Lýðræðisstefna

Lýðræðisstefna Mosfellsbæjar

Markmið og leiðir

Lýðræðisstefna Mosfellsbæjar er afrakstur samvinnu íbúa, starfsfólks og fulltrúa þeirra flokka sem eiga sæti í bæjarstjórn. Lýðræðisstefnan byggir á heildarstefnu Mosfellsbæjar sem samþykkt var árið 2008 og gildum sveitarfélagsins sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.

Leiðarljós lýðræðisstefnu er að virkja íbúa til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins og tryggja þannig aukna þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og mótun nærumhverfis síns . Þannig skal stuðlað að virku íbúalýðræði sem leiðir af sér sátt um  stefnumótun og ákvarðanir sveitarfélagsins.


1.    Stjórnsýsla og gegnsæi

a.    Íbúar hafi greiðan aðgang að öllum gögnum sveitarfélagsins, fyrirtækja þess og samtaka sem það á aðild að, eftir því sem lög og reglugerðir heimila.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:

i.    Mótaðar verði verklagsreglur um aukinn aðgang íbúa að gögnum og upplýsingum.
ii.    Mosfellsbær hvetji fyrirtæki og samtök sem Mosfellsbær á aðild að til þess að setja sér sambærilegar verklagsreglur og getið er um í lið i hér að ofan.

b.    Sífellt sé leitað nýrra leiða til að tryggja gott upplýsingaflæði til íbúa.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:

i.    Tryggja það að vefur Mosfellsbæjar og aðrir samskiptamiðlar séu markvisst nýttir til samskipta við íbúa og upplýsingagjafar um starfsemi sveitarfélagsins.
ii.    Upplýsingum á vef Mosfellsbæjar sé ávallt viðhaldið og tryggt að íbúar hafi sem greiðastan aðgang að þeim. Upplýsingum skal miðlað af hlutleysi.
iii.    Fundargerðir nefnda verði lýsandi fyrir efni fundarins og þær ákvarðanir sem þar eru teknar og afstöðu einstakra nefndarmanna í því skyni að tryggja gagnsæi í nefndarstörfum.
iv.    Fundir bæjarstjórnar skulu vera aðgengilegir á vef Mosfellsbæjar.
v.    Halda fræðslu-, upplýsinga- og samráðsfundi um málefni sveitarfélagsins eftir því sem þurfa þykir.
vi.    Nýta fjölmiðla til að miðla upplýsingum um starf sveitarfélagsins eftir því sem við á.
vii.    Íbúagátt Mosfellsbæjar verði nýtt sem umræðuvettvangur um málefni sveitarfélagsins.
viii.    Íbúar hafi greiðan aðgang að bæjarfulltrúum, bæjarstjóra og öðrum embættismönnum meðal annars í gegnum auglýsta viðtals- og símatíma og tölvupóstsamskipti.
ix.    Hver og ein nefnd leitist við að hafa opinn upplýsinga- og samráðsfund fyrir bæjarbúa einu sinni á ári.

c.    Tryggt skal að upplýsingar um fyrirhugaðar stjórnvaldsákvarðanir, stefnumótun og/eða framkvæmdir á vegum bæjarins berist tímanlega til hlutaðeigandi íbúa svo þeir geti sett sig inn í málið.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:
i.    Nota  kynningarbréf, kynningarfundi, auglýsingar í fjölmiðlum og tilkynningar á vef Mosfellsbæjar, Íbúagátt og/eða öðrum samskiptamiðlum.

2.    Samráð og íbúakosningar

a.    Leita skal álits íbúa við ákvarðanatöku í málefnum er varða hagsmuni þeirra.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:

i.    Halda fundi með íbúum í viðkomandi hverfi eða hverfum.
ii.    Hafa samráð við hverfasamtök.
iii.    Framkvæma skoðanakannanir, til dæmis á vef Mosfellsbæjar og/eða Íbúagátt og gefa íbúum tækifæri til að koma með athugasemdir og ábendingar.
iv.    Að birta niðurstöður skoðanakönnunar á opinberum vettvangi.

b.    Tryggja skal markvisst samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar þannig að óskir og væntingar þeirra séu hafðar að leiðarljósi við ákvarðanatöku.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:

i.    Boða  samráðsfundi þar sem íbúum og öðrum hagsmunaaðilum gefst kostur á að taka þátt í umræðum og koma skoðunum á framfæri þannig að endanlegar ákvarðanir endurspegli sameiginlegan vilja íbúa, annarra hagsmunaaðila og bæjaryfirvalda.
c.    Framkvæmd íbúakosninga fer eftir gildandi ákvæðum sveitarstjórnarlaga.
Sjá lagasafn Alþingis: http://www.althingi.is/altext/139/s/1998.html.

3.    Þekking og fræðsla

a.    Íbúar hafi aðgang að upplýsingum um rétt sinn og tækifæri til að hafa áhrif á stjórnvaldsákvarðanir, stefnumótun og framkvæmdir.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:
i.    Halda reglulega fræðslufundi með íbúum um lýðræðismál, til að mynda í tengslum við evrópska lýðræðisviku sem haldin er á hverju hausti.
ii.    Hafa tengil á vef bæjarins með nánari upplýsingum um íbúalýðræði og skulu þær upplýsingar einnig vera aðgengilegar á að minnsta kosti einu erlendu tungumáli.

b.    Kjörnir fulltrúar og starfsfólk Mosfellsbæjar fái viðeigandi þjálfun og fræðslu í lýðræðismálum.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:
i.    Reglulega fari fram kynning og umræða meðal starfsfólks og kjörinna fulltrúa um lýðræðisstefnu og mikilvægi hennar þannig að stefnan verði leiðarljós í daglegu starfi.

c.    Í skólum bæjarins skal fara fram markviss fræðsla um lýðræði í samræmi við aðalnámskrá leik- og grunnskóla og skólastefnu Mosfellsbæjar.

Leitast verður við að ná þessu markmiði með því að:
i.    Starfsfólk leik- og grunnskóla fái reglulega fræðslu og þjálfun um lýðræði í skólastarfi.
ii.    Ungmennaráð komi með beinum hætti að lýðræðisfræðslu í grunnskólum.

4.    Framkvæmd lýðræðisstefnu

a.    Lýðræðisstefna er á forræði bæjarráðs og hefur staðardagskrárfulltrúi á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar umsjón með framkvæmd hennar.

Staðardagskrárfulltrúi fylgist með framkvæmd stefnunnar meðal annars á eftirfarandi hátt:

i.    Staðardagskrárfulltrúi taki á móti ábendingum frá íbúum hvað varðar framkvæmd lýðræðisstefnu og geri þær aðgengilegar á vef bæjarins.
ii.    Í febrúarbyrjun ár hvert skili staðardagskrárfulltrúi greinargerð til bæjarráðs þar sem farið er yfir hvernig kjörnir fulltrúar og starfsfólk Mosfellsbæjar hafa staðið sig í að framfylgja stefnunni.
iii.    Við sama tækifæri leggi staðardagskrárfulltrúi fram tillögur til úrbóta sé þess þörf.