Barnaverdarmál

Stefna og áætlun Mosfellsbæjar í barnaverndarmálum
2010-2014

Samkvæmt 9.gr. laga nr. 80/2002 um vernd barna og ungmenna (bvl)


Leiðarljós
Í samræmi við stefnumótun Mosfellsbæjar frá árinu 2008 þá er hlutverk bæjarfélagsins að rækta vilja og virðingu, gildi Mosfellsbæjar sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.Með það í huga er það leiðarljós Mosfellsbæjar í þessum málum að stuðla að því að börn í Mosfellsbæ búi við viðeigandi uppeldisaðstæður þar sem þau njóti virðingar og umhyggju og velfarnaðar þeirra er gætt í hvívetna. Þá skal þess gætt að ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu höfð að leiðarljósi í barnaverndarstarfi.

Markmið
Framtíðarsýn Mosfellsbæjar er meðal annars að það sé eftirsótt bæjarfélag til búsetu þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Stjórnsýsla og þjónusta sé skilvirk, ábyrg, vönduð og í fremstu röð á Íslandi. Markmið stefnu Mosfellsbæjar í barnaverndarmálum er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Það skal gert með:

  • Eftirliti með einstökum börnum þar sem starfsmenn barnaverndarnefndar kanni aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna í kjölfar tilkynningar á grundvelli barnaverndarlaga. Þeir meti sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum.
  • Úrræðum í samræmi við lögin sem best eru til þess fallin að vernda þau börn sem þess þurfa og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra. Ennfremur með stuðningi við forsjáraðila við að gegna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga þegar nauðsyn ber til.
  • Forvörnum sem eru bæði almennar og sértækar.

- Almennar forvarnir sem stuðla að því að börn alist upp við góða andlega líðan og heilsu.
- Sértækar forvarnir sem komi í veg fyrir og dragi úr hegðun barna sem getur skaðað andlega líðan þeirra og heilsu.

Leiðir
1. Eftirlit
Eftir atvikum að boða forsjáraðila og barn í viðtal hjá starfsmönnum fjölskyldusviðs þegar tilkynning berst skv. 16.,17. og 18. bvl. sem snertir viðkomandi barn. Viðtöl og stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga sem stuðla að því að bæta stöðu barns og fjölskyldu.

2. Úrræði
Viðtöl og stuðningsúrræði við einstök börn á grundvelli barnaverndarlaga sem stuðla að því að bæta stöðu barns og fjölskyldu. Meðferð slíkra mála sé í samræmi við reglur Mosfellsbæjar um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsmönnum fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar, sem samþykktar voru 11. nóvember 2006 af bæjarstjórn Mosfellsbæjar í samræmi við 3.mgr.14.gr. bvl. nr. 80/2002, með áorðnum breytingum.

3. Forvarnir

a) Almennar forvarnir
Halda áfram að þróa markvissara forvarnarstarf í Mosfellsbæ. Það skal gert með því að:

(1) Efla samvinnu með þeim aðilum sem vinna með börn í Mosfellsbæ svo sem með reglulegum fundum forvarnarhóps.
(2) Fræðsla fyrir aðila er starfa með börnum um einkenni og afleiðingar áfengis- og vímuefnaneyslu. Ennfremur um viðbrögð opinberra aðila vegna áhættuhegðunar barna.
(3) Samstarf við rannsóknaraðila vegna kannana á hegðan, líðan og vímuefnaneyslu barna í Mosfellsbæ.
(4) Fræðsla fyrir börn í Mosfellsbæ um skaðsemi áfengis- og vímuefna.

Nánari útfærsla á framkvæmd:

1) Bréf og auglýsingar, sem sendar eru inn á heimili um útivistarreglur barna og eftirlitslaus samkvæmi .þeirra að a.m.k. vori og hausti.
2) Kynning á barnaverndarlögum og starfi sveitarfélagsins að barnavernd í skólunum og á leikskólunum í Mosfellsbæ, meðal annars kynnt tilkynningarskylda þeirra sem starfa með börnum árlega.
3) Boða til funda forvarnarhóps það er þeirra sem hafa með málefni barna að gera í Mosfellsbæ, þar sem markmið er að vinna markvisst að því að draga úr líkum á því að börn leiðist út í óæskilegt atferli svo sem afbrot og neyslu vímuefna. Stefnt skal að því að það sé gert að vori og hausti.
4) Vinna að gerð forvarnarstefnu bæjarfélagsins ásamt stýrihópi, stefnt er að því verki verði lokið á árinu 2011.

b) Sértækar forvarnir

1) Eftir atvikum að boða forsjáraðila og barn í viðtal hjá fjölskyldudeild þegar lögregluskýrsla berst sem snertir viðkomandi barn, að öðrum kosti senda forsjáraðilum bréf þar sem upplýst er um efni skýrslu og aðilum boðið að hafa samband telji þeir sig í þörf fyrir stuðning eða ráðgjöf.
2) Hópastarf með börnum í áhættuhópi ef þörf krefur.
3) Reglulegir fundir með samstarfsaðilum í bæjarfélaginu sem vinna með málefni barna, svo sem lögreglu, skólum, heilsugæslu, forsvarsmönnum barna, forsvarsmönnum íþrótta- og tómstundafélaga og eftir atvikum öðrum sem koma að málefnum barna í bæjarfélaginu.
4) Stuðla að því í samvinnu við heilsugæslu að verðandi foreldrar, sérstaklega ungt fólk sem er að eignast sitt fyrsta barn eigi aðgang að fræðslu. Einnig að stuðla að fræðslu um afleiðingar ótímabærrar þungunar.


Samþykkt í fjölskyldunefnd 22. febrúar 2011.
Samþykkt í bæjarstjórn 2. mars 2011