstjórn í málefnum fatlaðra.  Umsækjandi sem er ósáttur við ákvörðun fjölskyldunefndar getur því leitað álits ráðuneytisins.

Áfrýjun skal borin fram skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um afgreiðslu umsóknar.

 

Umsóknareyðublöð
Umsóknareyðublöð eru í þjónustuveri bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar Þverholti 2, 1. hæð og  á íbúagátt Mosfellsbæjar
https://ibuagatt.mosfellsbaer.is/oneportal/login.aspx
 .

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 525 6700, þær má einnig nálgast á heimasíðu Mosfellsbæjar http://www.mos.is

 

Ábyrgðarmaður: Unnur V. Ingólfsdóttir