Jafnréttisstefna 2011-2014

Jafnréttisstefna Mosfellsbæjar 2011-2014 (.pdf 266 kb)

Jafnréttisstefnan byggir á heildarstefnu Mosfellsbæjar sem samþykkt var árið 2008 og gildum sveitarfélagsins sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja. Stefnan er ennfremur unnin í samræmi við lög númer 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, svo og Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum sem var undirritaður árið 2008.

Fjölskyldunefnd hefur umsjón með mótun jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar og framkvæmd hennar í samvinnu við jafnréttisfulltrúa. Lögð er áhersla á að öll svið og stofnanir bæjarfélagsins framfylgi jafnréttisstefnunni með markvissum hætti.

Á jafnréttisdegi Mosfellsbæjar sem haldinn er í tengslum við 18. september ár hvert veitir fjölskyldunefnd viðurkenningu þeim einstaklingi, stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum sem hefur staðið sig best í að framfylgja jafnréttislögum og/eða Evrópusáttmálanum um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum og/eða jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.

Í 18. grein jafnréttislaga er kveðið á um að fyrirtæki, stofnanir, íþróttafélög og félagasamtök setji sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Mosfellsbær hvetur þessa aðila til að framfylgja þessu.
Jafnréttisfulltrúi er bæjaryfirvöldum og starfsfólki bæjarins til ráðgjafar í jafnréttismálum. Hann vinnur í samstarfi við framkvæmdastjóra, forstöðumenn stofnana og nefndir bæjarins svo og aðra sem að jafnréttismálum koma.

Jafnréttisstefna Mosfellsbæjar er aðgengileg á vef bæjarins og kynnt öllum stjórnendum, starfsfólki og kjörnum fulltrúum.

Jafnréttisstefna skal endurskoðuð einu sinni á kjörtímabili.

Jöfn staða kvenna og karla er grundvallaréttur og jöfn þátttaka kvenna og karla í ákvarðanatöku er forsenda lýðræðislegs þjóðfélags.

Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.

1. Samfélag og þjónusta

a.    Kynja- og jafnréttissjónarmið skulu samþætt inn í alla stefnumótun og ákvarðanatöku á vegum bæjarins.
b.    Konum og körlum skal ekki mismunað í þjónustu og starfsemi bæjarins.
c.    Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum bæjarins skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.
d.    Unnið skal markvisst að því að auka jafnréttisvitund íbúa.
e.    Stöðugt skal unnið að því að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
f.    Markvisst skal unnið að afnámi staðalímynda.
g.    Markvisst skal unnið gegn kynbundnu ofbeldi.
h.    Þau félagasamtök sem njóta styrkja frá bænum skulu skila inn kyngreindum upplýsingum með ársskýrslum.

2. Menntun og uppeldi

a.    Fræðsla um jafnréttismál skal veitt á öllum skólastigum.
b.    Starfsfólk á öllum skólastigum skal fá viðeigandi fræðslu og þjálfun til að búa nemendur af báðum kynjum undir þátttöku í jafnréttis- og lýðræðisþjóðfélagi.
c.    Kynjasjónarmiða skal gætt við skipulag náms og framsetningu kennsluefnis.
d.    Tekið skal mið af kynjasjónarmiðum við skipulag og framkvæmd frístundastarfs.
e.    Þess skal gætt á öllum skólastigum að allir foreldrar óháð kyni, þjóðfélagsstöðu, þjóðerni, litarhætti, móðurmáli og forræði barna hafi jafnan aðgang að upplýsingum.

3. Vinnustaðurinn

a.    Framkvæmd jafnréttisstefnu er hluti af árlegum starfsáætlunum bæjarins þar sem svið og stofnanir setja sér mælanleg markmið og raunhæfar leiðir í jafnréttismálum.
b.    Unnið skal markvisst að því að auka jafnréttisvitund starfsfólks.
c.    Starfsfólk og kjörnir fulltrúar skulu fá markvissa fræðslu um jafnréttismál.
d.    Í auglýsingu um starf hjá Mosfellsbæ skal koma fram hvatning þess efnis að konur jafnt og karlar sæki um starfið.
e.    Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í starf hjá Mosfellsbæ.
f.    Þess skal gætt að konur og karlar njóti að öllu leyti sambærilegra kjara og
starfsaðstæðna. Það telst þó ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og fæðingar.

Samþykkt á 564. fundi bæjarstjórnar 14. september 2011.