Stefna í þróunar- og ferðamálum

Stefna Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum

Stefna Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum byggir á stefnu sveitarfélagsins sem Bæjarstjórn samþykkti  á 488. fundi sínum  9.apríl 2008.  Í framhaldi af þessari stefnumótun er gert ráð fyrir að hrinda í framkvæmd einstökum þáttum í áherslum stefnu Mosfellsbæjar og gert ráð fyrir að stefnur  bæjarfélagsins í einstökum málaflokkum byggi á þeim grunni sem lagður var á árinu 2008.
 
Mosfellsbær er framsækið samfélag sem ræktar vilja og virðingu

Mosfellsbær er eftirsótt bæjarfélag til búsetu þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Mosfellsbær er framsækið samfélag þar sem ábyrgðarkennd ríkir gagnvart náttúru og umhverfi auk þess sem hagkvæmni í rekstri og samfélagsleg ábyrgð eru ávallt höfð að leiðarljósi. Stjórnsýsla og þjónusta Mosfellsbæjar eru skilvirk, ábyrg, vönduð og í fremstu röð á Íslandi. Mosfellsbær er eftirsóknarverður vinnustaður hæfra einstaklinga þar sem áhersla er lögð á persónulega og nútímalega þjónustu.

Stefna Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum byggist á stefnumótun Mosfellsbæjar 2008 og öðrum samþykktum. Þá tekur stefnan mið af, lögum, reglugerðum og samþykktum ríkisstjórnar Íslands. Stefnan byggir á þremur megin flokkum í starfsemi sveitarfélagsins og framkvæmdaáætlun tilgreinir hvernig unnið skal að einstökum verkefnum.

Flokkar þessir eru: 

  1. Þróun og nýsköpun
  2. Heilsubærinn Mosfellsbær
  3.  Ferðaþjónusta

Leiðarljós

Mosfellsbær er eftirsótt og framsækið samfélag sem leggur áherslu á þróun og nýsköpun í samvinnu við atvinnulíf og bæjarbúa.  Mosfellsbær leggur sértaka áherslu á að styrkja ferðaþjónustu á grundvelli menningar, heilsu- og íþróttatengdrar starfsemi og hefur að leiðarljósi ábyrgðarkennd gagnvart náttúru og umhverfi í samræmi við markmið Staðardagskrár 21.

Meginmarkmið

Meginmarkmið Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum er að efla og örva þróun, nýsköpun og ferðaþjónustu í Mosfellsbæ og vera þannig hvati til aukinnar hagsældar fyrirtækja og íbúa í bænum.

1.       Þróun og nýsköpun

Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu kalla fram aukna áherslu á nýsköpun og þróun.  Nýsköpun, frumkvöðlastarf og stöðug þróun samfélagsþjónustu og atvinnulífs er forsenda samfélagslegra framfara.  Mosfellsbær styður við uppbyggingu hvers konar frumkvöðlastarfsemi og stofnun sprotafyrirtækja.

Stefna:

Mosfellsbær verði þekktur fyrir drifkrafta í nýsköpun til stöðugrar framþróunar samfélagsins og bæti með því lífsgæði bæjarbúa.

Markmið:

1.1.    Í Mosfellsbæ eflist nýsköpun og þróun sem leið af sér stofnun sprotafyrirtækja

1.2.    Mosfellsbær stuðlar að samstarfi hagsmunaaðila um nýsköpun í atvinnulífi, bæði meðal starfandi fyrirtækja og nýliða, sem leiði til öflugs samfélags og fjölbreytts mannlífs.

1.3.    Mosfellsbær stuðlar að nýsköpun- og þróun samfélagsþjónustu, bæði á vegum stofnana bæjarins og annarra opinberra aðila.

1.4.    Hvetja margs konar fyrirtæki til að setjast að í Mosfellsbæ til að efla fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja samfélagsstoðir.

 
2.       Heilsubærinn Mosfellsbær

Heilsu- og endurhæfingartengd starfsemi í Mosfellsbæ er ein meginstoð atvinnulífs með um 450 starfsgildi vorið 2009.   Í bæjarfélaginu er Reykjalundur - eitt öflugasta fyrirtækið á sviði endurhæfingar og heilsueflingar á Íslandi.  Íþróttamiðstöðvar tvær, að Varmá og Lágafelli, eru með fjölbreytta stafsemi á sviði heilsueflingar. Auk þess er heilsugæsla og margvísleg önnur heilsu- og endurhæfingartengd starfsemi í bæjarfélaginu. 

Stefna:

Mosfellsbær verði miðstöð heilsueflingar og heilsutengdrar ferðaþjónustu með fjölbreytta starfsemi á sviði lýðheilsu, heilsueflingar og endurhæfingar.

Markmið:

2.1.    Efla heilsuþjónustu og heilsutengt atvinnulíf í Mosfellsbæ.

2.2.    Mosfellsbær verði markaðssettur sem bær endurhæfingar og heilsueflingar.

2.3.    Mosfellsbær nýti sér sérstöðu sína í þágu heilsutengdrar ferðaþjónustu

2.4.    Hvetja atvinnulíf til framleiðslu heilsutengdra vara.

2.5.    Koma á lýðuheilsuvottun á vörum og þjónustu frá Mosfellsbæ.

2.6.    Stuðla að fjölbreytni í lýðheilsuverkefnum í Mosfellsbæ


3.       Ferðaþjónusta

Ferðaþjónusta er ein af þeim atvinnugreinum sem hefur vaxið hvað mest hérlendis á undanförnum árum og stefna verður að því að Mosfellsbær nýti sér þá þróun sem best.  Í Mosfellsbæ hefur þjónusta við gesti og ferðamenn einnig vaxið, bæði við innlenda og erlenda ferðamenn.  Íþróttamiðstöðin Lágafell með sundlaugaraðstöðu sem er eftirsótt á höfuðborgarsvæðinu.  Sértæk þjónusta í ferðaiðnaði sem tengist ull og prjóni á sér sögu í Mosfellsbæ og vex enn til að mynda í Álafosskvos.  Söfn eins og Gljúfrasteinn ýta undir væntingar um landvinninga í menningartengdri ferðaþjónustu.
 
Stefna:

Uppbygging öflugrar ferðaþjónustu í Mosfellsbæ miðist við að íbúar jafnt sem ferðamenn geti notið hennar allt árið.   Byggja skal á þeim verðmætum sem saga, náttúra og mannlíf Mosfellsbæjar býr yfir.

Markmið:

3.1.    Tækifæri í ferðaþjónusta verði nýtt til þróunar staðarsamfélagsins og byggi á sjálfbærum forsendum.

3.2.    Áhersla verði lögð á sögu- og menningartengda ferðaþjónustu sem byggir á staðarsögu og mosfellskri menningu.

3.3.    Byggð verði upp viðburðartengd ferðaþjónusta – bæði fastir árlegir viðburðir og fjölbreyttar uppákomur.

3.4.    Lögð áhersla á uppbyggingu og samþættingu útivistar- íþrótta- og heilsutengdrar ferðaþjónustu.

3.5.    Byggð upp óhefðbundin ferðaþjónusta sem byggir á fjölbreytileika og menningu mannlífs í Mosfellsbæ.