Yfirfærsla málefna fatlaðra

Þjónusta ríkisins við fólk með fötlun færist til sveitarfélaganna 1. janúar 2011

Frá og með 1. janúar 2011 mun fjölskyldusvið Mosfellsbæjar sinna þjónustu við fólk með fötlun sem Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Reykjanesi hefur haft með höndum.

Samkomulag um faglegt og fjárhagslegt fyrirkomulag á tilfærslu málefna fólks með fötlun til sveitarfélaganna var undirritað 23. nóvember 2010 og frumvarp til laga um tilfærsluna á grundvelli samkomulagsins hefur verið samþykkt á Alþingi.

Markmið tilfæslu þjónustunnar eins og segir í 2. gr. samkomulagsins er að:
a)    bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum,
b)    stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga,
c)    tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviði stjórnsýslustiga,
d)    tryggja góða nýtingu fjármuna,
e)    styrkja sveitarstjórnarstigið og
f)    einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Við undirbúning verkefnisins í Mosfellsbæ hefur verið lögð áhersla á samþættingu þjónustunnar.