Félagsleg húsnæðismál

Húsnæðisfulltrúi:  Kristbjörg Steingrímsdóttir

Símatími: mánudaga og miðvikudaga kl. 10-11:00 í síma 525 6700

Netfang:  Kristbjorgs[hja]mos.is

Markmiðið með þjónustu á sviði félagslegra húsnæðismála er að stuðla að því að íbúar geti búið við öryggi í húsnæðismálum.  Þjónustan er í samræmi við lög um húsnæðismál nr. 44/1998 og önnur lög eftir því sem við á hverju sinni.

Fjölskyldunefnd fer með málefni félagslegra húsnæðismála í umboði bæjarstjórnar. 
Starfsmenn fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar sjá um framkvæmd þjónustunnar. 

Félagslegar leiguíbúðir
Markmið með úthlutun félagslegra leiguíbúða er að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum úrlausn í húsnæðismálum, sem ekki eru færir um það sjálfir. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis er einungis ætlað að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Almenn skilyrði fyrir úthlutun leiguíbúða eru:
- Umsækjandi sé búsettur í Mosfellsbæ og hafi verið það sl. 12 mánuði þegar umsókn er tekin til afgreiðslu fjölskyldunefndar.  Heimilt er þó að víkja frá þessari reglu við mjög sérstakar og óvenjulegar aðstæður.

- Umsækjandi sé ekki í vanskilum við stofnanir bæjarfélagsins eða fyrirtæki.

Félagslegar leiguíbúðir í Mosfellsbæ eru 28.  Um úthlutun félagslegra leiguíbúða gilda reglur sem bæjarstjórn hefur samþykkt. Hægt er að nálgast þær reglur með því að fylgja hlekk hér að neðan:

Úthlutun félagslegra leiguíbúða

Húsaleigubætur
Lög um húsaleigubætur nr.138/1997 tóku gildi 1. janúar 1998.  Markmið laganna eru að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og að draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.

Húsaleigubætur eru greiddar þeim sem leigja íbúðarhúsnæði og eiga þar lögheimili. 

Grunnstofn húsaleigubóta er 13.500 kr. fyrir íbúð.  Að auki bætast við 14.000 kr. fyrir fyrsta barn, 8.500 kr. fyrir annað og 5.500 kr. fyrir þriðja.  Til viðbótar koma 15% þess hluta leigufjárhæðar sem er á bilinu 20.000 - 50.000 kr.   Húsaleigubætur geta aldrei orðið hærri en 50% af leigufjárhæð og að hámarki 46.000 kr. á mánuði.  Tekjur og eignir geta skert upphæð húsaleigubóta. 

Sérstakar húsaleigubætur

Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra erfiðleika. Aðstæður umsækjenda eru metnar út frá ákveðnum viðmiðum.

Sérstakar húsaleigubætur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu vegna samþykktra íbúða á almennum markaði til viðbótar við almennar húsaleigubætur.

Umsóknir skulu berast fjölskyldusviði á þar til gerðum eyðublöðum .
Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu og með samþykki umsækjanda.  Endurnýja skal umsókn um sérstakar húsaleigubætur á sex mánaða fresti og um leið og endurnýjun almennra húsaleigubóta á sér stað. Í tilvikum þar sem umsækjandi á við fjárhagsvanda að etja og skuldastaða er slæm, skal viðkomandi gera skriflega áætlun um fjárhagslega stöðu, með það að markmiði að vinna að varanlegri lausn vandans. Áætlunin endurskoðist við endurnýjun húsaleigubóta.

Sérstakar húsaleigubætur eru reiknaðar sem ákveðið hlutfall af almennum húsaleigubótum þannig að fyrir hverjar kr. 1.000 fær leigjandi kr. 1.300 í sérstakar húsaleigubætur. Þó geta húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur aldrei numið hærri fjárhæð en samtals kr. 50.000 og aldrei farið yfir 75% af leigufjárhæð.
Um sérstakar húsaleigubætur gilda reglur sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt. Hægt er að nálgast þær reglur með því að fylgja hlekk hér að neðan:

Sérstakar húsaleigubætur

Gjaldskrá
Gjald er tekið fyrir þjónustu sem veitt er á grundvelli laga um húsnæðismál nr. 44/1998 skv. gjaldskrá sem bæjarstjórn hefur sett.

Þagnarskylda
Fulltrúar fjölskyldunefndar og starfsmenn fjölskyldusviðs eru bundnir þagnarskyldu um einkamál þeirra sem njóta þjónustu sviðsins. Þagnarskyldan helst þrátt fyrir að viðkomandi láti af störfum.

Áfrýjun
Trúnaðarmálafundur fjölskyldudeildar fer yfir umsóknir um félagslegar leiguíbúðir og húsaleigubætur og afgreiðir þær í samræmi við reglur Mosfellsbæjar.  Umsækjandi getur áfrýjað afgreiðslu fundarins til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.
Ákvörðun fjölskyldunefndar sem tekin er á grundvelli laga um húsnæðismál nr. 44/1998 og reglna Mosfellsbæjar, getur umsækjandi áfrýjað til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.   Nefndin hefur aðsetur í félagsmálaráðuneytinu í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu.
Áfrýjun skal borin fram skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um afgreiðslu umsóknar.

Umsóknareyðublöð
Umsóknareyðublöð eru í Þjónustuveri Mosfellsbæjar í Kjarna, Þverholti 2, 2. hæð og skal þeim skilað á sama stað.  Einnig eru rafræn umsóknareyðublöð og til útprentunar á heimasíðu, sjá upphafssíðu.

Nánari upplýsingar um félagsleg húsnæðismál er að finna í kynningarbækling.