Stefna í íþrótta- og tómstundamálum

Íþrótta- og tómstundanefnd hefur samþykkt drög að stefnu Mosfellsbæjar í íþrótta- og tómstundamálum og fara þau hér að neðan. Nefndin óskar eftir ábendinum eða athugasemdum frá íbúum varðandi drögin. Ábendingum er hægt að koma á framfæri með því að fylla inn formið hér til hliðar.

Stefna Mosfellsbæjar í íþrótta- og tómstundamálum:

 (Hér má nálgast stefnuna í Word-skjali)

Stefna Mosfellsbæjar í íþrótta- og tómstundamálum byggir á stefnu sveitarfélagsins og tekur mið af eldri stefnu um málaflokkinn.

Mosfellsbær vann að stefnumótun fyrir bæjarfélagið og stofnanir þess á árinu 2008.  Bæjarstjórn samþykkti þessa stefnu á 488. fundi sínum  9. apríl 2008.  Í framhaldi af þessari stefnumótun hafa  einstakir þættir í stefnu Mosfellsbæjar verið útfærðir með stefnumótun fyrir einstaka málaflokka og hefur verið byggt á þeim grunni sem lagður var á árinu 2008.

Við stefnumótunarvinnu málaflokksins var tekið mið af þeim breyttu aðstæðum í Mosfellsbæ frá fyrri stefnumótun sem er frá árinu 2001.   Bæjarfélagið hefur stækkað mikið á undanförnum árum, íbúar eru tæplega 8.500 og hefur íbúum fjölgað um þriðjung.   Meðalaldur íbúa Mosfellsbæjar er jafnframt lágur,  en um 35% íbúa eru 20 ára og yngri.  Stefna í íþrótta-, útivistar- og tómstundastarfi þarf að mótast af þessari staðreynd.

Vorið 2009 var haldinn fundur um stefnumótun hins nýstofnaða menningarsviðs Mosfellsbæjar sem íþrótta- og tómstundamál heyra undir.  Fundurinn var opinn öllum bæjarbúum og hafa hugmyndir frá þeim fundi mótað endurskoðun íþrótta- og tómstundastefnunnar.  Fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til að vinna þessi byrjunarverkefni stefnumótunarinnar í samvinnu við íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins. Íþróttafulltrúi og tómstundafulltrúi bæjarins ásamt forstöðumanni menningarsviðs hafa síðan unnið úr þessum gögnum og samræmt útlit stefnunnar við aðrar stefnur í málflokkum bæjarins.

Íþrótta- og tómstundastefna Mosfellsbæjar tekur mið af hlutverki og framtíðarsýn í stefnu Mosfellsbæjar: 

”Mosfellsbær er framsækið samfélag sem ræktar vilja og virðingu

Mosfellsbær er eftirsótt bæjarfélag til búsetu þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Mosfellsbær er framsækið samfélag þar sem ábyrgðarkennd ríkir gagnvart náttúru og umhverfi auk þess sem hagkvæmni í rekstri og samfélagsleg ábyrgð eru ávallt höfð að leiðarljósi. Stjórnsýsla og þjónusta Mosfellsbæjar eru skilvirk, ábyrg, vönduð og í fremstu röð á Íslandi. Mosfellsbær er eftirsóknarverður vinnustaður hæfra einstaklinga þar sem áhersla er lögð á persónulega og nútímalega þjónustu.”

Gildi í stefnu Mosfellsbæjar endurspeglast einnig í íþrótta- og tómstundastefnunni, stefnan lagar sig að meginstefnuáherslum bæjarins og er í samræmi við aðrar samþykktir bæjarstjórnar um íþrótta- og tómstundamál. Þá tekur stefnan mið af lögum, reglugerðum og samþykktum ríkisstjórnar Íslands.

Framtíðarsýn málaflokks

Í Mosfellsbæ byggja lífsgæði íbúa á ræktun lýðheilsu fyrir alla í sátt við umhverfið.  Umgjörð til tómstundaiðju í Mosfellsbæ er einstök á landsvísu og hvetur fólk á öllum aldri til þátttöku í íþróttum, hreyfingu, útivist og annarri frístundastarfsemi. Mosfellsbær er eftirsóknarvert  bæjarfélag til búsetu vegna sjálfbærrar nýtingar náttúru og umhverfis til útivistar fyrir alla, frábærrar aðstöðu og  framúrskarandi íþrótta- og tómstundastarfsemi.

Leiðarljós

Mosfellsbær hefur að  leiðarljósi öflugar forvarnir í sveitarfélaginu með breiðri samvinnu íþrótta- og tómstundafélaga og annarra aðila sem málið snertir.  Þannig stuðla samræmdar aðgerðir innan bæjarfélagsins að bættri lýðheilsu íbúanna.  Mosfellsbær veitir öllum jöfn tækifæri til að eflast og þroskast óháð aldri, uppruna, efnahag og kynferði og vinnur þannig gegn fordómum.

Meginmarkmið

Mosfellsbær skapi bæjarbúum tækifæri til bættra lífsgæða með fjölbreyttum möguleikum til hreyfingar, útiveru, iðkunar íþrótta og annarrar afþreyingar og tómstundaiðju.

Mosfellsbær verði í fararbroddi sveitarfélaga með samþættingu frístundastarfs og faglega uppbyggingu íþrótta- og félagsstarfs í samræmi við lýðheilsusjónarmið.

Meginflokkar

Stefnan byggir á sex megin flokkum málflokksins og framkvæmdaáætlun, sem unnin er sérstaklega, tilgreinir hvernig unnið skal að einstökum verkefnum.

Flokkar þessir eru:

1.          Íþróttir – hreyfing

2.          Íþróttafélög

3.          Tómstundir og tómstundafélög

4.          Lýðræði

5.          Forvarnir

6.          Útivist

Markmið og leiðir

1. Íþróttir - Hreyfing

Stefna

Að Mosfellsbær verði í fararbroddi sveitarfélaga, um faglega uppbyggingu íþrótta og félagsstarfs í samræmi við lýðheilsustefnu bæjarfélagsins.

Að þátttaka almennings í íþróttum í Mosfellsbæ verði til eftirbreytni á landsvísu.

Markmið

1.1              Að auka þátttöku í íþróttum meðal íbúa Mosfellsbæjar á öllum aldri

1.2              Að efla lýðheilsu íbúanna og stuðla að aukinni hreyfingu almennings í bænum

1.3              Að íþróttastarf sé virkt forvarnarafl í bæjarfélaginu

1.4              Að veita sem flestum tækifæri til íþróttaiðkunnar og útivistar óháð getu og aldri

1.5              Að stuðlað verði að framþróun íþróttastarfsemi í bæjarfélaginu og aðstaða til íþróttaiðkunar sé eins og best gerist

1.6              Að leitað sé nýrra leiða við nýtingu aðstöðu til íþróttaiðkunnar

2. Íþróttafélög

Stefna

Að Mosfellsbær skapi umhverfi fyrir heilbrigt starf íþróttafélaga

Markmið:

2.1       Íþróttafélög  í Mosfellsbæ móti og birti markvissa stefnu í starfsemi sinni fyrir börn og unglinga, sem og fyrir aðra aldurshópa og afreksíþróttir

2.2       Íþróttafélögin starfi samkvæmt stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga

2.3       Að öll börn og unglingar geti tekið þátt í starfi félaganna, óháð fjárhag

2.4       Sveitarfélagið sé bakhjarl í barna- og unglingastarfi íþróttafélaga sem hafa haft að markmiði að þjónusta börn bæjarins

2.5       Haldið verði áfram að styðja við uppbyggingu íþróttasvæða íþróttafélaga í

            Mosfellsbæ

2.6        Að flétta ennfrekar saman íþrótta- og tómstundastarf við leik-, grunn,- og framhaldsskólastarf og stuðla þannig að heildstæðum vinnudegi barna og ungmenna.

3. tómstundir og tómstundafélög

Stefna

Að Mosfellsbær skapi það umhverfi sem þarf til að hægt sé að efla og auka á markvissan hátt þátttöku í tómstundastarfi og bæjarfélagið stuðli að heilbrigðri tómstundaiðju

Markmið

3.1       Að Mosfellingar sem að vilja og hafa áhuga á að vera með í tómstundarstarfi geti verið með og haft áhrif á það starf sem að fram fer

3.2       Markvisst virkja til þátttöku þá einstaklinga sem þarfnast stuðnings

3.3       Leita nýrra leiða í tómstundastarfi, með þátttöku allra bæjarbúa, stofnanna og félagasamtaka

3.4       Að í tómstundastarfi geti sem flest börn og unglingar tekið þátt, óháð fjárhag

3.5       Haldið verði áfram að styðja við uppbyggingu útivistar- og tómstundaaðstöðu í Mosfellsbæ, í samvinnu við frjáls félagasamtök þegar það á við

4. Lýðræði

Stefna

Efla íbúalýðræði í Mosfellsbæ og leggja sérstaka rækt við að þroska ungmenni til lýðræðislegrar þátttöku og ábyrgðar á frístundastarfi í bæjarfélaginu

Markmið

4.1       Að efla lýðræði, jafnrétti og jafnræði

4.2       Að í  tómstundastarfi í Mosfellsbæ verði íbúalýðræði í hávegum haft

4.3       Íbúar hafi möguleika á að taka þátt í stefnumótun og hafi áhrif á ákvarðanatöku

6.  Forvarnir

Öflugt forvarnarstarf er mikilvægt til að unglingar rati á heilbrigðar brautir í lífinu. Með samstarfi og fræðslu til barna- og unglinga, fjölskyldna og allra þeirra sem að starfa með börnum bæjarins er lagður grundvöllur að sterkari samfélagsvitund og ábyrgð allra bæjarbúa að forvörnum. Íþrótta- og tómstundastarf kemur í veg fyrir félagslega einangrun og eflir samfélagslega ábyrgð og virkni einstaklinga.

Stefna

Að í Mosfellsbæ verði lögð megináhersla á heilbrigt  Íþrótta- og tómstunda-  og  forvarnarstarf

Markmið

6.1       Að í Mosfellsbæ sé ávalt öflugt og fjölbreytt íþrótta og tómstundastarf  í boði fyrir alla aldurshópa, eitthvað við allra hæfi

6.2       Að boðið sé upp á fræðslu í forvörnum til allra hagsmunaaðila

6.3       Að unnið sé að markvissum forvörnum á grundvelli þekkingar og kannana á þeim hópum einstaklinga sem eru í áhættu

6. Útivist

Stefna

Mosfellsbær stefni að sjálfbærri nýtingar náttúru og umhverfis til útivistar fyrir alla og uppbyggingu útivistaraðstöðu í anda sjálfbærrar þróunar.

Markmið:

6.1       Efla útiveru íbúa bæjarins á öllum aldri og óháð getu

6.2       Tryggja öryggi bæjarbúa á göngu- og hjólreiðastígum

6.3       Unnið að uppbyggingu útivistaraðstöðu í völdum stöðum í náttúru Mosfellsbæjar og við reið-, göngu- og ferðaleiðir í Mosfellsbæ